Fara í innihald

Gylfi Þór Sigurðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gylfi Sigurðsson)
Gylfi Þór Sigurðsson
Upplýsingar
Fullt nafn Gylfi Þór Sigurðsson
Fæðingardagur 8. september 1989 (1989-09-08) (35 ára)
Fæðingarstaður    Reykjavík, Ísland
Hæð 1,85m
Leikstaða Framsækinn miðjumaður
Núverandi lið
Núverandi lið Víkingur
Númer 10
Yngriflokkaferill
FH , Breiðablik og Reading F.C.
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
2008-2010 Reading F.C. 42 (18)
2008 →Shrewsbury Town (lán) 5 (1)
2009 →Crewe Alexandria (lán) 15 (3)
2010-2012 TSG 1899 Hoffenheim 36 (9)
2012 Swansea City (lán) 18 (7)
2012-2014 Tottenham Hotspur 58 (8)
2014-2017 Swansea City 106 (27)
2017-2022 Everton 133 (25)
2023-2024 Lyngby Boldklub 2 (0)
2024-2025 Valur 19 (11)
2025- Víkingur 1 (0)
Landsliðsferill2
2005
2000-2007
2007-2011
2010-
Ísland U17
Ísland U19
Ísland U21
Ísland
3 (2)
15 (8)
14 (6)
83 (27)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins og
síðast uppfært feb. 2025.
2 Landsliðsleikir og mörk uppfærð
okt. 2024.

Gylfi með vítaspyrnu á HM (2018).

Gylfi Þór Sigurðsson (f. 8. september 1989) er íslenskur knattspyrnumaður sem spilar sem miðherji með Víkingi. Hann er góður í föstum leikatriðum, leikskilningi og í langskotum.

Gylfi hefur spilað með landsliðinu síðan 2010, skorað og varð markahæsti leikmaður liðsins árið 2023. Hann var valinn íþróttamaður ársins árið 2013 og árið 2016. Gylfi er markahæsti Íslendingur í ensku úrvalsdeildinni með tæp 70 mörk og einnig með flestar stoðsendingar eða 50 talsins.

Árið 2020 var hann 7. stoðsendingahæsti spilandi leikmaður úrvalsdeildarinnar (á eftir Kevin De Bruyne, David Silva, Christian Eriksen, Mesut Özil, Eden Hazard og Raheem Sterling).

Ungmennaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Gylfi hóf ferilinn hjá FH árið 2002 og gekk svo árið 2003 í raðir Breiðabliks. Árin 2005-2008 lék hann með undir 21. árs liði Reading á Englandi.

Atvinnumannaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Gylfi hafði verið á reynslu hjá Preston North End áður en hann skrifaði undir hjá akademíu Reading með námsstyrk þann 1. október 2005.[1] Hann lék með unglinga- og varaliðunum í þrjú ár. Fyrir tímabilið 2007–08 fengu hann og fimm aðrir ungir leikmenn atvinnumannasamninga.[1]

Fyrir tímabilið 2008–09 var Gylfa úthlutað treyjunúmerinu 34 hjá Reading. Hann sat á bekknum í 2–1 útisigri félagsins gegn Dagenham & Redbridge í fyrstu umferð enska deildarbikarsins þann 12. ágúst.[2][3] Tveimur vikum síðar lék hann sinn fyrsta leik í næstu umferð gegn Luton Town þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir James Harper á 59. mínútu í 5–1 sigri á Madejski-leikvanginum.[3] Hann skoraði í vítaspyrnukeppni í útitapi Reading gegn Stoke City í þriðju umferð eftir að hafa komið inn á sem varamaður.[4]

Til að öðlast frekari reynslu í byrjunarliði skrifaði Gylfi undir eins mánaðar lánssamning við Shrewsbury Town þann 16. október.[3][5] Tveimur dögum síðar skoraði hann í fraumraun sinni í ensku úrvalsdeildinni gegn AFC Bournemouth í 4–1 sigri á útivelli.[6] Hann lék alls sex leiki með Shrewsbury og skoraði eitt mark. Hann sneri aftur til heimafélagsins og lék með Reading í 2–0 tapi gegn Cardiff City í þriðju umferð FA-bikarsins þann 3. janúar 2009.[7] Þann 27. febrúar gekk hann til liðs við Crewe Alexandra á neyðarláni.[8] Tveimur dögum síðar lék hann fyrsta leik sinn gegn Brighton á útivelli og skoraði á 89. mínútu í 4–0 sigri.[9] Þann 24. mars var lánssamningur hans framlengdur til loka tímabilsins.[10][11] Hann skoraði tvö mörk til viðbótar fyrir Crewe gegn Milton Keynes Dons og Cheltenham Town en honum tókst ekki að fyrirbyggja fall félagsins niður í ensku aðra deildina.[12]

1899 Hoffenheim

[breyta | breyta frumkóða]

Árin 2010-2011 fór Gylfi til Hoffenheim í Þýskalandi. Gylfi var ekki í náðinni hjá nýjum þjálfara í byrjun leiktímabils 2011-2012 og leitaði því á önnur mið.

