Fara í innihald

Helgi Jónsson (ábóti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Helgi Jónsson (d. um 1528) var prestur í Hvammi í Norðurárdal og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri og var eftirmaður Ögmundar Pálssonar þar.

Ætt Helga er óþekkt en hann hefur líklega verið af höfðingjaættum því hann var stórauðugur. Hann kemur fyrst við skjöl árið 1491 og var þá orðinn prestur, óvíst hvar, en um 1500 var hann orðinn prestur í Hvammi og hafði það embætti þar til hann tók við Viðeyjarklaustri 1521. Hann var vígður ábóti á Lúkasarmessu árið eftir og gegndi því starfi til dauðadags.

Þegar Helgi varð ábóti gaf hann miklar gjafir, bæði Ögmundi biskupi og Skálholtskirkju, en Ögmundur hefur áreiðanlega ráðið því að hann fékk ábótadæmið. Einnig gaf hann Viðeyjarklaustri stórgjöf, svo og sonarsonum sínum tveimur, systrum sínum þremur og fleirum. Hann hefur verið orðinn nokkuð aldraður þegar hann varð ábóti og lést um 1528. Sér til aðstoðar hafði hann munk eða prest sem Gísli hét og varð sá eftirmaður hans í ábótaembættinu.

  • „Viðeyjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 23. júlí 1967“.
  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.