Háskaþrennan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu fyrstu bókarinnar.

Háskaþrennan (franska: Brelan de dames) er heiti á belgískum teiknimyndasögum sem litu dagsins ljós á níunda áratug síðustu aldar. Sögurnar voru skrifaðar af Jean-Luc Vernal, stundum í samstarfi með Jean Dufaux, og teiknaðar af Renaud Denauw. Fyrsta bókin kom út árið 1983. Alls urðu bækurnar í röðinni sjö talsins, en sú sjöunda og síðasta kom út árið 1988. Bækurnar segja frá ævintýrum þriggja föngulegra stúlkna, Jaimie, Amöndu og Laurence, sem starfa við njósnir hjá Bandarísku leyniþjónustunni CIA og síðar (frá og með bók 2 í seríunni) sem einkaspæjarar. Myndasögurnar voru innblásnar af bandarísku sjónvarpsþáttunum um Charlie's Angels sem sýndir voru á áttunda áratuginum. Eitt ævintýri í seríunni hefur komið út á íslensku, Ógnir í undirdjúpum (f. L'Oeil du Barracuda), sem var gefið út af Iðunni árið 1988 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Var það jafnframt sjöunda og síðasta ævintýrið sem kom út á frummálinu og varð ekkert framhald á útgáfu bókanna hér á landi. Í íslensku útgáfunni fengu stöllurnar þrjár nöfnin Eygló, Kolbrún og Tinna.