Halldór Jakobsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Halldór Jakobsson (f. 2. júlí 1735 — d. 9. september 1810) var sýslumaður í Strandasýslu.

Hann var sonur Jakobs sterka Eiríkssonar á Búðum í Staðarsveit og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Bróðir hans var Jón Jakobsson sýslumaður á Espihóli, faðir Jóns Espólín. Halldór lauk prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 22 ára að aldri og var ári síðar skipaður sýslumaður í Strandasýslu. Hann var róstusamur og drykkfelldur, átti oft í deilum, beit bændur í ölæði svo sá á þeim og var oftar en einu sinni vikið frá embætti fyrir afglöp. Hann þótti fégjarn og nískur og hið sama var sagt um konu hans, Ástríði Bjarnadóttur Halldórssonar sýslumanns á Þingeyrum. Þau giftust 1760 en tveimur árum áður hafði Ástríður eignast barn með skrifara föður síns, Erlendi Sigurðssyni frá Brekkum. Bjarni sýslumaður er sagður hafa reiðst svo ákaflega þegar hann frétti af þunguninni að hann sló dóttur sína niður og sparkaði í hana.

Vafalaust hefur Ástríður ekki verið spurð álits þegar hún var gefin Halldóri, enda var samkomulag þeirra hjóna alltaf slæmt og þegar þau voru komin á sjötugsaldur skildu þau. Fór Ástríður þá fyrst til Halldórs bróður síns á Reynistað en síðar til Þorbjargar systur sinnar í Víðidalstungu og dó hjá henni 1802. Halldór lauk einnig ævinni hjá mágkonu sinni, hann andaðist í Víðidalstungu 1810 og var þá kominn í kör. Þau hjónin áttu aðeins eina dóttur sem dó rúmlega tvítug og átti enga afkomendur.

Halldór er höfundur bókar um veldi Stefánunga sem kom út 1792 í Kaupmannahöfn. Titill hennar er Ærefrygt. Liste over Hr. Stiftamtmand Oluf Stephensens Familie i Island. Allene de beregnede som sidde i publiqve Embeder 1791. og fjallaði bókin um hve valdamiklir Stefánungar væru í íslensku samfélagi og að þessi ætt Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns einokaði opinber embætti á Íslandi.