Fara í innihald

Häxan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Häxan
DVD hulstur
LeikstjóriBenjamin Christensen
HandritshöfundurBenjamin Christensen
FramleiðandiSvensk Filmindustri
Leikarar
DreifiaðiliSvensk Filmindustri
FrumsýningFáni Svíþjóðar 18. september 1922
Fáni Danmerkur 7. nóvember 1922
Lengd91 mín.
Tungumálþögul kvikmynd

Häxan (íslenska Nornin) er þögul sænsk kvikmynd frá árinu 1922 eftir danska leikstjórann Benjamin Christensen. Myndin er nokkurs konar fræðslumynd þar sem farið er yfir nornafárið í Evrópu og velt upp hugmyndum um ástæður þess. Leikstjórinn var þeirrar skoðunar að kvikmyndin væri upplagður miðill fyrir fræðslu af þessu tagi. Sama ár kom út Nanook of the North sem venjulega er talin fyrsta eiginlega heimildarmyndin.

Häxan gengur þó lengra og jaðrar við að verða hryllingsmynd á köflum, þar sem myndmálið er runnið af sömu rót og hjá þýsku expressjónistunum og stillimyndum er blandað við hraðar senur sem sýna meðal annars nornamessu við Blokksbjarg, nornir á flugi yfir borg, djöfulinn tæla til sín konur og rannsóknarréttinn pynta nornir til sagna. Leikstjórinn sjálfur leikur djöfulinn.

úr myndinni

Kvikmyndin var oft sýnd ritskoðuð. Einkum var það sú mynd sem hún dregur upp af kirkjunnar mönnum, þar sem sagt er frá rannsóknarréttinum, sem fór fyrir brjóstið á fólki í Mið- og Suður-Evrópu.

Myndin var sýnd í Bandaríkjunum árið 1968 með yfirlestri William Burroughs og djassundirleik, undir titlinum „Witchcraft Through the Ages“.

Kvikmyndin var sýnd á vetrarhátíð í Reykjavík 19. febrúar 2005 þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir frumsamda tónlist við kvikmyndina eftir Barða Jóhannsson undir stjórn Esa Heikkilä.