Frumskógur

Frumskógur er skógur sem hefur vaxið án íhlutunar mannsins í margar aldir. Á íslensku er orðið notað um óræktaðan þéttvaxinn skóg.[1] Frumskógar hafa sérstök vistfræðileg einkenni, eins og þéttan og mikinn undirgróður og misgömul tré, sem sum eru mjög há og gömul.[2] Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna skilgreinir frumskóga sem náttúrulega skóga með innlendum tegundum sem endurnýja sig sjálfir og sýna engin merki um inngrip í vistfræðilega ferla.[3] Frumskógar eru með lagskipt og götótt laufþak, þéttan undirgróður og skógarbotn með fjölbreyttum gróðurleifum. Frumskógar búa þannig yfir fjölbreyttum búsvæðum fyrir ólíkar tegundir lífvera sem auka líffjölbreytni skógarins. Ósnertur frumskógur er skógur sem aldrei hefur verið nýttur með skógarhöggi.
Árið 2011 var áætlað að frumskógar í heiminum væru samtals 1,11 milljarðar hektara. Meira en helming þeirra, eða 61%, er að finna í þremur löndum: Brasilíu, Kanada og Rússlandi. Talið er að frumskógar hafi minnkað um 81 milljón hektara frá árinu 1990, en hraði skógeyðingar minnkaði um helming á 2. áratug 21. aldar, miðað við áratuginn á undan.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Jón Már Halldórsson (20.9.2011). „Hvar eru helstu frumskógar Evrópu?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Jón Már Halldórsson (13.1.2008). „Hver er munurinn á frumskógi og regnskógi?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „What is a primary forest?“. Klorane Botanical Foundation. Sótt 6.10.2025.
- ↑ Global Forest Resources Assessment 2020 – Key findings. Rome: FAO. 2020. doi:10.4060/ca8753en. ISBN 978-92-5-132581-0. S2CID 130116768.