Swansea og Tottenham

[breyta | breyta frumkóða]

Gylfi var lánaður til Swansea árið 2012 og spilaði 12 leiki með þeim. Hann var valin leikmaður mánaðarins í mars 2012, fyrstur Íslendinga. Sumarið 2012 fór hann til Tottenham Hotspur og var þar til 2014.

Swansea City

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2014 náði Tottenham samningi við Swansea City um skipti á Gylfa og Ben Davies vinstri bakverði Swansea. Gylfi lagði upp mark og skoraði sigurmarkið í opnunarleik Swansea á móti Manchester United en það var í fyrst skipti síðan 1972 sem United hafði tapað opnunarleik.

Tímabilið 2016-2017 skoraði Gylfi 9 mörk og átti 13 stoðsendingar og átti lykilþátt í að Swansea bjargaði sér frá falli í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi hljóp mesta vegalengd allra leikmanna á tímabilinu; 433 kílómetra. Gylfi er markahæsti leikmaður Swansea í úrvalsdeildinni með 34 mörk.

Gylfi í leik Everton og Chelsea.

Árið 2017 var Gylfi seldur frá Swansea City til Everton fyrir 45 milljón punda. [13] Samningurinn var til 5 ára.

Gylfi skoraði sitt fyrsta mark fyrir Everton á móti Hajduk Split, í fyrsta leik sínum í byrjunarliðinu (25. ágúst). Markið var af meira en 45 metra færi með viðstöðulausu skoti, 13 sekúndum eftir að flautað var til seinni hálfleiks. Ronald Koeman, þjálfari Everton, sagði að markið væri eitt af mörkum tímabilsins. [14] Í mars 2018 meiddist Gylfi á hné í leik á móti Brighton og var frá í 6-8 vikur. Leiktíðina 2017-2018 spilaði Gylfi 33 leiki og skoraði 6 mörk. [15]

Gylfi hóf leiktíðina 2018-2019 mun betur en á fyrri leiktíð og var markahæsti maður liðsins (fyrir jól) á eftir Brasilíumanninum Richarlison. Hann skoraði meðal annars tvö mörk gegn Fulham FC og Cardiff City og sigurmark gegn Leicester City af 23 metra færi. Gylfi komst upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen (55 mörk) sem markahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni í febrúar með 56 mörk. [16] Gylfi kláraði tímabilið með 13 mörk í deildinni og 6 stoðsendingar. Hann var markahæstur ásamt Richarlison.

Tímabilið 2019-2020 var gengi Everton ekki gott í byrjun tímabils og þjálfarinn Marco Silva var rekinn. Með nýjum þjálfara, Carlo Ancelotti, færðist Gylfi aftar á miðjuna. Gylfa hafði ekki gengið vel að skapa mörk og hlaut gagnrýni. Íþróttafréttamenn orðuðu hann frá félaginu eftir tímabilið.

Gylfi hóf tímabilið á bekknum eftir að nýir miðjumenn komu til Everton; James Rodríguez, Allan og Abdoulaye Doucouré. Hann byrjaði þó í bikarleikjum og skoraði sitt 100. mark í enskri knattspyrnu gegn Salford City í september. Gylfi skoraði sigurmarkið úr víti gegn Chelsea í desember, í 1-0 sigri. Hann skoraði einnig úr víti í fyrsta sigurleik Everton á Liverpool FC á Anfield í 22 ár. Hann skoraði tvívegis á móti Tottenham í 2-2 jafntefli í apríl.

Sumarið 2023 hélt Gylfi til Lyngby. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í lok september þegar hann kom inn á sem varamaður. Gylfi meiddist og spilaði ekki sem skyldi með liðinu.

