Hvaleyrargangan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hvaleyrargangan var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 29. september árið 1979 til að mótmæla bandarískri hersetu á Íslandi. Gangan var haldin í stað Keflavíkurgöngu og var öllu síðar á árinu en títt var með slíkar göngur. Setti veðráttan svip sinn á aðgerðina.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Vinstri stjórnin sem tók við völdum síðla árs 1978 gaf engin sérstök fyrirheit um brotthvarf bandaríska hersins. Samtök herstöðvaandstæðinga töldu því mikilvægt að halda málstað sínum á lofti. Ákveðið var að ganga frá svæðinu suður undir Hvaleyrarholti, við afleggjarann að Sædýrasafninu og halda útifund á Lækjartorgi. Afleitt veður með hvínandi roki og rigningu setti mark á gönguna, en um 3000 manns mættu þó á fundinn í göngulok.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir ávarpaði göngumenn í upphafi. Á Thors-plani í Hafnarfirði flutti Guðmundur Árni Stefánsson ávarp. Í Kópavogi töluðu Guðmundur Hallvarðsson verkamaður og Albert Einarsson kennari. Páll Bergþórsson veðurfræðingur var aðalræðumaður í lok göngu ásamt Ásmundi Ásmundssyni formanni miðnefndar SHA, en útifundurinn þar var haldinn á sjöunda tímanum sem var talsvert fyrr en tíðkaðist í tengslum við Keflavíkurgöngur.