Fara í innihald

Freigátan Boudeuse (1766)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Franska freigátan Boudeuse um 1766.

Boudeuse var frönsk freigáta með 32 fallbyssur. Smíði á henni hófst 1765 og hún var sjósett 1766. Boudeuse var skip franska landkönnuðarins Louis Antoine de Bougainville. Seinna var skipið notað í bandaríska frelsisstríðinu og frönsku byltingunni. Ferill þess endaði á Möltu árið 1800 þar sem skipið var rifið og timbrið notað sem eldiviður.[1]

Smíði skipsins og ferðin í kringum jörðina

[breyta | breyta frumkóða]
Málverk af landkönnuðinum Louis Antoine de Bougainville sem sigldi Boudeuse í kringum jörðina.

Boudeuse var hannað af Jean-Hyacinthe Raffeau og smíði þess hófst í Indret (Indre) 1765, skipið var sjósett 1766. Heildarlengd þess var 40,6 metrar, breidd 10,5 metrar og djúprista þess 5,35 metrar. Skipið var aðeins minna en aðrar freigátur franska flotans á þessum tíma sem voru að meðaltali 42 metra langar, 11 metra breiðar og djúprista þeirra 5.5 metrar. Skipið var vopnað með 26 tólf punda fallbyssum. Landkönnuðurinn Louis Antoine de Bougainville valdi Boudeuse sem flaggskip sitt fyrir siglingu sína í kringum jörðina. Áhöfn skipsins í leiðangrinum samanstóð af 210 mönnum, þar af 30 hermönnum.

Leiðangurinn lagði af stað frá Nantes 1766. Um borð voru náttúrufræðingurinn Philibert Commerson og hjákona hans Jeanne Baret en hún var fyrsta konan til að sigla hringinn í kringum jörðina. Leiðangurinn sigldi suður fyrir Suður-Ameríku og inn á Kyrrahaf. Þaðan lá leiðin til Tahítí. Þar gekk maður að nafni Ahutoru til liðs við leiðangurinn og varð aðal túlkur Bougainville í samskiptum hans við eyjaskeggja. Ahutoru ákvað síðan að fylgja Bougainville alla leiðina til Frakklands. Eftir að stoppa í Indónesíu sigldi Bougainville suður fyrir Góðrarvonahöfða og þaðan til Frakklands. Leiðangurinn kom heim 16. mars 1769. Bougainville varð þannig fyrsti franski landkönnuðurinn til að fara hringinn í kringum jörðina. Einungis 7 áhafnarmeðlimir létust í siglingunni sem þótti einstaklega lítið á þeim tíma.[2] Eftir leiðangurinn var Boudeuse endurnýjað í Brest 1775-1776.[1]

Bandaríska frelsisstríðið og franska byltingin

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1778 var Boudeuse hluti af flotasveit sem Loðvík 16.. sendi til Karíbahafsins til að herja á bresk skip þar. Þetta var hluti af stuðningi hans við uppreisnarmennina í bandaríska frelsisstríðinu. Frakkland viðurkenndi sjálfstæði Bandaríkjanna 6. febrúar 1778 og Bretar svöruðu með því að lýsa yfir stríði gegn Frakklandi. Frönsk flotasveit var því send til að herja á breskar nýlendur í Karíbahafinu. 13. janúar var Boudeuse á siglingu undan ströndum Sint Eustatius undir stjórn Jacques de Grenier liðsforingja þegar áhöfnin kom auga á HMS Weazel. HMS hafði einungis 16 fallbyssur og gafst því upp. 28. febrúar tók Boudeuse þátt í því að hertaka Sankti Martin og 6. júlí tók skipið þátt í sjóorrustu undan strönd Grenada þar sem franska flotasveitin neyddi breska flotann á Karíbahafi til að hörfa frá eyjunni.[3]

Árið 1794 var skipið endurbyggt til að bera 32 fallbyssur. Sex 6-punda fallbyssum var bætt við auk tveggja 36-punda sprengjuvarpa. Það var síðan flutt í Miðjarðarhafssveit franska flotans. Það var hluti af sveit Pierre Martin varaaðmíráls þegar hann sigldi með birgðir til Korsíku. Meðan á siglingunni stóð 8. júní 1794 kom flotasveitin auga á HMS Alceste. Alceste var frönsk freigáta sem Bretar höfðu tekið í umsátrinu við Toulon. Boudeuse elti Alceste og eftir tveggja klukkustunda bardaga gafst HMS Alceste upp.

Bretar höfðu yfirráð yfir Miðjarðarhafi og settu hafnbann á Frakkland. Setulið Frakka á Möltu var því á barmi hungursneyðar. Uppreisn Maltverja neyddi franska setuliðið til að hörfa inn í virkin í kringum Grand Harbour. Boudeuse var því fyllt af vistum og Calaman liðsforingja var skipað að sigla skipinu til Möltu og reyna að komast fram hjá hafnbanni Breta til að koma vistunum til franska setuliðsins. Vont veður gerði Calaman auðveldara að komast framhjá bresku herskipunum og 4. febrúar 1799 kom Boudeuse til hafnar í Grand Harbour. Það reyndist hins vegar ógerlegt fyrir skipið að sleppa frá Möltu og frekari hjálp frá Frakklandi barst ekki. Í júlí 1800 var skipið í lélegu ástandi eftir að hafa legið í höfninni í meira en ár. Eldiviður var af skornum skammti og ekki lengur hægt að baka brauð fyrir setuliðið. Boudeuse var því rifið í höfninni og timbrið notað sem eldiviður fyrir bakaríið í virkinu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1 2 Rif Winfield; Stephen S. Roberts (2015). French Warships in the Age of Sail 1786 – 1861: Design Construction, Careers and Fates. Seaforth Publishing.
  2. L. Denoix (1968). Journal de la Société des Océanistes. Les bateaux du voyage de Bougainville La Boudeuse et l'Étoile. bls. 55-58.
  3. Alan Demerliac (1996). La Marine de Louis XVI: Nomenclature des navires français de 1774 À 1792. Éditions OMEGA.