Gústaf 4. Adólf
| ||||
Gústaf 4. Adólf | ||||
| Ríkisár | 29. mars 1792 – 29. mars 1809 | |||
| Kjörorð | Gud och folket | |||
| Fæddur | 1. nóvember 1778 | |||
| Stokkhólmshöll, Stokkhólmi, Svíþjóð | ||||
| Dáinn | 7. febrúar 1837 (58 ára) | |||
| St. Gallen, Sviss | ||||
| Gröf | Riddarahólmskirkjunni[1] | |||
| Undirskrift | ||||
| Konungsfjölskyldan | ||||
| Faðir | Gústaf 3. | |||
| Móðir | Soffía Magdalena af Danmörku | |||
| Eiginkona | Friðrika af Baden (g. 1797; sk. 1812) | |||
| Börn | ||||
Gústaf 4. Adólf (1. nóvember 1778 – 7. febrúar 1837) var konungur Svíþjóðar frá 1792 til 1809.
Gústaf Adólf var sonur Gústafs 3. Svíakonungs og Soffíu Magdalenu af Danmörku. Hann tók við sænsku krúnunni eftir að faðir hans var myrtur árið 1792 en til ársins 1796 fór ráð ríkisstjóra undir forystu föðurbróður hans, Karls hertoga (sem síðar varð Karl 13. Svíakonungur) með völdin. Í Napóleonsstyrjöldunum tók Gústaf Adólf afstöðu gegn Napóleon og Frökkum, sem leiddi til finnska stríðsins þar sem Svíar glötuðu stjórn í Finnlandi. Óánægjan í Svíþjóð varð svo mikil að Gústaf Adólf var steypt af stóli í hallarbyltingu árið 1809. Hann varði því sem hann átti eftir ólifað í útlegð í ýmsum Evrópuríkjum við fátæklegar aðstæður.
Uppvöxtur
[breyta | breyta frumkóða]Gústaf 4. Adólf fæddist í Stokkhólmshöll og var sonur Gústafs 3. Svíakonungs og Soffíu Magdalenu af Danmörku. Snemma voru uppi slúðursögur um að Gústaf 3. væri ekki faðir barnsins, heldur sænsk-finnski hirðmaðurinn Adolf Fredrik Munck, sem hafði verið konungnum innan handar á fyrstu valdaárum hans. Þrátt fyrir að hjónaband konungshjónanna hafi verið farsælt þegar drottningin varð ófrísk breiddust þessar sögur út svo að jafnvel bróðir konungsins, Karl hertogi, greindi konungsmóðurinni Lovísu Úlriku frá þeim.
Gústaf 3. tók virkan þátt í menntun sonar síns og réð jafnframt einkakennara fyrir hann þegar hann var tveggja ára gamall, aðalsmanninn Frederik Sparre. Þegar Gústaf Adólf var þrettán ára gamall var faðir hans myrtur á grímudansleik.
Valdatíð
[breyta | breyta frumkóða]Gústaf Adólf tók ómyndugur við krúnunni eftir morðið á föður sínum. Föðurbróðir hans, Karl hertogi, varð forráðamaður hans en í framkvæmd fór aðalsmaðurinn Gustav Adolf Reuterholm með konungsvaldið. Embættismaðurinn og heimspekingurinn Nils von Rosenstein varð kennari unga konungsins. Auk latínu lærði konungurinn finnsku, sem var óvenjulegt fyrir sænskan konung og kaldhæðnislegt í ljósi þess að Gústaf Adólf átti síðar eftir að glata Finnlandi í hendur Rússa.
Kjörorð Gústafs 4. Adólfs voru „Gud och folket“. Þegar hann varð lögráða kvæntist hann árið 1797. Friðriku af Baden. Hjónaband þeirra varð farsælt og ólíkt föður sínum hafði Gústaf Adólf mikinn áhuga á kynlífi, svo mikinn að ríkismarskálkurinn Axel von Fersen yngri bað hann að „hlífa heilsu drottningarinnar“.
