Jóhannes Guðmundsson Nordal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jóhannes Guðmundsson Nordal (8. apríl 1850 - 8. október 1946) var íslenskur athafnamaður og brautryðjandi og stýrði um áratuga skeið fyrsta íshúsinu sem reist var á Íslandi.

Jóhannes var fæddur á Kirkjubæ í Norðurárdal í Austur-Húnavatnssýslu, sonur Guðmundar Ólafssonar og Margrétar Jónsdóttur, sem þar bjuggu. Faðir hans lést þegar hann var sex ára en móðir hans bjó áfram í Kirkjubæ með börn sín níu. Jóhannes fór ungur að heiman í vinnumennsku og var í 18 ár hjá hálfbróður sínum, sem bjó á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Flest eða öll alsystkini hans fluttust hins vegar til Vesturheims og þangað fór Jóhannes einnig 1887, en þá var afar mikið harðæri norðanlands, og tók upp ættarnafnið Nordal eins og systkini hans höfðu gert en þau kenndu sig við fæðingarsveitina; Norðurárdal.

Í Kanada stundaði Jóhannes einkum fiskveiðar á Winnipegvatni á sumrin en vann við íshús á veturna. Þá var ekkert íshús til á Íslandi og Tryggvi Gunnarsson gekkst árið 1894 fyrir því að stofnað var félag um rekstur slíks húss í Reykjavík og ákveðið að fá mann erlendis frá sem kynni til verka. Tryggvi fékk Jóhannes til að koma heim, enda mun hann alltaf hafa haft í huga að snúa aftur. Var hann þegar ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og stóð fyrir byggingu hússins, sem jafnan var kennt við hann og kallað Nordalsíshús. Þar var bæði fryst síld til beitu og einnig annar fiskur, auk þess sem íshúsið keypti kjöt til geymslu og seldi, og má kalla starfsemi íshússins upphafið að byltingu á atvinnháttum landsmanna. Jóhannes var forstjóri íshússins allt til 1933.

Jóhannes var ókvæntur en eignaðist tvö börn, Sigurð Nordal prófessor og Önnu Nordal. Á meðal afkomenda hans eru Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Jón Nordal tónskáld, Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar og Ólöf Nordal fyrrverandi alþingismaður.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Skörð fyrir skildi“. Frjáls verslun, 8-10 tölublað 1946.
  • „Jóhannes Nordal áttræður“. Morgunblaðið, 8. apríl 1930.