Illuminati

Illuminati (/əˌluːmɪˈnɑːti/; fleirtala latneska orðsins illuminatus, ísl. „Hinir upplýstu“) er nafn á leynifélagi sem stofnað var 1. maí 1776 í Kjörfurstadæminu Bæjaralandi, á tíma upplýsingarinnar. Yfirlýst markmið leynireglunnar var að beita sér gegn hjátrú, menntaóbeit, trúarlegum áhrifum yfir opinberu lífi og misbeitingu ríkisvaldsins. Í samþykktum sínum sagði reglan að tilgangurinn væri að „binda enda á vélvirki boðbera ranglætisins, að stýra þeim án þess að undiroka þá.“[1]
Illuminati-reglan var bönnuð, ásamt Frímúrurum og öðrum leynifélögum, með tilskipunum sem Karl Theódór kjörfursti af Bæjaralandi gaf út með stuðningi kaþólsku kirkjunnar árin 1784, 1785, 1787 og 1790.[2] Á næstu árum fordæmdu og ófrægðu íhaldssamir og trúarlegir gagnrýnendur Illuminati-reglunnar hana. Þeir héldu því fram að hún hefði haldið áfram að starfa neðanjarðar og bæri ábyrgð á frönsku byltingunni. Þegar Illuminati-reglan var starfrækt í Bæjaralandi fékk hún til liðs við sig bókmenntamenn eins og Johann Wolfgang von Goethe og Johann Gottfried Herder og hertogana í Gotha og Weimar.[3]
Í seinni tíð hefur nafnið „Illuminati“ verið notað um ýmis samtök og stofnanir sem haldið er fram, án sönnunargagna, að séu framhöld af bæversku Illuminati-reglunni. Þessi samtök eru gjarnan sökuð um að leggja á ráðin um að stjórna framgangi heimsmálanna með því að sviðssetja hamfarir og koma útsendurum sínum fyrir innan ríkisstjórna og fyrirtækja til að safna pólitískum völdum og leggja grunn að nýrri heimsskipan. Í mörgum þekktum samsæriskenningum birtast Illuminati í lykilhlutverki sem skuggavaldið sem stýrir heiminum á bak við tjöldin.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun
[breyta | breyta frumkóða]
Illuminati-reglan var stofnuð þann 1. maí 1776 í Ingolstadt af Adam Weishaupt, prófessor í kirkjurétti í Bæjaralandi. Reglan kenndi sig við fríhyggju, rökhyggju og framfarastefnu, sem voru með róttækustu hugmyndastefnum upplýsingarinnar.[4] Árið 1777, stuttu eftir að reglan var stofnuð, tók íhaldssami kjörfurstinn Karl Theódór við völdum í Bæjaralandi af hinum framfarasinnaða og upplýsta Maximilian 3. Jósef.
