Píus 10.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Giuseppe Melchiorre Sarto)
Jump to navigation Jump to search
Píus 10.
Paus-pus-x.jpg
Píus 10. árið 1905.
Skjaldarmerki Píusar 10.
Páfi
Í embætti
4. ágúst 1903 – 20. ágúst 1914
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. júní 1835
Riese, Treviso, Konungsríkinu Langbarðalandi-Feneyjum, austurríska keisaradæminu
Látinn20. ágúst 1914 (79 ára) Páfahöllinni, Róm, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Píus 10. (2. júní 1835 – 20. ágúst 1914), fæddur undir nafninu Giuseppe Melchiorre Sarto, var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1903 til 1914.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Giuseppe Melchiorre Sarto fæddist í þorpinu Riese í Venetó. Foreldrar hans voru póstmaðurinn Giovanni Battista Sarto og eiginkona hans, Margarita. Sarto tók prestsvígslu árið 1858 og sem ungur prestur nam hann bæði kirkjurétt og kenningar Tómasar af Aquino. Árið 1884 varð Sarto biskup af Mantúa og í júní árið 1893 var hann útnefndur kardínáli. Árið 1896 var hann síðan útnefndur patríarki yfir Feneyjum. Útnefning hans var ekki óumdeild þar sem veraldleg yfirvöld Ítalíu gerðu tilkall til réttarins til að skipa patríarka líkt og austurrísk yfirvöld höfðu gert þegar Feneyjar voru á yfirráðasvæði austurríska keisaradæmisins. Staðan var enn snúnari vegna ríkjandi andklerkastefnu ítölsku stjórnarinnar og biturðar kaþólsku kirkjunnar yfir landmissi Páfaríkisins við sameiningu Ítalíu árið 1870. Að endingu lúffuðu ítölsk stjórnvöld fyrir vilja kirkjunnar og Sarto var leyft að taka við embætti patríarka. Hann viðhélt þó alla embættistíð sína kröfum um að Páfaríkinu skyldi skilað landi sem ítalska þjóðríkið hafði haft af því.[1]

Páfatíð[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Leó 13. páfi lést árið 1903 var Sarto kjörinn nýr páfi af ráði kardínálanna þann 4. ágúst með 55 af 60 atkvæðum. Áður en Sarto var kjörinn höfðu kardínálarnir hallast að því að velja Mariano Rampolla sem nýjan páfa en Frans Jósef Austurríkiskeisari beitti lögbundnu neitunarvaldi sínu (lat. jus exclusivae) til að koma í veg fyrir kjör Rampolla á páfastól. Sarto var afar ósáttur við að vera kjörinn páfi undir þessum kringumstæðum og íhugaði jafnvel að neita að taka við páfaembættinu í mótmælaskyni. Að endingu tók hann við embætti en eftir að hann varð páfi lét hann umsvifalaust afnema neitunarvald kaþólskra einvalda í páfakjörinu og lýsti yfir að hver sem hygðist beita því yrði bannfærður.[2]

Sarto var krýndur páfi þann 9. ágúst 1903 undir nafninu Píus tíundi. Við embættistöku sína varaði hann við „fölskum nýjum vísindum“ og sagðist munu „endurnýja allt í Kristi“ (lat. Instaurare Omnia in Christo), þ.e. leggja áherslu á hefðbundið helgilíferni klerka og leikmanna. Hann kallaði umbótasinnaða mótmælendur „hrokafulla uppreisnarseggi og óvini Krists“. Píus lagði áherslu á að prestsstörf skyldu byggja á biblíutúlkun Tómasar Aquinasar og krafðist þess árið 1910 að guðfræðikennsla í háskólum skyldi hafna módernískum túlkunum, svokallaðri nýguðfræði, og leggja áherslu á skilyrðislausa hlýðni við páfastólinn. Áherslur hans leiddu til þess aukinnar ritskoðunar og til þess að módernískir kenningasmiðir innan kaþólsku kirkjunnar á borð við írska jesúítaprestinn George Tyrell[3] og hinn franska Alfred Loisy voru bannfærðir.[4] Andstöðu kaþólsku kirkjunnar við nýguðfræði var viðhaldið til ársins 1967.[5]

Píus 12. páfi tók Píus 10. í heilagra manna tölu árið 1954 og þakkaði honum fyrir að „afhjúpa falska lærimeistara og mæta þeim með nauðsynlegri hörku“.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Martin Schwarz Lausten: Kirkehistorie (s. 229), forlaget ANIS, Frederiksberg 1997, ISBN 87-7457-202-4
  2. Bingham, John. "Secret Conclave papers show how Saint Pius X was not meant to become Pope", The Telegraph, 4 June 2014
  3. George Tyrrell Biography | BookRags.com
  4. Alfred Loisy: Biography from Answers.com
  5. Martin Schwarz Lausten: Kirkehistorie (s. 230)
  6. Martin Schwarz Lausten: Kirkehistorie (s. 244)


Fyrirrennari:
Leó 13.
Páfi
(4. ágúst 190420. ágúst 1914)
Eftirmaður:
Benedikt 15.