Fara í innihald

Gangabær

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gangabær var torfhúsagerð sem var allsráðandi á Íslandi frá 15. öld fram á 19. öld. Þessi húsagerð var samstæða nokkurra húsa eða herbergja sem innangengt var í frá göngunum sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Grunnskipulag gangabæjanna hélst að mestu óbreytt langt fram á 19. öld.

Það er útbreiddur misskilningur að íslenski torfbærinn hafi um aldir verið burstabær í líkingu við Glaumbæ í Skagafirði eða Laufás í Eyjafirði. Burstir á skemmum komu fyrst til sögunnar um eða fyrir siðaskipti, en burstabærinn kemur ekki fram í endanlegri mynd fyrr en um 1870.[1]

Elsta gerð híbýla hér á Íslandi er svo kallað langhús, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting má ef til vill rekja til breyttra þjóðfélagshátta, kólnandi veðurfars og vaxandi skorts á eldsneyti. Samskonar þróun frá langhúsum í gangabæi gerist einnig á Grænlandi á svipuðum tíma, samanber Bærinn undir sandinum í Vestribyggð.[2]

Einkenni gangabæja

[breyta | breyta frumkóða]

Einkenni gangabæja voru göngin sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Gangabæirnir virðast hafa þróast þannig að veggir skálans (langhússins) voru nýttir til að byggja önnur hús upp við hann og síðan bætt við húsum aftan við skálann eftir þörfum. Meðal annars geymslur, búr og fjós. Og einnig ofta kamrar. Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru kamrar fremur stór hús áföst bæjum eða stakstæð. Þar gátu margir rúmast á setum í einu eins og víða kemur fram í fornsögum. Stóru kamrarnir voru notaðir fram á 16. öld. [3]

Gangnabæirnir þróuðust áfram og breyttu um svip eftir því sem aldir liðu, en það var alltaf innangengt í húsin í samstæðunni um göngin, með því var hægara um vik að komast i húsin innan frá og verjast kulda. Veggirning voru þykkir, þungir og efnismiklir. Aðalbyggingarefni torfbæjanna var frá upphafi og fram á 20. öld mold, torf og grjót að utan en timbur til innansmíðar, burðargrind og innréttingar. [4]

Bændur á Falklandseyjum stinga torfhnausa um 1950
Bændur á Falklandseyjum stinga torfhnausa um 1950

Fyrstu hús landnámsmanna virðast flest hafa verið hlaðin úr torfi eingöngu. Fljótlega var þó farið að nota grjót í veggjahleðslur og þá einkum sem neðstu undirstöður en steinaröð neðst í vegg dregur úr raka frá jörðinni upp í vegginn. Grjóthleðslan var undirstaða torfveggjanna sem hlaðnir voru ofan á.

Hleðslutorf fékkst með því að rista grassvörðinn og efsta rótarlagið af yfirborði eða stinga hann upp eftir ákveðnum reglum, eftir því hvers konar torf þurfti hverju sinni. Torf er gróft og seigt rótarkerfi plantna, sem best var að taka í mýrlendi eða á vel grónu og rótarmiklu landi. Torfið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvernig það er tekið úr mýrinni og hvernig það er útlits og voru minsmunandi nöfn eftir landshlutum. Torfur og strengir eru rist með torfljá. Hnausar (kekkir), eins og klömbruhnaus (klambra), hornhnaus, kvíahnaus, Glaumbæjarhnaus og snidda (kantsnidda, þaksnidda), eru stungnir með skóflu. [5]

Ætla má að rista hafi þurft ofan af um það bil 1000 m2 stóru svæði til þess að fá torf í miðlungsstóran skála. Besta torfið er það sem er að uppistöðu rótarkerfi votlendisplantna og inniheldur lítið sem ekkert af leir og sandi. Torfið var látið þorna áður en hlaðið var úr því, annars var hætta á að það sigi saman og veggir aflöguðust.