Erfiðleikar og fall frá völdum
[breyta | breyta frumkóða]
Á tíma Napóleonsstyrjaldanna glataði Gústaf Adólf miklu trausti vegna stefnu sinnar. Hann tók þessu af mikilli alvöru þar sem hann leit á sjálfan sig sem konung af Guðs náð. Þar sem Gústaf Adólf fyrirleit frönsku byltinguna og Napóleon og ofmat verulega hernaðarmátt Svíþjóðar lýsti hann yfir stríði gegn Frakklandi árið 1805.
Svíar börðust gegn Frökkum í þriðja og fjórða bandalagsstríðinu. Í Tilsit-friðarsáttmálanum var ákveðið að Rússland skyldi þvinga Svía til að taka þátt í viðskiptabanni Frakka gegn Bretum, sem Gústaf 4. Adólf var mjög á móti. Stuttu síðar gerðu Rússar innrás í Finnland í átökum sem urðu síðar kölluð finnska stríðið.
Óánægjan með konunginn hafði aukist jafnt og þétt undanfarin ár vorið 1809 stigmagnaðist hún eftir að Svíar neyddust til að hörfa frá Finnlandi og Gústaf Adólf ákvað að taka beina stjórn á sænska suðurhernum. Þann 13. mars 1809 ruddist hershöfðinginn Carl Johan Adlercreutz inn í vistarverur konungsins ásamt sex fleiri herforingjum og lýsti yfir:
| Öll þjóðin er harmi lostin yfir óförum ríkisins og fyrirhugaðri brottför konungsins og er staðráðin í að hindra hana. |
Konungurinn var handtekinn og settur í stofufangelsi ásamt fjölskyldu sinni í Gripshólmshöll. Þann 10. maí var sænska ríkisþingið kallað saman og látið staðfesta að konungnum væri vikið úr embætti. Gústaf Adólf var sviptur erfðarétti að krúnunni ásamt afkomendum sínum og í desember var honum vísað burt frá Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni.
Gustafsson ofursti
[breyta | breyta frumkóða]Eftir viðkomu í Kaupmannahöfn fór konungsfjölskyldan til Baden, heimalands drottningarinnar. Gústaf Adólf reyndi án árangurs að afla stuðnings fyrir tilkalli sínu til sænsku krúnunnar. Fjölskyldan settist fyrst að í Basel í Sviss en aðstæðurnar leiddu til þess að hjónabandi þeirra Friðriku var slitið árið 1812.
Eftir skilnaðinn flakkaði Gústaf Adólf milli landa í Mið-Evrópu og var fyrst þekktur sem „greifinn af Gottorp“ og síðan „Gustafsson ofursti“. Hann átti margar frillur og eignaðist börn með þremur þeirra, meðal annars þríbura með einni. Eina barnið sem hann gekkst við var Adolf Gustavsson (u. þ. b. 1820-1900), sem hann eignaðist með frillunni Mariu Schlegel.
Í október 1833 flutti hann á gistihúsið Weisses Rösslu (hvíta hestinn) í St. Gallen. Hann lést þar úr hjartaslagi fjórum árum síðar, 7. febrúar 1837.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Den trettonde Mars eller de viktigaste tilldragelser vid revolutionen i Sverige 1809
- Hågkomster från yngre åren och regeringstiden av f.d. regenten i ett nordasiatiskt rike
Ítarefnir
[breyta | breyta frumkóða]- Clason, Sam (red.), Den kunglige fången på Gripsholm: journal öfver Gustaf IV Adolfs fängelsetid och bref ur hans enskilda brefvexling, Geber, Stockholm, 1911
- Carlsson, Sten, Gustaf IV Adolf: en biografi. Stockholm: Wahlström & Widstrand, 1946
- Carlsson, Sten, Gustaf IV Adolfs fall: krisen i riksstyrelsen, konspirationerna och statsvälvningen (1807–1809) Lund : Univ., Lund, 1944
- Nordin, Michael & Nilsson, Urban, Gustav IV Adolf D. 1, 1778-1804, 2. uppl., [Michael Nordin], Stockholm, 2007
- O'Regan, Christopher, Ett märkvärdigt barn: Gustaf III:s son, Forum, Stockholm, 2007
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Gustav IV Adolf, fra popularhistora.se
| Fyrirrennari: Gústaf 3. |
|
Eftirmaður: Karl 13. | |||