Irène Joliot-Curie

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Irène Joliot-Curie
Irène Joliot-Curie árið 1935.
Fædd12. september 1897
Dáin17. mars 1956 (58 ára)
DánarorsökHvítblæði
MenntunParísarháskóli
StörfEfnafræðingur
MakiFrédéric Joliot-Curie (g. 1926)
BörnHélène Langevin-Joliot og Pierre Joliot
ForeldrarMarie Curie og Pierre Curie
Verðlaun Nóbelsverðlaun í efnafræði (1935)

Irène Joliot-Curie (12. september 1897 – 17. mars 1956) var franskur efnafræðingur, eðlisfræðingur og stjórnmálamaður. Hún var dóttir Pierre Curie og Marie Curie og hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1935 ásamt eiginmanni sínum, Frédéric Joliot-Curie, fyrir að uppgötva manngerða geislavirkni. Joliot-Curie var einnig ein af fyrstu þremur konunum sem áttu sæti í ríkisstjórn Frakklands, en hún var undirritari í vísindaráðuneyti landsins í ríkisstjórn Léons Blum árið 1936.

Árið 1945 varð Joliot-Curie ein af sex framkvæmdastjórum Atómorkunefndar sem Charles de Gaulle og bráðabirgðastjórn lýðveldisins stofnuðu eftir seinni heimsstyrjöldina. Joliot-Curie lést árið 1956 úr hvítblæði, sama sjúkdómi og móðir hennar hafði látist úr, sem hún hafði fengið vegna vinnu sinnar í nánd við pólon og röntgengeisla.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bakgrunnur[breyta | breyta frumkóða]

Irène var dóttir vísindamannanna Marie og Pierre Curie. Foreldrar hennar hófu að mennta hana þegar hún var sex ára gömul og brátt var Irène komin með óforbetranlegan áhuga á stærðfræði.[1] Enginn skóli í París var því starfi vaxinn að mennta barn á hennar hæfnisstigi[1] og því sendi Marie Irène í sérskóla þar sem Irène nam í tvö ár.[2] Þar var svo búið um hnútana að börn gátu fengið nám með sérstakri áherslu á vísindi.[2] Auk móður Irène voru eðlisfræðingarnir Paul Langevin og Jean Perrin kennarar hennar.[1]

Irène nam síðar við Sévigné-háskólann í París og lauk prófi þaðan árið 1914.[3] Að námi þar loknu gekk hún í Sorbonne-háskóla en þurfti að gera hlé á námi þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út og hún var ráðin sem hjúkrunarfræðingur og geislafræðingur hjá hernum.

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Eftir stríðið útskrifaðist Irène með doktorsgráðu árið 1925 með ritgerð þar sem hún fjallaði um alfageislun af póloni.[4] Pólon er frumefni sem foreldrar Irène höfðu uppgötvað árið 1898.[5] Doktorsvörn Irène vakti athygli í Bandaríkjunum þegar fréttablaðið The New York Times fjallaði um hana.[6]

Árið 1926 giftist Irène Frédéric Joliot og hann varð hennar helsti samstarfsmaður í rannsóknum hennar. Á meðan Irène var ólétt af fyrsta barni þeirra árið 1927 sýktist hún af berklum og náði ekki fullri heilsu fyrr en eftir seinni heimsstyrjöldina.[7]

Árið 1932 komust Joliot-Curie-hjónin nærri því að uppgötva nifteindir með tilraunum sínum.[8] Hjónin tóku eftir óvenjulegum niðurstöðum en áttuðu sig ekki á því hvað þær merktu og því varð það James Chadwick sem varð síðar fyrstur til að greina nifteindir.[8] Í síðari tilraun komust hjónin einnig nálægt því að greina jáeindir en þau komust að skakkri niðurstöðu um rannsóknina og því varð það Carl D. Anderson sem uppgötvaði síðar jáeindir.[8]

Vegna rannsókna sinna á náttúrulegri og manngerðri geislavirkni, kjarneðlisfræði og kjarnabreytingum voru Joliot-Curie-hjónin sæmd Nóbelsverðlaununum í efnafræði árið 1935. Samkvæmt úrskurði Nóbelsnefndarinnar hlutu hjónin verðlaunin formlega fyrir að hafa uppgötvað manngerða geislavirkni.

