Guðrún Gottskálksdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðrún Gottskálksdóttir (f. um 1510) var íslensk kona á 16. öld, dóttir Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups og fylgikonu hans, Guðrúnar Eiríksdóttur, og systir Odds Gottskálkssonar.

Guðrún var í Skálholti með Oddi bróður sínum. Gissur Einarsson biskup og félagi Odds bað hennar og var festaröl þeirra drukkið í Skálholti sumarið 1542, áður en Gissur sigldi til Danmerkur að taka biskupsvígslu. Skyldi Guðrún bíða hans í Skálholti á meðan hjá móður hans og bræðrum, sem þá voru flutt þangað. En þegar Gissur kom aftur sumarið eftir var Guðrún farin, enda var hún þá þunguð eftir kirkjuprestinn, séra Eystein Þórðarson. Raunar var sagt að presturinn hefði einnig gerst fjölþreifinn við Gunnhildi biskupsmóður. Daginn eftir heimkomu biskups réðust bræður hans, séra Jón, Þorlákur og Halldór að séra Eysteini og særðu hann þrettán sárum þótt hann verðist hetjulega. Hann lifði þó af, var fluttur í Laugarás og græddur þar, og varð seinna prestur í Arnarfirði.

Guðrún fæddi þríbura í Bræðratungu síðar um sumarið en þeir dóu allir. Gissur vildi fyrirgefa Guðrúnu og ganga að eiga hana (hann á að hafa sagt „Það var hlaup og það var hofmannshlaup; ég skal taka Gunnu mína í sætt aftur“) en hún vildi þá ekkert með hann hafa. „Fór hún þá hingað og þangað, því hún vildi ekki heldur aðhyllast hann bróður sinn; var hún þversinnuð kona,“ segir í Biskupasögum. Hún dó þó hjá Oddi bróður sínum, ógift, og erfði sonur Odds eignir hennar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Við helgan kross í Kaldaðarnesi. Sunnudagsblað Tímans, 28. febrúar 1965“.
  • „Biskupa sögur“.