Fara í innihald

Hver á sér fegra föðurland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hver á sér fegra föðurland er íslenskt ættjarðarljóð eftir Huldu, ort í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem unnu til verðlauna í samkeppni sem efnt var til en hitt verðlaunaljóðið var Land míns föður eftir Jóhannes úr Kötlum. Titill ljóðsins er dæmi um retoríska spurningu.

Raunar var ljóðið sem nú er alþekkt undir þessu heiti aðeins hluti af verðlaunaljóðaflokki, sem bar heitið Söngvar helgaðir Þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, og hefst á ljóðlínunum „Heill, feginsdagur, heill frelsishagur! Heill, íslenzka ættargrund.“ Þegar verðlaunaljóðin höfðu verið valin var efnt til samkeppni meðal íslenskra tónskálda um lög við hátíðarljóðin og var þeim frjálst að semja lög við allan ljóðaflokk Huldu eða aðeins hluta hans. Fékk Emil Thoroddsen verðlaunin fyrir lag við þriðja hluta ljóðaflokksins. Sá hluti hefst á orðunum „Hver á sér fegra föðurland“ og hefur hátíðarljóðið gengið undir því nafni síðan en aðrir hlutar verðlaunaljóðaflokksins eru nánast gleymdir.

Þjóðhátíðarlagið var frumflutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944 og þar las líka Brynjólfur Jóhannesson leikari allan verðlaunaljóðaflokkinn.

  • „„Leitin að alþýðlegu og örvandi hátíðarljóði." Morgunblaðið, 17. júní 1994“.