Fara í innihald

Glæpasaga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norrænar glæpasögur á bókasafni í Helsinki.

Glæpasaga eða sakamálasaga er frásögn þar sem glæpur er framinn og sagan snýst um rannsókn lögreglu, leynilögreglumanns, blaðamanns eða áhugamanns á því hver framdi glæpinn og hvers vegna. Glæpasögur skiptast í margar undirgreinar, eins og leynilögreglusöguna, lögfræðidramað, og harðsoðnu glæpasöguna. Glæpasögur nýta sér spennu og ráðgátur til að fanga athygli lesenda, hlustenda eða áhorfenda. Glæpasagan er fyrst og fremst skrifuð til afþreyingar án tillits til listræns gildis. Sakamálasögur eru oftar en ekki samdar í mjög stöðluðu formi og yfirleitt fjalla þær um glæp og svo einhverskonar rannsakanda glæpsins (leynilögreglumann eða einkaspæjara) og auk þess um þann heim sem viðkomandi og persónur honum tengdar hrærast í dags daglega, hvorttveggja fjölskylda og undirheimalýður.

Orðin „krimmi“ og „reyfari“ eru oftar en ekki höfð um harðsoðnari sakamálasögur, sögur sem eru groddaralegri á alla kanta og fjalla um harðari heim en hin venjulega sakamálaskáldsaga. Það er þó allur gangur á því. „Eldhúsreyfarar“ var orð sem áður var haft um ódýrar bókmenntir sem ef til vill innihéldu töluverða spennu, en voru meira litaðar af ævintýrum og ástum. Þær hétu svo af því menn trúðu því að aðallega konur læsu slíkar bókmenntir.

Til eru dæmi um glæpasögur í sagnasöfnum fyrri tíma, eins og í Þúsund og einni nótt, en fyrsta glæpasaga nútímans er gjarnan talin vera Mademoiselle de Scudéri eftir E.T.A. Hoffmann frá 1819. Einnig má minnast á skáldsöguna Vaðlaklerkur eftir danska rithöfundinn Steen Steensen Blicher frá 1827. Fyrsti þekkti leynilögreglumaður bókmenntanna var C. Auguste Dupin í sögum Edgar Allan Poe. The Moonstone eftir Wilkie Collins frá 1868 er stundum talin fyrsta nútímaglæpasagan í Bretlandi. Meðal þekktustu höfunda glæpasagna samtímans eru Arthur Conan Doyle, Agatha Christie, Raymond Chandler, Dashiell Hammett, John le Carré, Maj Sjöwall og Per Wahlöö. Glæpasögur hafa lengi verið vinsælt viðfangsefni í leikritum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Sem dæmi má nefna leikritið Músagildruna eftir Agöthu Christie, kvikmyndina Vertigo eftir Alfred Hitchcock, og útvarps-/sjónvarpsþættina Dragnet (frá 1949). Sakamálasagan hefur einnig verið skrifuð í anda fagurbókmennta, s.s. Nafn rósarinnar, eftir ítalska rithöfundinn Umberto Eco og hin íslenska Náttvíg, eftir Thor Vilhjálmsson. Sakamálasögur innan fagurbókmenntana eru þó frekar undantekning en reglan. Þekktir íslenskir glæpasagnahöfundar eru meðal annars Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson, Lilja Sigurðardóttir og Árni Þórarinsson.

  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.