Árið 1936 varð Joliot-Curie undirráðherra í vísindaráðuneyti Frakklands í stjórn Léons Blum[4][9] og var, ásamt tveimur öðrum konum í sömu stjórn, fyrst kvenna til þess að eiga sæti í ríkisstjórn Frakklands.[10] Joliot-Curie sagði upp embætti sínu eftir aðeins þrjá mánuði en bjó svo um hnútana að Jean Perrin tók við af henni.[10] Eftir störf sín hjá ríkisstjórninni varð Joliot-Curie prófessor við Parísarháskóla.[4]

Undir lok fjórða áratugarins versnaði berklaveiki Joliot-Curie og því flutti hún á heilsuhæli í svissnesku Ölpunum til þess að bæta heilsu sína.[10] Þrátt fyrir versnandi heilsu sína leiddi Joliot-Curie rannsóknir á úrani og eftir margar tilraunir birti hún niðurstöður þeirra þar sem hún greindi frá því að hún hefði uppgötvað nýja geislasamsætu sem líktist lantani.[10] Þýski eðlisfræðingurinn Otto Hahn taldi að Joliot-Curie hefði skjátlast í niðurstöðum sínum og tilkynnti eiginmanni hennar þetta á meðan hann fór yfir greinagerð hennar.[10] Þrátt fyrir aðfinnslur Hahns birti Joliot-Curie niðurstöður rannsóknarinnar óbreyttar eftir að hafa endurtekið tilraunina og fengið sömu niðurstöðu.[10] Joliot-Curie gerði sér ekki grein fyrir því að hún hefði verið nærri því að uppgötva kjarnaklofnun, og því varð það Otto Hahn sem gerði síðar þá uppgötvun eftir að hafa gert sömu tilraunir og hlaut fyrir þær Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1944.[11]

Árið 1943 varð Fréderic meðlimur í frönsku vísindaakademíunni. Irène sóttist eftir því að hljóta einnig aðild að akademíunni en var hafnað.[7] Árið 1946 varð Joliot-Curie framkvæmdastjóri Radíumstofnunarinnar (franska: Institut du Radium) sem móðir hennar hafði stofnað.

Líkt og móðir sín lést Irène Joliot-Curie úr hvítblæði sem talið er að hún hafi sýkst af vegna tilrauna sinna með geislavirk efni.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • Penny J. Gilmer. „2. Irène Joliot-Curie, A Nobel Laureate in Artifical Radiactivity“ (PDF) (enska). The Florida State University Chemistry & Biochemistry. Sótt 8. júlí 2019.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Hussey, George; Rand, Ruth. „IRENE JOLIET-CURIE“ (enska). woodrow.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2007. Sótt 8. júlí 2019.
  2. 2,0 2,1 „Irène Joliot-Curie and Frédéric Joliot“ (enska). Chemical Heritage Foundation. Sótt 8. júlí 2019.
  3. „Nuclear Files: Library: Biographies: Irene Joliot-Curie“ (enska). Nuclear Age Peace Foundation. Sótt 8. júlí 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Irène Joliot-Curie - Biography“ (enska). Nobelprize.org. Sótt 8. júlí 2019.
  5. „Polonium“ (sænska). Sótt 8. júlí 2019.
  6. Gilmer, bls. 6
  7. 7,0 7,1 Gilmer, bls. 14
  8. 8,0 8,1 8,2 „Jean-Frederic and Irene Curie“ (enska). American Institute of Physics. Sótt 8. júlí 2019.
  9. „Leon Blum myndaði stjórn sína í gærkvöldi“. Alþýðublaðið. 5. júní 1936. Sótt 8. júlí 2019.
  10. 10,0 10,1 10,2 10,3 10,4 10,5 Gilmer, bls. 12
  11. Gilmer, bls. 12-13