Weishaupt vildi stofna reglu þar sem þekkingu skyldi deilt milli meðlima og dulrænni speki yrði miðlað til hinna hærra settu. Reglan var leynileg[5] og hlaut í fyrstu nafnið Bund der Perfektibilisten (Bandalag fullkomnunarsinna). Hún hlaut síðar nafnið Illuminatenorden (Regla hinna upplýstu).[6]
Tilgangur leynifélagsins var að stuðla að fullkomnun mannkynsins samkvæmt hugsjónum frelsis, jafnréttis og bræðralags.[7] Samkvæmt sagnfræðingnum Stéphane François vildi Adam Weishaupt taka fram úr íhaldsöflum í Bæjaralandi, þar sem íhaldssamir Jesúítar nutu mikilla áhrifa, með því að stofna framfarasinnaða elítu. Weishaupt vildi líka berjast gegn áhrifum Rósakrossreglunnar, sem var íhaldssamt leynifélag með tengsl við Frímúrara.[8]
Skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Illuminati-reglan tileinkaði sér suma siði og hefðir Frímúrarareglunnar, en var frábrugðin henni hvað varðaði markmið sín. Weishaupt titlaði sjálfan sig „hershöfðingja“ og naut aðstoðar svokallaðs „æðstaráðs“, eða Areopagus, sem var skipað fyrstu meðlimunum sem höfðu gengið í regluna.[9]
Aðeins forystumenn reglunnar áttu að þekkja leyndarmál og markmið hennar. Nýliðar áttu að bíða í tveggja ára reynslutímabil áður en þeir fengu formlega vígsluathöfn og hlutu tignina „Minerval“ (í höfuðið á Mínervu, gyðju viskunnar). Í fyrstu leitaði reglan sér aðeins nýrra meðlima í Bæjaralandi og taldi aldrei til sín fleiri en nokkra tugi manns fyrr en árið 1780. Það ár ákvað Weishaupt að efla samtökin með því að taka upp fleiri helgiathafnir Frímúrara. Weishaupt og aðrir meðlimir Illuminati komu sér fyrir í nokkrum þýskum frímúrarastúkum, meðal annars stúkunni „Zur Behutsamkeit“ í febrúar 1777 og stúkunni „St. Theodor zum guten Rat“ í München, sem tveir aðrir stjórnendur í Illuminati-reglunni gengu einnig í.[9]
Endurskipulag
[breyta | breyta frumkóða]
Fyrstu árin fékk leynireglan aðeins til liðs við sig fáeina meðlimi, aðallega návini og gamla nemendur Adams Weishaupt. Árið 1780 gekk barón að nafni Adolf von Knigge til liðs við hreyfinguna.[8] Hann hafði verið frímúrari frá árinu 1773 og hann skipti Illuminati-reglunni í þrjár deildir:
- Fyrsta deild – Græðireitur :
- Kennslubók
- Nýliði
- Minerval
- Síðri upplýstur
- Önnur deild – Frímúrarar :
- Lærisveinn
- Förunautur
- Meistari
- Síðri upplýstur eða skoskur nýliði
- Æðri upplýstur eða skoskur riddari
- Þriðja deild – Leyndardómar :
- Litlir leyndardómar - Prestur
- Litlir leyndardómar - Ríkisstjóri eða fursti
- Miklir leyndardómar - Seiðkarl
- Miklir leyndardómar - Konungur
Knigge tók upp heimspekistefnu sem var ekki eins fjandsamleg kirkjunni og sór sig fremur í ætt við heimspeki Rousseau, sem byggðist á meinlætalifnaði og endurhvarfi mannsins til náttúrulegs ástands.[10] Hann ákvað jafnframt að meðlimir Illuminati skyldu koma sér fyrir í frímúrarastúkum til að fá nýja meðlimi til liðs við regluna og að stefnt skyldi að því að fá embættismenn sem væru þegar í embætti til að ganga í hana. Með þessari stefnu fjölgaði meðlimum leynireglunnar úr fáeinum tugum manns í um 1.500.[8]
Þann 25. október 1782 var stórstúka reglunnar stofnuð. Illuminati-reglan hafði þá náð hápunkti sínum og var með meðlimi í Rínarlöndunum, Austurríki og Sviss. Á þessum tíma versnuðu hins vegar innbyrðis deilur í reglunni á milli Knigge og Weishaupt. Knigge, sem Weishaupt sakaði um „trúarofstæki“, sagði sig úr reglunni í apríl 1784 og birti endurminningar þar sem hann fordæmdi andklerkastefnu Weishaupt og meirihluta stjórnenda reglunnar.[9]
Bæling
[breyta | breyta frumkóða]
Árið 1782 hófu sumir frímúrarar að fordæma viðveru Illuminati í stúkum sínum.[8] Tveimur árum síðar sakaði Joseph Marius von Babo, í bréfinu Ueber Freymaurer, bæversku Illuminati-regluna um samsæri gegn ríkinu. Bréfið varð ein fyrsta ástæðan fyrir því að reglan var bönnuð með lögum, leyst upp og meðlimir hennar handteknir.[11]
Þann 22. júní 1784 bannaði Karl Theódór kjörfursti af Bæjaralandi starfsemi allra leynifélaga, þar á meðal bæði Illuminati og Frímúrarareglunnar. Í febrúar 1785 var Weishaupt rekinn úr háskólastarfi sínu og gerður útlægur frá Bæjaralandi. Hann flúði til Gotha og naut þar verndar hertogans af Saxlandi,[9] Friðriks Ágústs 3. (sem Napóleon gerði síðar að konungi Saxlands).
