Helgi Jónasson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Helgi Jónasson (26. september 1887 til 13. apríl 1972) var grasafræðingur, bóndi og plöntusafnari. Hann fæddist og ólst upp á Gvendarstöðum í Köldukinn og tók þar við búi. Helgi var part úr vetri á unglingaskóla á Ljósavatni og fór 19 ára í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan eftir tvö ár. Hann kvæntist Halldóru Jónsdóttur frá Fornastöðum. Þau eignuðust átta börn.

Helgi hafði brennandi áhuga á grasafræði bæði túngrösum og villtum íslenskum jurtum. Hann var farinn að safna jurtum og þurrka áður en hann fór í Hólaskóla og hélt þeirri söfnun áfram ævilangt. Hann byrjaði snemma að safna plöntum úr Mývatnssveit eða í kringum 1908 og hóf trjárækt á Gvendarstöðum 1911 með birkitjám sem hann sótti í Fellsskóg en hann sótti nógu stór tré til að búpeningur næði ekki að éta af þeim laufið. Seinna kom hann upp skógræktarreit á bænum og ræktaði tré upp af fræi.

Upp úr 1930 hefjast gróðurathugunarferðir Helga utan heimabyggðar en hann fór nánast árlega 2-3 vikur á sumri í rannsókna- og söfnunarferðir. Fyrstu sumrin fór hann um sveitir Suður-Þingeyjarsýslu og til Austurlands en síðar til Eyjafjarðar, Skagafjarðar, Húnavatnssýslu og um mikinn hluta Vestfjarða og Stranda.

Helgi birti rannsóknir sínar í 12 ritgerðum alls i Náttúrufræðingnum og tímaritinu Flóru.

Helgi var vandvirkur safnari og fór plöntusafn hans til Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Hann var jarðaður í heimagrafreit á Gvendarstöðum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]