Hélène Cixous
Hélène Cixous (f. 5. júní 1937) er franskur rithöfundur, leikskáld og bókmenntafræðingur. Hún átti þátt í stofnun Parísarháskóla VIII (þá Centre Universitaire Expérimental de Vincennes) í Vincennes þar sem hún stofnaði fyrstu kvennafræðideild Evrópu árið 1974. Meðal kennara við skólann voru Michel Foucault, Gérard Genette, Jacques Lacan, Antonio Negri, Tzvetan Todorov, Felix Guattari, Gilles Deleuze og Jacques Derrida.
Cixous er þekkt fyrir tilraunakennd skrif sín á mörgum ólíkum sviðum. Doktorsritgerð hennar um James Joyce, L'Exil de James Joyce ou l'Art du remplacement, var áhrifamikil og fyrsta skáldsaga hennar, Dedans, vann Prix Médicis-bókmenntaverðlaunin 1969. Ritgerðin Le Rire de la Méduse frá 1975 er þekkt fyrir að tengja kvenlíkamann við skrif kvenna. Hún er talin ein af mæðrum póststrúktúralískra femínískra fræða, ásamt Luce Irigaray og Juliu Kristevu. Hún átti í löngu samstarfi við Jacques Derrida (sem fæddist í Alsír líkt og hún) og er því stundum flokkuð með afbyggingarsinnum. Hún hefur líka átt í löngu samstarfi við leikhússtjórann Ariane Mnouchkine og Théâtre du Soleil sem hún hefur samið leikverk fyrir frá 1987. Hún er því þekktust sem leikskáld í Frakklandi.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Irma Erlingsdóttir (22.5.2019). „Hver er Hélène Cixous og hvert er hennar framlag til fræðanna?“. Vísindavefurinn.