In medias res
In medias res (latína: „í miðju efni“) er bókmenntahugtak sem á við það þegar frásögn hefst „í miðjum klíðum“ í staðinn fyrir að byrja á byrjuninni (sbr. ab ovo og ab initio). Stundum er þetta gert með því að einfaldlega sleppa kynningunni í upphafi frásagnar. Þess í stað kynnist áheyrandinn/lesandinn fyrri atburðum í samtölum, endurlitum eða lýsingum. Fræg dæmi um slíka frásagnartækni er að finna í Ilíonskviðu þar sem frásögnin hefst við lok Trójustríðsins, og Hamlet þar sem sagan hefst eftir dauða föður Hamlets.
Verk sem hefjast í miðjum klíðum nýta sér oft ólínulegan söguþráð með endurlitum til að koma forsögunni á framfæri. Í Ódysseifskviðu hefst frásögnin þar sem Ódysseifur er fangi á eyju Kalypsóar, en í síðari köflum er sagt frá atburðum ferðalagsins fram að þeim tíma.
Hugtakið in medias res kemur fyrst fram í ritinu Ars poetica eftir Hóratíus (um 13 f.Kr.).[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hóratíus. Ars poetica (latína). „nec gemino bellum Troianum orditur ab ovo; / semper ad eventum festinat et in medias res / [...] auditorem rapit“