Hlíðar

Hnit: 64°08′06″N 21°54′38″V / 64.13500°N 21.91056°V / 64.13500; -21.91056
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hlíðahverfið)

64°08′06″N 21°54′38″V / 64.13500°N 21.91056°V / 64.13500; -21.91056

Útsýni yfir Hlíðar frá Perlunni.

Hlíðar eru hverfi eða borgarhluti í Reykjavík, en til þeirra teljast Norðurmýri, Hlíðahverfi, Hlemmur, Rauðarárholt, Suðurhlíðar, Öskjuhlíð og Nauthólsvík.

Helstu kennileiti hverfisins eru Perlan, Klambratún, Hlemmur, Háteigskirkja og Sjómannaskólinn. Elstu hlutar hverfisins, svæðið kringum Hlemm og Norðurmýrin, byggðust upp á 3. og 4. áratug 20. aldar. Stærstur hluti hverfisins er í póstnúmeri 105.

Í hverfinu eru sex grunnskólar; Hlíðaskóli, Háteigsskóli, Klettaskóli og Brúarskóli (tveir síðastnefndu skólarnir eru sérskólar), Ísaksskóli og Barnaskólinn í Reykjavík sem er á vegum Hjallastefnunnar. Menntaskólinn við Hamrahlíð, Sjómannaskólinn (Tækniskólinn), Tónlistarskólinn í Reykjavík og Háskólinn í Reykjavík eru í hverfinu auk menntavísindasviðs Háskóla Íslands (áður Kennaraháskóli Íslands). Hönnunardeild Listaháskóla Íslands er í Þverholti en þar rétt hjá starfaði áður um áratugaskeið Myndlistar- og handíðaskóli Íslands. Nýjasti framhaldsskólinn, Menntaskóli í tónlist, tók til starfa í Skipholti árið 2017. Blindraheimili Blindrafélags Íslands er við Hamrahlíð. Austurbæjarbíó og Tónabíó (nú Vinabær) eru í hverfinu. Þjóðskjalasafn Íslands er staðsett þar í gamalli mjólkurstöð Sambandsins og Náttúrugripasafn Íslands var þar við Hlemm frá 1960 til 2008. Kjarvalsstaðir (Listasafn Reykjavíkur) standa á Klambratúni. Verslun er víða í hverfinu kringum Hlemm, í Holtum og í Suðurveri. Landspítali er með starfsemi í Skaftahlíð þar sem áður var verslunarmiðstöð og félagsmiðstöðin Tónabær. Berjaya Reykjavik Natura Hotel (áður Hótel Loftleiðir) er líka í hverfinu.

Knattspyrnufélagið Valur er með mikla starfsemi í hverfinu á Hlíðarenda. Skátafélagið Landnemar er með skátaheimili nálægt Hlíðaskóla.

Íbúar í hverfinu (Hlíðahverfi og Norðurmýri) voru 12.178 talsins árið 2023.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Járnbrautin úr Öskjuhlíð.
Hlíðar að vetri til 1993.

Landslag í Hlíðahverfi einkennist af tveimur holtum, Rauðarárholti í norðri og Öskjuhlíð í suðri. Milli þessara holta voru mýrar; Norðurmýri í norðvestri, þar sem Rauðarárlækur rann til sjávar, Breiðamýri í miðju , Kringlumýri til austurs, Vatnsmýri til vesturs og Leynimýri til suðausturs. Nyrsti hluti hverfisins tilheyrði býlinu Rauðará en syðri hlutinn tilheyrði Reykjavík. Bændur í Reykjavík höfðu skógnytjar í Öskjuhlíð en í Norðurmýri var mótekja. Aðalleiðin frá Reykjavík að þvottalaugunum í Laugardal lá yfir Rauðarárlæk nyrst á svæðinu. Þar var gerð brú árið 1885 sem var jafnan nefnd Hlemmur.

Þjóðhátíðarárið 1874 var útbúið hátíðarsvæði efst í Öskjuhlíð. Grjótnám hófst þar á 19. öld og jókst til muna þegar gerð Reykjavíkurhafnar hófst 1910. Þá voru lagðar tvær járnbrautir frá Öskjuhlíð að höfninni. Önnur járnbrautin lá yfir Melana að Grandagarði en hin í gegnum Norðurmýri að Ingólfsgarði.

Frá 1915 til 1917 var vatnstankur reistur efst á Rauðarárholti og viti þar ofan á. Þegar Sjómannaskólinn var reistur 1942 til 1945 var vitinn fluttur í skólann.

Undir lok 19. aldar og á fyrstu áratugum 20. aldar risu nokkur erfðafestubýli í kringum Reykjavík. Þar sem hlíðarnar eru nú risu meðal annars býlin Klambrar, Háteigur, Eskihlíð, Hlíðarendi, Þóroddsstaðir, Sunnuhvoll, Fagridalur, Hlíðardalur, Reykjahlíð og Varmahlíð.

Gasstöðin við Hlemm var reist árið 1910. Húsin stóðu þar allt til 1960 þegar þau voru rifin til að rýma fyrir nýrri lögreglustöð.

Fyrsta skipulega borgarbyggðin í hverfinu reis þar sem Laugavegur hélt áfram til austurs, í kringum Hlemm og þar upp af. Fyrsta heildstæða hverfið sem skipulagt var austan Hringbrautar (nú Snorrabraut) var Norðurmýrin sem farið var að skipuleggja sem íbúðabyggð 1934. Áður hafði verið gert ráð fyrir að þar risi járnbrautarstöð. Hverfið var hannað í anda fúnkisstefnu. Á sama tíma þróaðist nýtt iðnaðarhverfi norðanmegin í Rauðarárholti (þar sem Holtin eru nú).

