Hallfríður Ólafsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hallfríður Ólafsdóttir (12. júlí 1964 - 4. september 2020) var 1. flautuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og höfundur fræðsluverkefnisins um Maxímús Músíkús

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1984 og bæði einleikaraprófi og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1988 og var kennari hennar þar Bernharður Wilkinson. Hún fór þá utan til náms og var fyrst við nám hjá Trevor Wye og Kate Hill í Royal Northern College of Music í Manchester, og lauk þaðan Postgraduate Diploma eftir einn vetur. Hún komst þá að hjá William Bennett við Royal Academy of Music í Lundúnum, ein þriggja nemenda úr um hundrað manna hópi, og hlaut eftir tveggja ára nám Diploma of Advanced Studies, auk þess að hljóta styrk frá skólanum og önnur verðlaun í keppni tréblástursnemenda. Hallfríður lagði að lokum stund á franska tónlist hjá Alain Marion í París veturinn 1991- 92 en kom þá alkomin heim og starfaði sem flautuleikari og kennari í Reykjavík.

Hallfríður varð fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 1997, fyrst sem pikkolóleikari og uppfærslumaður en sem leiðandi flautuleikari frá 1999 og lék einnig reglulega einleikskonserta með hljómsveitinni. Hallfríður var kennari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík og var flautuleikari kammerhópsins Camerarctica. Hallfríður lagði einnig stund á hljómsveitarstjórn og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, auk smærri hópa.

Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Associate of the Royal Academy of Music (ARAM) sem veitist þeim fyrrum nemendum RAM sem notið hafa velgengni í starfi. Einnig hefur Royal Academy leitað eftir Hallfríði sem gestakennara við flautudeildina.

Hallfríður hlaut titilinn Bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2003, var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010, var útnefnd Eldhugi ársins 2017 og hlaut Riddarakross Hinnar íslensku Fálkaorðu 17. júní 2014 fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks með verkefninu um músíkölsku músina Maxímús Músíkús.

Maxímús Músíkús[breyta | breyta frumkóða]

Hallfríður er höfundur metsölubókanna Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina sem gefin var út í mars 2008, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann sem kom út í apríl 2010, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum frá maí 2012 og Maxímús Músíkús kætist í kór sem kom út í apríl 2014 og Maxímús Músíkús fer á fjöll sem kom út haustið 2018, sú saga var pöntuð af Los Angeles Philharmonic Orchestra og var frumflutt á fernum tónleikum, Maximus Musicus Explores Iceland, í Walt Disney Concert Hall í Los Angeles í apríl 2017. 

Bækurnar innihalda myndskreyttar sögur fyrir yngstu börnin um músíkölsku músina Maxímús Músíkús sem kynnist tónlistinni, hljóðfærunum og hljóðfæraleikurum sinfóníuhljómsveitarinnar, börnum í tónlistarskóla, fólki sem dansar við tónlist og kórsöngvurum. Um myndskreytingar bókanna sá Þórarinn Már Baldursson, víóluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Með bókunum um Maxa fylgir geisladiskur með upplestri sögunnar með öllum þeim tónum og hljóðum sem músin heyrir, sem og upptökum á tónverkunum sem ævintýrið fjallar um. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hljóðritað alla tónlistina og hefur frá upphafi haldið útgáfutónleika og marga leikskólatónleika byggða á sögunum, alltaf fyrir fyrir fullu húsi.

Hallfríður og Þórarinn hlutu Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2008 fyrir Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina.

Verndari verkefnisins um Maxa er Maestro Vladimir Ashkenazy, Heiðursstjórnandi SÍ.

Maxímús Músíkús hefur nú þegar gert víðreist. Bækurnar um hann hafa komið út í Þýskalandi, Færeyjum, Kóreu, Brasilíu, Kína, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi auk þess að koma út á ensku í rafbók.

Tónleikadagskrárnar sem byggðar eru á bókunum hafa verið fluttar í New York, Berlín, London, Winnipeg og Stokkhólmi, í Amsterdam, Rotterdam og fleiri borgum í Hollandi, nokkrum borgum í Þýskalandi og Austurríki, Þórshöfn í Færeyjum, og í fjórum borgum Ástralíu; Melbourne, Queensland, Hobart og Perth. Berlínarfílharmónían setti músina á dagskrá hjá sér og liðsmenn hljómsveitarinnar fluttu þriðju söguna í kammerútsetningu í febrúar 2013. Einnig var Maxi valinn til að skemmta börnum á árlegri hátíð í Kennedy Center í Washington sem var tileinkuð Norðurlöndunum árið 2013 og kallaðist Nordic Cool. Listrænn stjórn hátíðarinnar kaus að bjóða Sinfóníuhljómsveit Íslands að ferðast yfir Atlantshafið og flytja dagskrána.

Los Angeles Philharmonic Orchestra pantaði nýja sögu, Maximus Musicus Explores Iceland (Maxímús Músíkús fer á fjöll) fyrir tónlistarhátíðina „Reykjavík“ sem haldin var í apríl 2017.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Mbl.is, „Bjó til Maxímús músíkús“

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Hallfríður Ólafsdóttir á Glatkistunni