Trégrindin

[breyta | breyta frumkóða]

Innan við veggina var trégrind smíðuð, meðal annars til að halda uppi þakinu. Timbur var notað í grind og þil, ýmist rekaviður eða innfluttur viður. Framan af öldum virðist meginhluti efnisins í innansmíðina hafa verið rekaviður. Þó eru til heimildir um að menn hafi snemma keypt timbur frá Noregi og er líklegt að viður hafi verið fluttur inn til Íslands í einhverju mæli allar miðaldir og á einokunartímanum 1602-1787. Þrátt fyrir þennan innflutning satti skortur á timbri til húsagerðar sérkennilegan og sterkan svip á íslenska torfbæinn. Þótti mörgum erlendum ferðamönnum þetta merkileg húsagerð, til dæmis þýska vísindamanninum Dr. G. Hartwig sem var á Íslandi um 1840: “Vegna þess að það er oftast langt á milli bóndabæjanna og þeir eru grasivaxnir og lákúrulegir þá er erfitt að greina þá frá umhverfinu.[6]

Timburgrindin í húsinu var nefnd laupur. Þakið var oftast þrefalt torfþak lagt ofan á grindina. Innst var torf sem sneri grasinu niður, þar yfir var troðin mold og síðan nýtt torflag með grasisvörðinn upp. Slík þök nefndust tróðþök. Einnig var algengt að leggja hrís neðst til að verja viðinn fúa. Þessi tróðþök láku oft. Sums staðar voru lagðar þunnar hellur ofan á grindina og þær skaraðar vel og síðan þakktar með torfi. Þess helluþök láku síður en tróðþök, en þurftu einnig sterkari viðargrind til að bera uppi þyngdina. Í mörgum tóftum hafa fundist leifar helluþaka en lítið hefur fundist af leifum hrísþaka enda eyðast þau með tímanum. Gluggar voru á þekjunni til þess að hleypa inn birtu en gluggar voru m.a. gerðir úr líknarbelgjum húsdýra, eða fósturhimnum.

Gólfin í torfbæjunum voru moldargólf blönduð kolasalla en hellur voru þó yfirleitt lagðar í anddyri og á hlaði.

Eftir að torfið hefur verið hlaðið verður það mjög einangrandi ef það helst þurrt. Regn getur hins vegar átt greiðan aðgang inn í veggina ef ekki var rétt hlaðið og var oft mikill raki í þessum húsum. Raki og rigning var mikið vandamál og reynt að troða upp í gættir og göt með mold og halda við bæjunum til þess að halda veðri og vindum úti. Tíðar breytingar á hitastigi, frost og hláka, gat það valdið miklum skemmdum á torfinu. Miklir þurrkar og sól á sumrin gátu einnig eyðilagt torfið á þakinu. Trégrindin var endurnýjuð eftir þörfum, en reynt var að endurnýta þann efnivið sem var til staðar, annað hvort með því að skeyta nýju timbri við þá hluta sem enn voru heilir eða nýta heila hluta timbursins á öðrum stöðum. Einstök hús voru endurbyggð eftir þörfum, þess á milli voru minni háttar viðgerðir látnar nægja til að halda húsakostinum við.

Þessi sífellda þörf fyrir endurnýjun og viðhald húsakostsins hafði það í för með sér að íbúar gátu haft tiltölulega mikil áhrif á þróun húsagerðarinnar. Eðli gangabæjarins var einnig slíkt að auðvelt var að bæta við eða breyta einu og einu húsi í þyrpingunni, óháð hinum. Þar sem hvert hús (herbergi) var byggt sérstaklega, þ.e. sem aðskilin eining en þó tengt hinum húsunum, var yfirleitt gert við eitt hús í einu. Einnig var auðvelt að byggja við eitt og eitt hús til viðbótar og tengja það við hin með göngum. Þannig hafa húsin þróast eftir efnum og aðstæðum fjölskyldunnar. Bæir sem voru lengi í byggð voru stöðugt að taka breytingum eftir því sem húsin gengu úr sér og voru endurbætt eða endurnýjuð. Öðru hverju þurfti að byggja bæinn alveg upp að nýju.

