Hörður J. Oddfríðarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hörður Jónsson Oddfríðarson (fæddur 9. nóvember 1964) er formaður Sundsambands Íslands síðan í febrúar 2006 og var varaformaður SSÍ í þrjú ár þar á undan. Hann starfar sem dagskrárstjóri Göngudeildar SÁÁ. Hann hefur verið forseti Norræna sundsambandsins, NSF, tímabilið 2014-2018 og situr í garpanefndum FINA og LEN (varaformaður nefndarinnar).

Hörður æfði og keppti í sundi með Sundfélaginu Ægi í Reykjavík frá 1971-1980, sat í stjórn félagsins 1998-2002 (formaður 2001-2002) og svo aftur 2003-2005.

Hörður hefur verið virkur í stjórnmálum frá árinu 1981 er hann gekk í Alþýðubandalagið. Hann var gjaldkeri Æskulýðsfylkingarinnar frá 1987 til 1989 og sat á sama tíma í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins. Hörður var afgreiðslustjóri Þjóðviljans 1986 til 1988. Hann var í hópi fólks sem stofnaði Nýjan vettvang árið 1990 og sat í stjórn Strætisvagna Reykjavíkur fyrir hönd framboðsins 1990 til 1994. Hann er stofnfélagi í Samfylkingunni, sat í framkvæmdastjórn flokksins 2009-2011 og er formaður fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík frá árinu 2017. Þá hefur hann setið í uppstillingarnefndum og kjörnefndum Samfylkingarinnar.

Hörður er kvæntur Guðrúnu Björk Birgisdóttur og eiga þau tvo syni.