Fara í innihald

Wikipedia:Nafnavenjur greina

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hjálp:Nafnavenjur greina)

Þessi síða lýsir nafnavenjum greina á Wikipediu.

Almenn ákvæði

[breyta frumkóða]

Almennt gildir að titill greinar á að vera algengasta heiti viðfangsefnisins á íslensku, til dæmis „kartafla“ og „banani“ en hvorki „jarðepli“ né „bjúgaldin“. Undantekningar geta verið frá þessu og er ýmsum þeirra lýst hér að neðan. Hægt er að skoða algengi orða með því að leita í Risamálheildinni.

Fall, tala og greinir

[breyta frumkóða]

Titlar greina eiga yfirleitt að vera í nefnifalli í eintölu og án greinis. Til dæmis á greinin um eldstöðvar vera á „Eldstöð“ en ekki „Eldstöðvar“. Frá þessu geta þó verið undantekningar, til dæmis ef titill greinar er fleirtöluorð (svo sem „buxur“ eða „Biskupstungur“ en orðin eru ekki notað í eintölu) eða ef um er að ræða sérnafn sem almennt hefur greini (svo sem „Hvíta húsið“ og „Morgunblaðið“ en hvorki „Hvítt hús“ né „Morgunblað“).

Undantekning: Líffræðigreinar

[breyta frumkóða]

Stór undantekning frá eintölureglunni eru líffræðigreinar sem fjalla um stærri flokkunarfræðilegar einingar en tegundir, það er að segja greinar um ættkvíslar, ættir, ættbálka, flokka og fylkingar lífvera; til dæmis birnir, froskar og skjaldbökur þar sem verið er að fjalla um fleiri en eina dýrategund í einni og sömu greininni. Í þeim greinum er eðlilegt að hafa titilinn í fleirtölu.

Persónugreinar

[breyta frumkóða]

Titlar greina um persónur ættu annaðhvort að vera fullt nafn einstaklingsins eða það nafn hans sem þekktast er, til dæmis gælunafn eða listamannsnafn. Stundum getur hvort tveggja komið til greina.

Til dæmis er handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson þekktastur undir því nafni (það er að segja, hann er þekktastur einfaldlega sem „Ólafur Stefánsson“) en heitir þó fullu nafni Ólafur Indriði Stefánsson. Að nota fullt nafn sem titil greinar hefur þann kost að þá er síður þörf á aðgreiningu í greinartitli (sjá kaflann um aðgreiningu að neðan).

Ef listamannsnafn er miklu þekktara en raunverulegt nafn viðkomandi ætti að nota það, til dæmis „Bubbi Morthens“ og „Lewis Carroll“.

Aðgreining

[breyta frumkóða]

Sé titill greinarinnar tvíræður, til dæmis í tilfelli Júpíters, skal setja aðgreiningarsíðu á aðalgreinina og búa til undirgreinar með aðalnafninu og sviga á eftir þar sem kemur fram hvað um ræðir, til dæmis Júpíter (reikistjarna) og Júpíter (guð); aðgreiningarsíður skal þó aldrei búa til fyrir landanöfn og ár.

Þegar greina þarf að persónur er ákjósanlegast að nota fæðingarár til að greina þær að. Til dæmis getur nafnið Bjarni Benediktsson átt við að minnsta kosti þrjá einstaklinga. Titlar greinanna um þá verða því Bjarni Benediktsson (f. 1908), Bjarni Benediktsson (f. 1922) og Bjarni Benediktsson (f. 1970)

Erlend nöfn

[breyta frumkóða]

Rita skal nöfn erlendra manna, staða og svo framvegis, með stafsetningu upprunatungumálsins nema sterk og rótgróin hefð sé fyrir annars konar rithætti. Þó ætti ávallt að rita erlend nöfn með íslensku stafrófi en þá ber að hafa í huga að íslenskt stafróf notar stafina c, q, w og z til að rita ýmis sérnöfn. Til dæmis ber að rita „Bill Clinton“ en ekki „Bill Klinton“, „Willard Quine“ en ekki „Villard Kuine“ og „Eduard Zeller“ en ekki „Eduard Seller“. Á hinn bóginn er eðlilegt að titill greinarinnar um forngríska heimspekinginn Platon sé „Platon“ en ekki Πλάτων. Við umritun grískra og latneskra nafna skal fylgja leiðbeiningum sem finna má í greininni Umritun grískra og latneskra nafna á íslensku. Ef nafnið er skrifað með öðru stafrófi en því latneska eða gríska skal fylgja þeim leiðbeiningum sem er að finna á síðunni Wikipedia:Umritun erlendra nafna.

Rótgróin hefð má teljast að rita að íslenskum hætti nöfn erlends kóngafólks,[1] til dæmis „Jóhann Karl“ fyrir „Juan Carlos“ og „Hákon“ fyrir „Håkon“.

Landa- og þjóðaheiti

[breyta frumkóða]

Landaheiti og heiti þjóða ættu að taka mið af málfarsráðgjöf Árnastofnunar og greininni ISO 3166-1.

Ef þýða á erlend heiti skal ekki strax smíða ný íslensk orð heldur athuga hvort hugtakið hafi viðtekið íslenskt heiti. Bent er á Íðorðabankann.

Íslenskun

[breyta frumkóða]

Vefsíða Árnastofnunar hefur gagnlegan vef þar sem finna má ýmsa lista sem og orðabanka þar sem hægt er að finna þýðingar fyrir ýmis orð, einkum tæknilegs eðlis. Þar eru einnig birtar ritreglur, þ.e. reglur um stafsetningu og greinamerkjasetningu í samræmi við auglýsingar menntamálaráðuneytis nr. 132/1974, 133/1974, 184/1974 og 261/1977. Einnig er vert að benda sérstaklega á Íðorðabankann yfir þýðingar á erlendum hugtökum.

Neðanmálsgreinar

[breyta frumkóða]
  1. Árni Böðvarsson, Íslenskt málfar (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1992), bls. 287-8.