Hægriflokkurinn (1848-1866)
Hægriflokkurinn, Højre var danskur stjórnmálaflokkur eða stjórnmálahreyfing um miðbik nítjándu aldar. Nokkrir af fyrstu forsætisráðherrum Danmerkur tengdust flokknum beint eða óbeins.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]De nationalliberale flokkur frjálslyndra þjóðernissinna í Danmörku varð til á fimmta áratug nítjándu aldar um baráttuna gegn einveldi en fyrir viðskiptafrelsi og þingbundinni konungsstjórn. Andstæðingar þessara hugmynda vildu standa vörð um hið „milda og upplýsta einveldi“, mögulega þó með einhverjum minniháttar umbótum. Eftir marsbyltinguna 1848 var þessi hópur einu nafni kenndur við Hægri.
Þrátt fyrir að vera á öndverðum meiði í ýmsum málum, svo sem varðandi stjórnarskránna frá 1849 ákváðu fylkingarnar tvær að mynda saman ríkisstjórn í mars 1848 vegna fyrra Slésvíkurstríðsins sem stóð frá 1848-50.
Þegar leið á sjötta áratuginn urðu De nationalliberale jafnt og þétt sterkari í stjórnarsamstarfinu og máttu heita allsráðandi frá 1857. Flokkur þeirra hóf þegar að gera ýmsar breytingar á dönsku samfélagi að sínu höfði, en leiddu landið að lokum inn í síðara Slésvíkurstríðið árið 1864 sem setti dönsk stjórnmál á annan endann.
Flokkur frjálslyndra þjóðernissinna var í tætlum vegna stríðsins og myndaði Hægrimaðurinn Christian Albrecht Bluhme ríkisstjórn sem var við völd frá 1846-66. Hægriflokkurinn sjálfur var þó saddur lífdaga. Stórlandeigendur í hópi flokksmanna mynduðu sína eigin hreyfingu sem átti eftir að stjórna landinu næstu áratugi, nokkur hluti flokksmanna gekk til liðs við hinn vængbrotna frjálslynda þjóðernissinna og hópur íhaldssamra bænda gekk til liðs við Miðflokkinn, Mellempartiet.
Miðað er við að Hægriflokkurinn hafi liðið undir lok árið 1866. Hafa ber þó í huga að stjórnmálaflokkar þessara ára voru mun ófermlegri stofnanir en síðar tíðkaðist. Þannig var ekki um eiginlegar flokssstofnanir að ræða og sagnfræðingar geta deilt um hvaða stjórnmálamenn hafi í raun talist til einstakra flokka.