Árið 1932 var nýr kirkjugarður, Fossvogskirkjugarður, vígður í suðurhlíðum Öskjuhlíðar. Fossvogskirkja var reist þar við 1948. Hitaveitutankarnir efst á Öskjuhlíð voru reistir eftir 1940.

Á hernámsárunum lagði breski herinn undir sig stór svæði austan við Reykjavíkurflugvöll og reisti þar mannvirki og mörg braggahverfi. Þarna stóðu meðal annars Camp Herold (nú leikvöllur við Grettisgötu), Camp Tower Hill (á Rauðarárholti), Camp Hilton og Camp Farm.

Eftir að stríðinu lauk var hluti braggahverfisins í Nauthólsvík rekinn sem Flugvallarhótelið í Reykjavík. Þar varð vinsælt að stunda sjóböð á 6. áratugnum og árið 1960 var skeljasandur fluttur í víkina. Um 1965 leiddu mengunarmælingar í ljós mikla klóakmengun í Nauthólsvík og sjóböð lögðust þar af en siglingar og róðraríþróttir tóku við. Hótel Loftleiðir var reist þar norðan við 1965-1966 og tók við hlutverki flugvallarhótels.

Hlíðahverfi byggðist hratt upp eftir stríð, fyrst sunnan við Miklubraut 1945-1947 og síðan norðan megin frá Lönguhlíð að Stakkahlíð 1947-1951. Árið 1957 var skipt um jarðveg undir Miklubraut og Lönguhlíð og efnið sem kom upp sett á Klambratún. Á Klömbrum var rekið kúabú sem seldi kjöt og mjólk til bæjarbúa. Búskapur lagðist þar af 1963 og bæjarhúsin voru rifin tveimur árum síðar. Eftir það var túnið skipulagt sem almenningsgarður og 1967 til 1973 stóð bygging Kjarvalsstaða þar yfir. Árið 1961 var Blindraheimili Blindrafélags Íslands við Hamrahlíð vígt. Kennaraskólinn hóf starfsemi við Stakkahlíð 1962 og Menntaskólinn við Hamrahlíð hóf starfsemi við Hamrahlíð árið 1966. Æfingaskóli kennaraskólans (nú Háteigsskóli) tók til starfa í nýju húsnæði árið 1968.

Óháði söfnuðurinn reisti kirkju við Háteigsveg sem var vígð 1959. Bygging Háteigskirkju stóð þá yfir þar skammt vestar. Háteigskirkja var vígð árið 1965.

Árið 1972 var lögreglustöð opnuð við Hlemm og 1978 var opnuð þar hjá ný skiptistöð Strætó.

Suðurhlíðar, hverfi sem stendur í suðausturhlíðum Öskjuhlíðar (stundum nefnt „milli lífs og dauða“ þar sem það stendur milli Borgarspítala og Fossvogskirkjugarðs) reis á 9. áratug 20. aldar. Aldamótaárið 2000 var ylströnd opnuð í Nauthólsvík, en þar var hringlaga strönd afmörkuð með grjótfyllingum og heitu vatni veitt út í. Árið 2010 hóf Háskólinn í Reykjavík starfsemi í nýbyggingu rétt norðan við Nauthólsvík. Á 2. áratug 21. aldar var verksmiðja Hampiðjunnar við Hlemm rifin og reist þar nýtt íbúðahverfi. Á sama tíma vék atvinnuhúsnæði við Þverholt fyrir nýjum fjölbýlishúsum. Árið 2013 var skiptistöðinni við Hlemm lokað og 2017 var Hlemmur - Mathöll opnuð þar. Árið 2015 hófust framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi við íþróttaaðstöðu Vals að Hlíðarenda og 2021 voru Háskólagarðar Háskólans í Reykjavík vígðir við Nauthólsveg. Árið 2022 keypti fasteignafélag allt húsnæði á svokölluðum Heklureit við Laugaveg 168-174 (þar sem áður var bílaumboðið Hekla hf.) og hóf þar byggingu fjölbýlishúsa.

Afmörkun[breyta | breyta frumkóða]

Hlíðarnar í Reykjavík.

Í vestri markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Snorrabraut, gamla Flugvallarveg og Hlíðarfót. Í austur markast hverfið af línu sem dregin er eftir miðri Kringlumýrarbraut. Í norðri markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Hverfisgötu og Laugaveg.

Hverfið inniheldur þannig ekki Túnin sem tilheyra Laugardal.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er borginni skipt í 10 borgarhluta. Þar eru Hlíðarnar borgarhluti III og skiptast í þrjú hverfi; Háteigshverfi (norðurhluti Hlíðahverfis, Hlemmur, Holt og Norðurmýri), Hlíðahverfi (suðurhluti Hlíðahverfis og Suðurhlíðar) og Öskjuhlíðarhverfi (Öskjuhlíð og Nauthólsvík).[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Mannfjöldi eftir hverfum í Reykjavík, kyni og aldri 2011-2023“. Hagstofan. Sótt 13. maí 2023.
  2. „Hverfisskipulag Reykjavíkur“. Sótt 26. apríl 2019.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]