François Quesnay

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
François Quesnay
François Quesnay
Fæddur 4. júní 1694
Méré, Frakklandi
Látinn 16. desember 1774 (80 ára)
Versölum, Frakklandi
Þjóðerni Franskur
Hagfræðistefna Búauðgisstefna
Starf/staða Hagfræðingur, læknir heimspekingur
Áhrifavaldar Konfúsíus
Hafði áhrif á Adam Smith, Karl Marx

François Quesnay (4. júní 1694 – 16. desember 1774) var franskur hagfræðingur og læknir og er talinn vera einn fyrsti hagfræðingurinn til að greina efnahagslífið sem eina heild. Hann var skurðlæknir kongungs Frakklands, Loðvíks XV. Quesnay er þekktastur fyrir framlög sín til hagfræðinnar, en kenningar hans, sýn á samspil ólíkra greina hagkerfisins og ekki síður aðferðafræði höfðu mikil áhrif á Adam Smith. Þekktasta framlag hans er hugtakið laissez-faire, eða „laissez-faire et laissez-passeur“, sem má þýða „slepptu og leyfðu hjá að líða“ til að lýsa réttri og skynsamlegri efnahagsstefnu ríkisins.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Quesnay fæddist í Mere, skammt frá París. Þegar hann var sextán ára hóf hann nám í læknisfræði í París. Hann giftist Marianne Woodsen 1718 og eignaðist með henni tvö börn. Hann bar snemma af sem skurðlæknir og varð læknir Frönsku konungsfjölskyldunnar og reis í metorðum þangað til að hann varð aðal heilsuráðgjafi konungs í Versölum. Konungi þótti mikið til Quesnay koma og kallaði hann „hugsarann sinn“. Quesnay fékk aðalstígn að launum fyrir þjónustu sína og var skjaldarmerki hans prýtt þremur hortensíum sem á frönsku kallast “Fleur de pensée” eða "blóm hugsunarinnar”.

Framlög til hagfræði[breyta | breyta frumkóða]

Quesnay er þekktastur í dag fyrir framlög sín til hagfræðinnar. Hann er ásamt Jacques Claude Marie Vincent de Gournay talinn faðir Búauðgisstefnunnar (e: Physiocracy) sem var ríkjandi skóli franskrar hagfræði milli 1750-1780. Physiocracy sem upprunalega kemur úr grísku (samsett úr orðunum phýsis og kratos = náttúra og vald) og þeir sem aðhylltust hana trúðu því að vald hagkerfisins kæmi að mestu leiti frá landbúnaði.

Quesnay er með þeim fyrstu hagfræðingum sem hafði trú á því að lögmál markaðarins gætu ein tryggt efnahagslega velsæld og að afskipti ríkisins væru til trafala. Quesnay og aðrir talsmenn búaðgisstefnunnar voru töldu að háir tollar og verslunarhömlur sem voru hluti merkantílískrar hagstjórnar, sem hann kallaði Colbertisma eftir Jean-Baptiste Colbert fjármálaráðherra Loðvíks XV konungs. Quesnay lagði ýmsar tillögur fyrir konung til að auka viðskiptafrelsi, þar á meðal vildi hann lækka skatta og afnema tolla auk breytinga á lögum um viðskipti innan Frakklands. Með þessu vildi hann líkja meira eftir Bretum, ríku nágrönnum þeirra. Þó Quesnay væri talsmaður verslunarfrelsis var hann eindreginn stuðningsmaður upplýsts einveldis.

Tableau économique[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta fræðirit sitt gaf Quesnay þegar hann var 64 ára, árið Tableu économique (1758). Ritið er eitt mikilvægasta hagfræðirit for-klassískrar hagfræði. Í Tableau setti Quesnay fram hringrásarmódel af hagkerfinu sem hann skipti í tvo geira, iðnað og landbúnað. Hugmyndin um að efnahagslífið einkenndist af hringrás ekki ósvipaðri blóðrás líkamans var nærtæk fyrir Quesnay sem var læknir.

Auk landbúnaðar og iðnaðar, sem framleiddu og seldu vörur, gerði Quesnay ráð fyrir landeigendum sem höfðu tekjur af landbúnaði í formi rentu sem þeir notuðu til neyslu á framleiðslu bæði bænda og iðnaðar. Quesnay gerði hins vegar ráð fyrir því að aðeins landbúnaður gæti skapað nýjan auð: Iðnaður og öll önnur efnahagsstarfsemi væri „ófrjó“ (e: sterile), og fæli ekki í sér annað en endurröðun á gjöfum jarðarinnar, en bætti ekki við nýjum auð. Aðeins landbúnaður gæti skapað ný verðmæti og auð. Gjafmildi jarðarinnar gerði að verkum að hægt væri að planta einu korni, en uppskera tvö. Tekjur landeigenda í formi rentu af landi voru notaðar til að kaupa framleiðslu bæði iðnaðar og bænda, sem áttu sömu leiðis í viðskiptum innbyrðis. Þar sem landbúnaður væri eini geiri efnahagslífsins sem skilaði afgangi sem hægt væri að flytja yfir á næsta tímabil og skapa þannig vöxt, væri eðlilegt að stjórnvöld styddu við landbúnað, frekar en iðnað líkt og merkantílistar höfðu viljað. Hann taldi ennfremur að Frakkland, sem var ólíkt t.d. Bretlandi eða Holland ríkt af gjöfulu ræktarlandi, ætti ennfremur að styðja landbúnað frekar en iðnað.

Hugmynd Quesnay um efnahagslífið sem hringrás þar sem tekjur og vörur flæddu á milli ólíkra geira, mikilvægi landrentu og sjálfvirkra markaðslögmála sem virkuðu best og með skilvirkustum hætti án inngripa ríkisins höfðu mikil áhrif á Adam Smith. Tvískipting efnahagslífsins í módeli Quesnays hafði einnig mikil áhrif á Karl Marx.[1]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Harry., Landreth, (2002). History of economic thought. Houghton Mifflin. ISBN 0-618-13394-1. OCLC 50175877.