Friðmundur (landnámsmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Friðmundur var landnámsmaður í Vestur-Húnavatnssýslu að því er segir í Landnámabók; hann fékk land hjá Ingimundi gamla og hafði komið með honum til landsins en Landnámu og Vatnsdæla sögu ber ekki saman um hvort hann hafi verið þræll eða frjáls maður. Hafi hann verið þræll hefur Ingimundur gefið honum frelsi áður en hann nam land.

„Friðmundur nam Forsæludal“, segir í Landnámu og ekkert meir um landnám Friðmundar, en Vatnsdæla segir aftur á móti að sá sem nam Forsæludal, sem er suður af Vatnsdal, hafi heitið Þórólfur heljarskinn og verið mikill ójafnaðarmaður og óvinsæll. Sagt er að hann hafi gert virki suður við Friðmundará og gert margan óskunda. Hann var grunaður um mannblót. Nokkrir illvirkjar, „hans jafningjar eða verri“, söfnuðust þar að honum en á endanum fóru synir Ingimundar gamla að þeim og drápu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnámabók. Hjá snerpa.is“.
  • „Vatnsdæla saga. Hjá snerpa.is“.
  • „Hamarinn við Friðmundará. Lesbók Morgunblaðsins, 3. febrúar 1996. Úr gagnasafni mbl.is“.