Hnjótafjall

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hnjótafjall.Neðri-Hnjótar og Heljardalsheiði til vinstri. Efri-Hnjótar, Skallárdalur og Unadalsjökull til hægri

Hnjótafjall í Svarfaðardal er formfagurt fjall, sem rís til himins innst í dalnum milli Heljardalsheiðar og Skallárdals. Fjallstindurinn sem blasir við neðan úr dal er um 1000 m hár en innar eru hærri hnjúkar, sá hæsti er um 1130 m. Fjallið er fallega píramídalaga eins og það horfir við úr byggð í Svarfaðardal en í raun er það aflangur hryggur og það kemur í ljós þegar farnir eru fjallvegirnir sitt hvoru megin við það, Heljardalsheiði og Unadalsjökull. Fjallshlíðarnar að sunnan og norðan í fjallinu nefnast Efri- og Neðri-Hnjótar. Orðið hnjótur merkir ójafna eða þúfa. Hólar eða þústir sem standa upp úr snjó eru einnig oft nefndir hnjótar.

Hnjótafjall er að mestu gert úr blágrýtislögum og þunnum setlögum á milli þeirra. Bergið er 9-10 milljón ára gamalt og frá míósen tímabilinu á tertíer. Best er að ganga á Hnjótafjall frá brúnni yfir Skallá og upp hálsinn og fjallsöxlina sem gengur austur frá tindinum en það er þó ekki auðveld ganga.

Mynd af Hnjótafjalli prýðir forsíðuna á bók Bjarna E. Guðleifssonar um Svarfaðardalsfjöll.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Bjarni E. Guðleifsson 2011. Svarfaðardalsfjöll. Genginn fjallahringurinn umhverfis Svarfaðardal. Bókaútgáfan Hólar, 191 bls.