Holdsveikraspítali

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Holdsveikraspítali var sjúkrahús eða aðhlynningarstofnun fyrir þá sem þjáðust af holdsveiki.

Saga holdsveikraspítala á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi voru stofnaðir fjórir holdsveikraspítalar hér með konungsbréfi árið 1652. Var einn á Hörgslandi á Síðu fyrir Austfirðingafjórðung, annar í Klausturhólum í Grímsnesi fyrir Sunnlendingafjórðung, þriðji var holdsveikraspítalinn á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit fyrir Vestfirðingafjórðung og sá fjórði að Möðrufelli í Eyjafirði fyrir Norðlendingafjórðung. Þetta voru að vísu aldrei spítalar nema að nafninu til, því engir læknar voru til að líta eftir þeim og ekkert hjúkrunarlið. Biskup og lögmaður höfðu fyrst yfirumsjón með þeim, hver í sínu stifti, réðu þangað ráðsmenn, sem fengu ábúð á spítalajörðunum og tóku að sér að sjá sjúklingum fyrir nauðsynjum þeirra og gera grein fyrir tekjum og útgjöldum stofnananna.

Í bólusóttinni miklu árið 1707 dóu flestir holdsveikissjúklingar á Íslandi og var fátt um slíka sjúklinga næstu áratugina. Þannig segir Eggert Ólafsson frá því að árið 1765 hafi aðeins verið 2 sjúklingar í Hörgslandsspítala, og um mörg undanfarin ár hafi verið einn og tveir sjúklingar í Möðrufellsspítala. Þegar hann ferðaðist hér hafði spítalinn í Klausturhólum verið fluttur að Kaldaðarnesi.

Holdsveikraspítalinn á Gufunesi fluttur úr Viðey[breyta | breyta frumkóða]

Í Viðey var rekinn holdsveikraspítali. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir:

Holdsveikraspítali Sunnlendingafjórðungs hefir verið í Klausturhólum í Grímsnesi, en var fyrir nokkrum árum síðan fluttur að Kaldaðarnesi, sem er kirkjustaður í Flóa, skammt frá Eyrarbakkakaupstað, og liggur hann á nesi sem gengur fram í Ölfusá. Annar spítali er á Gufunesi, og var hann fluttur þangað úr Viðey fyrir nokkrum árum. Spítali þessi er hæli fyrir gamalt bændafólk og er kostað af konungseignum á þessum slóðum.

Holdveikraspítalinn í Laugarnesi[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

Í Laugarnesi var starfræktur holdsveikraspítali á árunum 1898-1943. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi­ og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi. Holdsveikraspítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi um 237 verið holdsveikir á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota. Spítalabyggingin brann til grunna 7. apríl 1943. Hernámsliðið hafði þá yfirtekið spítalann. Þeir fáu holdsveikisjúklingar sem enn voru á landinu höfðu nokkru áður verið fluttir á Kópavogshæli.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]