Í dagblaðinu Þjóðólfi, árið 1863, er því lýst að þurfti oft upp á torfbæi og sagt frá því að Íslendingar séu:

... alltaf að byggja sama húsið svoað segja árs árlega; eitt árið hefir vatn hlaupið í einhvern vegginn eða gaflaðið eða frostið klofið og sprengt inn, annað árið er þaktróðið orðið ónýtt og fúið svo að þaktorfið liggur inná viðum, og þarf að rífa þakið og leggja nýtt tróð á húsið, fjórða árið brotinn sperrukjálki eða 1-2 langbönd eða mæniás og þarf enn að rífa þakið fyrir þá sök, fimta árið er ytri þekjan rofin og þarf að tyrfa allt húsið að nýu o.s.frv. Þetta er vanalegi gángurinn í húsbyggíngum hér á landi yfir höfuð að tala.[7]

Ekki liggja fyrir traustar heimildir um hvernig þiljun innardyra í torfbæjum var háttað á landnámsöld, timburskortur hefur sennilega haft áhrif á það. En frásögnir í Íslendingasögum benda til þess að á 13. öld hafi tjöld verið hengd upp í skálum.[8]

Á 16. öld gefa heimildir til kynna að einstaka íveruherbergi á stærri heimilum voru þiljuð og varð þróunin síðar sú að helstu vistarverur fólks, s.s. baðstofur, stofur og eldhús voru þiljuð. Náði þessi breyting einnig inn á fátækari og minni bæi, en sennilega ekki fyrr en á 19. og 20. öld.[9] Líklegt er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi veggir verið þiljaðir og seinna á síðustu árum baðstofunnar á 19. og 20. öld.

Erlendir ferðamenn í heimsókn á Þingvöllum

[breyta | breyta frumkóða]
Grunnmynd af bæ prestsins á Þingvöllum 1809, teiknuð af W. J. Hooker
Grunnmynd af bæ prestsins á Þingvöllum 1809, teiknuð af W. J. Hooker

Breski grasafræðingurinn, William Jackson Hooker ferðaðist um Ísland sumarið 1809 og skrifaði bók um ferðina. Hann dvaldi meðal annars nokkra daga á Þingvöllum og var honum boðið í bæ prestsins þar og taldi Hooker hann vera heldur betra húsnæði en algengt var á Íslandi.

Þegar komið var að bænum var lágur túngarður hlaðinn í kringum túnið og bæjarhúsin, sem var þyrping af litlum byggingum eða kofum. Fjós og hesthús stóðu að húsabaki. Þessi húsaþyrping var dæmigerður gangabær, sjö eða átta feta háir þykkir veggir, hlaðnir úr steini og torfi. Upp í rjáfur var ekki meir en tólf eða fjórtán fet. Gengið var inn um einn inngang inn í þröng göng sem tengdu allar byggingarnar nema eina, sem var þó einnig sambyggð þyrpingunni. Byggingar eða herbergi sem bærinn samanstóð af voru til hægri og vinstri við göngin og stæsta byggingin fyrir endan. Tvö þeirra voru notuð til að sofa í, voru nokkur timburrúm í þeim, upphækkuð um fjögur fet frá moldargólfinu. Eitt herbergið er ætlað fyrir vefstól, annað var eldhús, þar sem eldað var með eða birkihríslum.

Á mörgum bæjum var einnig innangengt í svo kölluð skyrbúr segir Hooker, en presturinn á Þingvöllum hafði það í sérstakri byggingu sem annars var að engu leyti frábrugðin öðrum skyrbúrum, þar sem mjólkurafurðir voru geymdar sem voru unnar bæði úr sauða- og kúamjólk. Mjólkin var aðskilin í rjóma og undanrennu með því að láta mjólkina standa í lágum ílátum, trogum eða byttum þar til rjóminn settist ofaná. Síðan var undanrennunni rennt undan til skyrgerðar og úr rjómanum var strokkað smjör sem var sýrt. Í hjallinum sem var veggtengdur húsaþyrpingunni í prestabænum en ekki innangeng um göngin, var harðfiskur og skreið, ull, tólg, söðlar og súrsað slátur í tunnum. Inni í herbergjunum voru veggir og gólf ekki timburþiljuð frekar en í öðrum torfbæjum, veggirnir yfirleitt ekkert nema grjót og torf og einungis moldargólf. Reykpípa, eða öllu heldur op fyrir reykinn, sáust aðeins á bestu bæjum samkvæmt lýsingu Hookers, í öðrum er reykurinn látinn finna sér leið út um dyrnar eins og á prestabænum á Þingvöllum.[10]

