Græna byltingin (Reykjavík)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Uppgræðsla og skógrækt í Elliðaárdal í Árbæ og Breiðholti var hluti af „grænu byltingunni“.

Græna byltingin var almennt heiti á framkvæmdaáætlun Reykjavíkur um umhverfi og útivist sem átti að gilda frá 1974 til 1983. Græna byltingin var sérstakt kosningamál Sjálfstæðismanna fyrir sveitarstjórnarkosningar 1974 og var hrint í framkvæmd þar sem þeir héldu meirihluta sínum. Græna byltingin gekk út á að rækta upp opin svæði í borginni, gera átak í hreinsun og frágangi á minni spildum inni í hverfunum og leggja hjólreiða- og gangbrautir. Nafnið var ekki sótt í grænu byltinguna sem gekk út á að auka matvælaframleiðslu í heiminum með þróun í landbúnaði heldur var vísun í svokallaða „svarta byltingu“ þegar vegir í borginni voru malbikaðir á 6. og 7. áratugnum.

Sama ár og „græna byltingin“ hófst var hleypt af stokkunum „blárri byltingu“ með stofnun veiði- og fiskiræktarráðs Reykjavíkurborgar sem átti að efla lax- og silungsrækt í ám og vötnum sem borgin átti ítök í. Tilgangurinn var meðal annars að auka möguleika borgarbúa til að njóta veiði í þessum vötnum og útivistar við þau. Ráðið starfaði til 1983 þegar verkefni þess voru flutt til umhverfismálaráðs.

Hluti af hugmyndunum sem tengdust grænu byltingunni var bætt aðstaða fyrir sportbáta og var upphaflega gerð sú tillaga að hafa vélbátahöfn norðan megin við Geldinganes en seglbátahöfn sunnan megin. Þá var þegar lítil smábátahöfn í Elliðavogi sem var mjög gagnrýnd vegna nálægðar við ósa Elliðaáa. Ekkert varð af þessum fyrirætlunum, en 1978 samþykkti borgarstjórn smábátahöfn vestan megin í Elliðavogi þar sem félagið Snarfari kom sér upp aðstöðu.

Framkvæmdum sem kenndar voru við grænu byltinguna var ítarlega lýst í Morgunblaðinu. Flokkarnir í minnihluta gagnrýndu grænu byltinguna oft, meðal annars á þeim forsendum að hún stangaðist á við gildandi aðalskipulag, að þar hefði fátt komið til framkvæmda, að hún væri of dýr fyrir borgarsjóð og að grænu svæðin stæðu í vegi fyrir úthlutun atvinnuhúsnæðis til iðnfyrirtækja sem flyttust umvörpum til nágrannasveitarfélaga. Eins var áætlunin gagnrýnd fyrir að festa í sessi stór óbyggð svæði milli hverfa og vinna þannig gegn þéttingu byggðar.

Eftir sveitarstjórnarkosningar 1978 lentu Sjálfstæðismenn í minnihluta og hætt var að tala um grænu byltinguna. Sama ár kom út samnefnt lag á plötunni Ísland með Spilverki þjóðanna þar sem segir meðal annars: „Margar eru nefndirnar/en hvurnig er með efndirnar/sem sumir lofuðu sumum?“ sem endurómaði þá skoðun að minna hefði orðið úr grænu byltingunni en lofað hafði verið í upphafi.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 1982 sagði borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna, Davíð Oddsson, að stefna flokksins í umhverfismálum væri óbreytt frá því sem áður hefði verið og þá kölluð „græna byltingin“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]