Guðmundur frá Miðdal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guðmundur Einarsson (1934)

Guðmundur Einarsson frá Miðdal í Mosfellssveit (f. 5. ágúst 1895, d. 23. maí 1963) var íslenskur listamaður sem var allt í senn: teiknari, grafíklistamaður, málari, myndhöggvari, ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður, rithöfundur og fjallgöngumaður. Synir hans, Guðmundur (betur þekktur sem Erró), er þekktur myndlistarmaður og Ari Trausti er þekktur jarðfræðingur og rithöfundur.

Guðmundur var á sinni tíð einn af mest áberandi myndlistarmönnum landsins. Kom það til vegna þess að hann fékkst við margar myndlistargreinar, var einkar afkastamikill, hélt margar sýningar heima og heiman, á mörg verk á opinberum stöðum og var mikilvirkur í félagsmálum myndlistarmanna og einnig í víðtækri og oft óvæginni umræðu um menningu og listir. Viðhorf byggðust meðal annars á klassíkri myndlist, rómantík, virðingu fyrir þjóðlegum gildum, áhuga á framandi þjóðum, andlegum hefðum og hlutbundnum verkum en ekki afstrakt list enda þótt hann hneigðist nokkuð langt í þá átt á efri árum. Viðhorfin voru umdeild og málafylgni Guðmundar og um margt öflug en fáguð framkoma vöktu verulega athygli, einkanlega eftir að módernisminn vann á hérlendis upp úr síðaðri heimsstyrjöldinni.

Guðmundur var menntaður í myndlist hér heima (1911–13 hjá Stefáni Eiríkssyni og 1916 hjá Ríkarði Jónssyni og Þórarni B. Þorlákssyni), í Kaupmannahöfn (1919–20) og loks í München (1920–25).

Guðmundur var umdeildur meðan hans naut við. Um skeið var hans sjaldan minnst á fræðilegum vettvangi en undanfarinn ár hefur áhugi á verkum hans, fjölhæfni og afstöðu vaxið. Eftir Guðmund liggja þúsundir verka; olíumálverk, skúlptúrar, glerlistarverk, vatnslitamyndir, grafík og keramik (í þeim greinum var hann brautryðjandi), teikningar, húsgögn sem hann hannaði, ásamt skartgripum, kopar- og silfurmunum, görðum, stökum húsum og veggskreytingum. Enn fremur liggja eftir hann bækur, ljósmyndir og kvikmyndir. Guðmundur var einn frumherja fjallamennsku á Íslandi, landkönnuður, ötull náttúruverndarmaður, skógræktarmaður, ferðalangur og ferðafrömuður, auk þess að vera meðal slyngari veiðimanna landsins.

Safn ljósmynda eftir Guðmund er geymt í Þjóðminjasafninu, kvikmyndir hans eru geymdar í Kvikmyndasafninu. Árið 1997 kom út ævisagan Guðmundur frá Miðdal eftir Illuga Jökulsson, æviminningar Lydiu Pálsdóttur Zeitner-Sternberg, seinni eiginkonu hans, komu út árið 1992 í bókinni Lífsganga Lydiu.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]