Írsk-bandaríski rithöfundurinn J. Ross Browne kom einnig í torfbæ prestsins á Þingvöllum 1862, 53 árum eftir Hooker. Hann gaf heldur ófegurri mynd af bústaðnum:

"Presturinn á Þingvöllum og kona hans búa í moldarkofum rétt hjá kirkjunni. Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. ... Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með torfveggjum og moldarþaki. …. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu. … Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. … Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu.” [11]

Burstabærinn

[breyta | breyta frumkóða]

Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna snéru timburklæddum stöfnum fram að hlaðinu í stað langhúss meðfram hlaðinu með dyrum fyrir miðjum langvegg, eins og gangabæirnir voru yfirleitt byggðir. Þessi nýi stíll varð ekki algengur í sveitum á Íslandi fyrr en um miðja nítjándu öld en samtímis voru gangabæirnir umbyggðir og hurfu sem byggingastíll. Burstabærinn var frábrugðinn fyrrum byggingarstíl gangabæjanna meðal annars að því leyti að timburþil á framhlið hússins voru sett út frá fagurfræðilegum ástæðum fremur en hagnýtum, fínu þiljustofurnar voru meðal annars lítið notaðar á veturna því það var svo kalt. [12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hörður Ágústsson (1987). Íslenski torfbærinn, Íslensk þjóðmenning I. Upphaf og umhverfi. Þjóðsaga,. bls. 227-344.
  2. Hörður Ágústsson (Febrúar 1968). „Burstabærinn kemur fyrst fram á síðustu öld“. Morgunblaðið.
  3. Sigríður Sigurðardóttir (1998). Um náðhús. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1996-1997. bls. 69-93.
  4. Haraldur Helgason; ritstj. Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (2004)). Bæjarhús á síðari öldum: Byggingararfur í húsasafni Þjóðminjasafnsins, í Hlutavelta tímans. Þjóðminjasafnið. bls. 41.
  5. Sigríður Sigurðardóttir. „Torf til bygginga“ (PDF). Smárit Byggðasafns Skagfirðinga VII.
  6. [Dr. G. Hartwig (1869). The Polar World: a popular description of man and nature in the Arctic and Antarctic regions of the globe. Harper & Brothers. bls. 89.
  7. Húsakynni og húsabyggingar á Íslandi, Þjóðólfur, 24. janúar 1863, bls. 50
  8. Arnheiður Sigurðardóttir (1966). Híbýlahættir á miðöldum. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
  9. Hörður Ágústsson 1987
  10. Hooker, William Jackson (1811). Journal of a tour in Iceland in the summer of 1809. Vernor, Hood, and Sharpe, and W. Miller. bls. 88-91.
  11. J. Ross Browne; Helgi Magnússon þýddi (1976). Íslandsferð 1862, upphaflega gefið út sem The Land of Thor. Bókaútgáfan Hildur. bls. 107-108.
  12. Hjörleifur Stefánsson (2013). Af jörðu – Íslensk torfhús. Crymogea. bls. 83. ISBN 9789935420237.
  • Arnheiður Sigurðardóttir. (1966). Híbýlahættir á miðöldum. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóð-vinafélagsins.
  • Árni Björnsson o.fl. (2003). Úr torfbæjum inn í tækniöld. Reykjavík: Örnog Örlygur.
  • Guðmundur Ólafsson. (2004). Frá skála til gangabæjar: húsagerð á miðöldum. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.), Hlutavelta tímans. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.
  • Hörður Ágústsson. (1987). Íslenski torfbærinn. Í Frosti F. Jóhannsson (ritstj.). Íslensk þjóðmenning I, uppruni og umhverfi. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.
  • Hörður Ágústsson. (1998). Íslensk byggingararfleifð I, ágrip af húsa- gerðarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.
  • Hörður Bjarnason. (1939). Húsakostur og híbýlaprýði. Reykjavík: Mál og Menning.
  • Haraldur Helgason. „Bæjarhús á síðari öldum: Byggingararfur í húsasafni Þjóðminjasafnsins.“ Í Hlutavelta tímans, ritstýrt af Árna Björnssyni og Hrefnu Róbertsdóttur, 140-149. Reykjavík: Þjóðminjasafnið, 2004.
  • Þjóðminjasafn Íslands. (2006). Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Kynningarbæklingur. Guðrún Harðardóttir ritaði texta. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.