Fara í innihald

Jóhannes Kr. Jóhannesson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jóhannes Kr. Jóhannesson (14. júní 1885 - 22. nóvember 1953) var trésmiður og skáld í Reykjavík. Hann bauð sig fram til embættis Forseta Íslands. Jóhannes hugðist bjóða sig fram til forsetaembættis á Íslandi 1944 og 1952. Hann var stofnandi Friðarfrelsisflokksins sem hélt fundi 1943 og 1944 um sjálfstæðismálið og forsetaframboð Jóhannesar. Jóhannes stóð að útgáfu tímaritsins Friðarboðinn og Vinarkveðjur en það tímarit birti aðallega ýmis konar hól um Jóhannes sem og undirrituð bréf og vottorð sem áttu að sýna göfgi Jóhannesar og hæfileika. Einnig birti tímaritið kveðskap Jóhannesar. Í tímaritinu birtir Jóhannes undirrituð bréf frá ýmsum stórmennum m.a. þremum Bandaríkjaforsetum sem allir vitna um hæfileika Jóhannesar og hlaða á hann hóli og gjöfum. Taldi hann sig vera kjörson Roosevelt forseta og hafa verið gerður að heiðursforseta Bandaríkjanna og vera réttborinn forseti Íslands. Jóhannes hlaut dóm fyrir skjalafals árið 1919. Árið 1952 fór fram rannsókn á vegum Dómsmálaráðuneytisins á Friðarboðanum en áður höfðu nokkur eintök verið gerð upptæk. Einnig fór fram rannsókn á meðmælendalista Jóhannesar vegna forsetakosninga 1952 en meðal meðmælenda hans voru ýmis stórmenni svo sem Jesús Kristur. Fékk Jóhannes ekki að bjóða sig fram.[1][2][3]

Jóhannes var virkur í starfi Trésmíðafélags Reykjavíkur og kom að smíði margra húsa í Reykjavík. Hann var fyrsti eigandi hússins á Laugaveg 64 og einnig fyrsti eigandi hússins að Laugavegi 17 sem reist var 1908. Líklegt er talið að hann hafi reist húsið á Urðarstíg 12 sem byggt var 1921.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Héraðsskjalasafn (27. febrúar 2013). „Skjöl Jóhannesar Kr. Jóhannessonar á Borgarskjalasafni“. Skjalavefurinn (bandarísk enska). Sótt 17. ágúst 2022.
  2. „Friðarboðinn og vinarkveðjur (gefið út 1937-1952) timarit.is“.
  3. „Heiðurmarskálkur og King of liberty“. NT - Helgarblað 25. nóvember 1984.