Ingiríður Sveinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ingiríður Sveinsdóttir (dáin eftir 1093) var dönsk konungsdóttir og drottning Noregs 1067-1093, kona Ólafs kyrra Noregskonungs.

Ingiríður var dóttir Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Ekki er vitað hver móðir hennar var en líklega var það engin af þremur konum Sveins konungs, heldur einhver af mörgum frillum hans. Fimm hálfbræður Ingiríðar urðu konungar Danmerkur.

Sveinn Ástríðarson taldi sig eiga tilkall til norsku krúnunnar eftir að Haraldur harðráði féll á Englandi 1066 en Ólafur kyrri, sonur Haraldar, gerði samkomulag við Svein þar sem hann féll frá tilkalli sínu og Ólafur gekk að eiga Ingiríði dóttur hans. Þau voru barnlaus þrátt fyrir langt hjónaband. Eftir að Ólafur lést 1093 og Magnús berfættur, frillusonur hans, tók við ríkinu er sagt að Ingiríður hafi flutt vestur í Sogn, gengið að eiga Svein Brynjólfsson á Aurlandi og átt með honum dótturina Hallkötlu. Til hennar eru raktar ættir í íslenskum ættartölum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]