Gervihnattaleiðsögn

Gervihnattaleiðsögn er notkun gervihnatta til að fá staðarákvörðun fyrir leiðsögn. Hnattrænt gervihnattaleiðsögukerfi gefur notendum upp staðarákvörðun hvar sem þeir eru staddir á jörðinni. Í dag eru fjögur slík kerfi til: bandaríska GPS-kerfið, rússneska GLONASS-kerfið, BeiDou-kerfið frá Kína[1] og Galíleó frá Evrópusambandinu.[2] Auk þessara kerfa eru nokkur staðbundin leiðsögukerfi sem notast við gervihnetti, eins og NAVIC á Indlandi og QZSS í Japan;[3] og hnattræn leiðsögukerfi sem bjóða nákvæmari staðsetningar gegn greiðslu, eins og OmniSTAR og StarFire.[4]
Gervihnattaleiðsögutæki gefur upp staðsetningu sína með lengdargráðu, breiddargráðu og landhæð, með mikilli nákvæmni (þar sem skekkjan er frá nokkrum sentimetrum að metrum) með tímamerki sem sent er í sjónlínu með útvarpsbylgjum. Hægt er að nota kerfið til að staðsetja sig, ferðast eftir og rekja ferðir fyrirbæra sem búin eru slíku tæki. Merkin gera móttakaranum líka kleift að reikna út nákvæman tíma sem aftur er hægt að nota sem samræmdan tíma milli ólíkra tækja. Þjónustan felst því í staðarákvörðun, leiðsögn og tíma. Gervihnattaleiðsögukerfi eru óháð staðbundnum stöðvum, en slíkar stöðvar geta þó bætt virkni kerfanna á ýmsan hátt.
Í hverju kerfi um sig næst fullkomin þekja yfir allt yfirborð jarðar með 18-30 gervihnöttum á miðbraut um jörðu dreift á nokkra brautarfleti. Hnattræn þekja fyrir gervihnattakerfi á miðbraut krefst aðeins sex gervihnatta, en til að staðsetningarkerfið virki þarf tæki að sjá merki frá minnst 3 gervihnöttum samtímis.[5] Kerfin eru mismunandi, en nota öll brautarhalla sem er stærri en 50° og hafa um 12 tíma umferðartíma (í 20.000 km hæð).
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „China's GPS rival Beidou is now fully operational after final satellite launched“. cnn.com. 24 júní 2020. Sótt 26 júní 2020.
- ↑ „Galileo is the European global satellite-based navigation system“. www.euspa.europa.eu. 26 janúar 2024. Sótt 26 janúar 2024.
- ↑ Kriening, Torsten (23 janúar 2019). „Japan Prepares for GPS Failure with Quasi-Zenith Satellites“. SpaceWatch.Global. Sótt 10 ágúst 2019.
- ↑ „GPS Correction Technology Lets Tractors Drive Themselves“. NASA. Sótt 5. desember 2016.
- ↑ Andrea Grillo (2. maí 2024). „Medium Earth Orbit (MEO): An Overview“. Deep InSecurity.