Ingjaldshóll
Ingjaldshóll er eyðibýli, fyrrum þingstaður og höfuðból í Neshreppi utan Ennis.
Ingjaldshóll er um 1 km frá Hellissandi og þar hefur staðið kirkja frá árinu 1317 og var hún fram á 19du öld þriðja stærsta kirkja landsins, á eftir dómkirkjunum í Skálholti og á Hólum, en áður var þar bænhús. Bæði var að sóknin var fjölmenn og eins mun hafa verið þar margmenni víða að af landinu á vertíðum og mun kirkjan hafa rúmað um 400 manns. sjá má merki um stærð hennar út frá hornsteinum sem þar sjást enn í kirkjugarðinum. Núverandi Ingjaldshólskirkja er elsta steinsteypta kirkja á landinu og raunar í öllum heiminum, reist árið 1903 og meðal gripa hennar er altaristafla sem danskir kaupmenn gáfu árið 1709 og lánuð var Brimilsvallakirkju 1923. Sú altaristafla sem nú er þar er eftirlíking af altaristöflu Dómkirkjunnar í Reykjavík frá 1903.
Sögur og sagnir
[breyta | breyta frumkóða]Svo segir frá Ingjaldi í Bárðar sögu Snæfellsáss, að hann hafi átt í útistöðum við Hettu, tröllkonu í Ennisfjalli. Vildi Hetta þessi Ingjald feigan og gjörði honum eitt sinn gjörningsveður er hann var á sjó. Taldi tröllkonan verknaðinn fullunninn og fór að Ingjaldshóli hvar hún kvað eftirfarandi:
- Út reri einn á báti
- Ingjaldur í skinnfeldi,
- týndi átján önglum
- Ingjaldur í skinnfeldi,
- og fertugu færi
- Ingjaldur í skinnfeldi,
- aftur kom aldrei síðan
- Ingjaldur í skinnfeldi.
Ingjaldur var þarna hætt kominn, en mun hafa bjargast fyrir tilverknað Bárðar Snæfellsáss. Sagnir hafa gengið um að sumarið 1477 hafi komið tiginn maður á skipi að Rifi og haft vetursetu á Ingjaldshóli. Hefur getum verið leitt að því að þar hafi farið Kristófer Kólumbus (1447-1506) sem þangað hafi komið til að kynna sér siglingar norrænna manna vestur um haf.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, H-K. Örn og Örlygur.
- Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
- „Elzta steinsteypta kirkjan í heiminum. Morgunblaðið, 29. september 2001“.