Hrafn Bótólfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hrafn Bótólfsson (d. 17. nóvember 1390) var íslenskur lögmaður á 14. öld. Hann bjó í Lönguhlíð ytri í Hörgárdal og lést er skriða féll á bæinn. Langahlíð ytri heitir nú Skriða.

Hrafn var sonur Bótólfs Andréssonar hirðstjóra, sem var norskur að kyni, og Steinunnar Hrafnsdóttur konu hans, en hún var dóttir Glaumbæjar-Hrafns Jónssonar, sonarsonar Hrafns Oddssonar. Hann kom til landsins 1381 og hafði verið veitt lögsögumannsembættið norðan og vestan af Ólafi konungi, eða dróttseta hans, því konungurinn var barn að aldri. Samkvæmt því sem segir í annálum var róstusamt í landinu um þær mundir og Flateyjarannáll segir „efldust flokkar og friðleysi“.

Hrafn bjó í Lönguhlíð í Hörgárdal (þar sem Önundur Þorkelsson bjó á 12. öld og var brenndur inni af Guðmundi dýra). Kona Hrafns var Ingibjörg, dóttir Þorsteins Eyjólfssonar hirðstjóra og lögmanns á Urðum. Seint um haustið 1390 (sumar heimildir segja þó 1389) voru geysilegar rigningar og skriðuföll norðanlands. Fimmtudagskvöldið 17. nóvember gerðist það í Lönguhlíð að jörðin sprakk í sundur, vatn kom upp í stofunni og bærinn og kirkjan grófust í aur. Hjónin fórust bæði í skriðunni ásamt tveimur börnum sínum. Lík húsfreyjunnar fannst daginn eftir en lík Hrafns ekki fyrr en ári seinna og var það þá flutt að Hólum í Hjaltadal og þar var Hrafn grafinn hjá Smið Andréssyni frænda sínum.

Steinunn dóttir þeirra hjónanna var gift og farin að heiman þegar skriðan féll. Árið 1406 var Steinunn stödd í Noregi ásamt seinni manni sínum, Þorgrími Sölvasyni. Þau tóku sér far til Íslands með skipi ásamt fleiri Íslendingum. Skipið hraktist til Grænlands og þar voru þau föst í fjögur ár. Þar tókst Kolgrími nokkrum að komast yfir Steinunni með göldrum og var hann brenndur á báli en Steinunn náði sér ekki aftur eftir þessa lífsreynslu og dó á Grænlandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Þorsteinn Eyjólfsson
Lögmaður norðan og vestan
(13811390)
Eftirmaður:
Þorsteinn Eyjólfsson