Blaðamaðurinn Johann Bode varð leiðtogi þess sem eftir var af Illuminati-reglunni. Árið 1787 flúði hann til Frakklands, fyrst til Strassborgar og síðan til Parísar.[12] Hann hitti þar meðlimi í Philalèthes-frímúrarastúkunni, sem sumir áttu saman í leynifélaginu Philadelphes, sem svipaði til þýsku Illuminati-reglunnar.[13]
Bæverska Illuminati-reglan hafði verið upprætt í suðurhluta Þýskalands árið 1786. Aðeins fáeinir meðlimir í Saxlandi héldu áfram að hittast til ársins 1789.[9]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Beaurepaire, Pierre-Yves (2008). Encyclopédie de la franc-maçonnerie. Le Livre de Poche. ISBN 978-2-253-13032-1.
- Iafelice, Michel-André (2008). Encyclopédie de la franc-maçonnerie. Le Livre de Poche. ISBN 978-2-253-13032-1.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Richard van Dülmen, The Society of Enlightenment (Polity Press 1992) bls. 110
- ↑ René le Forestier, Les Illuminés de Bavière et la franc-maçonnerie allemande, París, 1914, bls. 453, 468–469, 507–508, 614–615
- ↑ Schüttler, Hermann (1991). Die Mitglieder des Illuminatenordens, 1776–1787/93. Munich: Ars Una. bls. 48–49, 62–63, 71, 82. ISBN 978-3-89391-018-2.
- ↑ Jacques Mitterrand, „Franc-maçonnerie“, Encyclopédie Universalis, 1992, 9. bindi, bls. 935.
- ↑ Les francs-maçons, une société secrète, Marco Carini. Parragon Books Ltd, Queen Street House. 4 Queen Street. Bath BH1 1 HE, Royaume-Uni. ISBN 978-1-4054-9748-0, bls. 77.
- ↑ Franz Xaver von Zwack. „Beurkundete Geschichte des Illuminaten-Ordens“. Wikisource..
- ↑ Cf. A. Weishaupt, Rede an die neu aufzunehmenden Illuminatos dirigentes (1782) : « Wer also allgemeine Freiheit einführen will, der verbreite allgemeine Aufklärung : aber Aufklärung heißt nicht Wort- sondern Sachkenntniß, ist nicht Kenntniß von abstracten, speculativen, theoretischen Kenntnissen, die den Geist aufblasen, aber das Herz um nichts bessern. »
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 Stéphane François (2015). „Un mythe contemporain : les Illuminati“. L'Anthropologie pour tous. Actes du colloque du 6 juin 2015, Saint-Benoist-sur-Mer. bls. 86–93.
- ↑ 9,0 9,1 9,2 9,3 9,4 (Iafelice 2008, bls. 417-419)
- ↑ René Le Forestier, Les Illuminés de Bavière et la Franc-Maçonnerie allemande, Paris, 1915, bls. 257.
- ↑ Joseph Marius von Babo, Ueber Freymaurer. Erste Warnung. Hartl, München 1784. (Digitalisat)
- ↑ "Arrivé le 24 juin 1787 à Paris, soit un mois après la clôture du Convent des Philalèthes", Arnaud de la Croix (2014). Les Illuminati: La réalité derrière le mythe. Bruxelles. bls. 84.
- ↑ (Beaurepaire 2008, bls. 89)