Fara í innihald

Hafáll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af hafál.

Hafáll (Conger conger) er botnfiskur af hafálaætt (Congridae). Hann er stór og langur fiskur sem líkist ferskvatnsálum en hægt er að þekkja hann á því að bakugginn byrjar yfir eyruggum og er hann undimynntur. Hámarkstærð hafála er um 3 metrar og hámarskþyngd um 110 kg en hængar verða sjaldan lengri en 110 cm. Lengsti hafáll sem mælst hefur við Ísland var 165 cm og veiddist við Krýsuvíkurberg árið 1965.[1]

Roð hafálsins er hreisturlaust og hliðarrák liggur frá tálknalokum að stirtluenda. Tennurnar eru fjölmargar og ysta röðin er svo þétt að hún myndar nánast samfellda línu. Augun eru sporöskjulaga, bakugginn langur og sameinast raufarugganum í stirtluenda, þar sem engin sérstök sporðblaðka er, aðeins oddhvass endi. Raufarugginn er mun styttri en bakugginn. Litur hafála er breytilegur eftir aldri og botnlagi, en hann er oft gráleitur eða ljósbrúnn að ofan og ljósgrár eða hvítur að neðan. Ungir hafálar eru gjarnan ljósari en þeir eldri.[2]

Útbreiðsla og lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Hafáll er botnfiskur sem finnst á grýttum og söndugum botni á 1–100 metra dýpi, en stærri hafálar halda sig yfirleitt dýpra. Hann er frekar rólegur á daginn og heldur kyrru fyrir en á nótunni fer hann á veiðar. Fæða hans er aðallega fiskar, þar á meðal þorskfiskar, flatfiskar og háfar en hann veiðir líka krabbadýr og smokkfiska.[3]

Hafáll lifir í norðaustanverðu Atlantshafi. Finnst á Íslandi, Færeyjum, í Norðursjó, Bretlandseyjum og suður að Afríku. Hann finnst einnig í Miðjarðarhafi og Svartahafi. Í vestanverðu Atlantshafi lifir skyld tegund, Conger oceanius.[3]

Háfállinn verður kynþroska um 5 –15 ára aldur, en þá stækka kynfærin á meðan þarmarnir rýrna, sem veldur því að hann hættir að nærast. Hrygning á sér stað á sumrin á miklu dýpi vestan Portúgals, milli Gíbraltar og Asoreyja, auk þess líka í Miðjarðarhafi. Hver hrygning getur skilað frá 3 til 8 milljónum eggja, en hafállinn deyr eftir hrygningu. Lirfur hans eru glærar og blaðlaga og lifa á 1–200 metra dýpi í úthafinu í 1–2 ár. Þegar þær ná um 15 cm lengd taka þær að líkjast fullorðnum einstaklingum. Hafállinn gengur aldrei í ósalt vatn.[4][5]

Hafáll er stundum veiddur á línu eða sem aukaafli í botnvörpu. Hann er ætur en kjötið er gróft til átu og er hann því oft reyktur. Þrátt fyrir það er hann vinsæll í sumum löndum, sérstaklega í Frakklandi, Spáni og Portúgal. Hafállinn getur valdið tjóni með því að éta afla úr netum og gildrum. Ársaflinn í Evrópu er um 10-15 þúsund tonn. Fyrstu skráðu veiðar á hafál hér við land voru árið 1909, þegar tveir veiddust við Vestmannaeyjar. Hann finnst síðan einstaka sinnum við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina, frá Hornafirði inn í Faxaflóa og Breiðafjörð. [6].[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Gunnar jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013). Íslenskir fiskar. Mál og menning
  2. Gunnar jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013). Íslenskir fiskar. Mál og menning
  3. 3,0 3,1 Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013). Íslenskir fiskar. Mál og menning
  4. Bent, Jørgen, Preben, Bente, 1999
  5. Bent J. Muus, Jørgen G. Nielsen, Preben Dahlstrøm og Bente O. Nyström. (1999). Fiskar og fiskveiðar (Jón Jónsson og Gunnar Jónsson þýddu). Mál og menning
  6. Bent, Jørgen, Preben, Bente, 1999
  7. Bent J. Muus, Jørgen G. Nielsen, Preben Dahlstrøm og Bente O. Nyström. (1999). Fiskar og fiskveiðar (Jón Jónsson og Gunnar Jónsson þýddu). Mál og menning