Í byrjun árs 2024 spurðist út að Gylfi hyggðist ganga til liðs við Val. Í miðjum mars bárust fregnir þess efnis að hann hafði skrifað undir.[17] Hann gerði 2 ára samning við félagið.[18] Gylfi skoraði mark í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Víkingur Reykjavík

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir 2024 tímabilið í Val, þar sem Valsarar stóðu ekki undir væntingum og enduðu í 3. sæti, gerðu Víkingar tilboð í Gylfa og var hann að endingu kynntur sem nýr leikmaður þeirra í febrúar 2025.[19] Kaupverðið var talið 20 milljónir króna. Gylfi þreytti frumraun sína í Víkingstreyjunni þann 7. apríl en honum tókst ekki að klára leikinn þar sem hann hlaut annað rauða spjaldið á ferli sínum fyrir grófa tæklingu.[20]

Í júní 2019 kvæntist Gylfi Alexöndru Ívarsdóttur, sem hafði verið valin Ungfrú Ísland árið 2008, en þau höfðu verið saman frá árinu 2010.[21]

Í júlí 2021 spurðist út að Gylfi Þór hefði verið handtekinn og settur í leyfi frá Everton vegna rannsóknar lögreglunnar í Manchester á meintu kynferðisbroti hans gegn barni.[22] Rannsókn á málinu lauk án ákæru í apríl árið 2023.[23]

Viðurkenningar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Leikmaður mánaðarins, enska úrvalsdeildin, mars 2012.
  • Leikmaður mánaðarins, enska meistaradeildin, mars 2010.
  • Leikmaður tímabilsins, Reading FC: 2009–10.
  • Leikmaður tímabilsins, Hoffenheim: 2010–11.
  • Knattspyrnukarl ársins, Ísland: 2010, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, 2020
  • Íþróttamaður ársins: 2013 og 2016.
  • Leikmaður tímabilsins, Swansea City: 2015–16 og 2016–17.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 FC, Reading. „14. Gylfi Sigurdsson“. Reading FC. Sótt 16 apríl 2025.
  2. Magnússon, Elvar Geir (8. desember 2008). „Reading komst áfram - Vísir“. visir.is. Sótt 16 apríl 2025.
  3. 3,0 3,1 3,2 Ólafur Þór Jóelsson; Viðar Brink (2015). Atvinnumaðurinn Gylfi Sigurðsson. Sena.
  4. Magnússon, Elvar Geir (23. september 2008). „Brynjar lék í tapi Reading - Vísir“. visir.is. Sótt 16 apríl 2025.
  5. „Ætla mér að grípa tækifærið þegar það gefst“. Fréttablaðið. 26.10.2008. bls. 33.
  6. „Gylfi skoraði strax fyrir Shrewsbury“. www.mbl.is. Sótt 16 apríl 2025.
  7. Ásgeirsson, Eiríkur Stefán (1. mars 2009). „Jafntefli hjá Guðjóni - Vísir“. visir.is. Sótt 16 apríl 2025.
  8. „Sigurdsson makes Crewe loan move“ (bresk enska). 27 febrúar 2009. Sótt 16 apríl 2025.
  9. „England: Gylfi skoraði í fyrsta leik sínum fyrir Crewe er liðið sigraði“. fotbolti.net. Sótt 16 apríl 2025.
  10. Ásgeirsson, Eiríkur Stefán (20. mars 2009). „Gylfi með Crewe til loka leiktíðar - Vísir“. visir.is. Sótt 16 apríl 2025.
  11. Ásgeirsson, Eiríkur Stefán (20. mars 2009). „Gylfi með Crewe til loka leiktíðar - Vísir“. visir.is. Sótt 16 apríl 2025.
  12. „Crewe féll eftir tap gegn Leicester“. fotbolti.net. Sótt 16 apríl 2025.
  13. Gylfi Sigurdsson: Everton agree £45m deal for Swansea midfielder BBC. Skoðað 16. ágúst, 2017.
  14. Hajduk Split 1-1 Everton BBC. Skoðað 25 ágúst, 2017
  15. All­ar­dyce rek­inn í vik­unni Mbl.is. Skoðað 15. maí, 2018.
  16. Sögulegt mark Gylfa í Wales Vísir, skoðað 19. mars, 2019
  17. Gylfi búinn að skrifa undir hjá Val Fótbolti.net, sótt 13/3 2024
  18. Gylfi í Val, staðfest... Fótbolti.net, sótt 14/3 2024
  19. https://www.ruv.is/frettir/ithrottir/2025-02-18-gylfi-thor-i-viking-reykjavik-436523
  20. Birgisson, Gunnar (7 apríl 2025). „Annað rauða spjald Gylfa á ferlinum kom ekki að sök - RÚV.is“. RÚV. Sótt 16 apríl 2025.
  21. „Fótbolti.net“. fotbolti.net. Sótt 17 júlí 2024.
  22. „Gylfi sakaður um brot gegn barni“. mbl.is. 20. júlí 2021. Sótt 22. júlí 2021.
  23. Sindri Sverrisson (14. apríl 2023). „Gylfi laus allra mála“. Vísir. Sótt 14. apríl 2023.
  Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.