Franck Cammas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Franck Cammas árið 2012
Groupama 2 í Brest.

Franck Cammas (f. 22. september 1972) er franskur siglingamaður sem hefur margoft unnið heimsmeistarakeppni fjölbytnusamtakanna Ocean Racing Multihull Association frá árinu 2000 með þríbytnunum Groupama, Groupama 2 og Groupama 3.

Hann hefur þrisvar orðið í fyrsta sæti í keppni á Kaffileiðinni frá Le Havre í Frakklandi til Salvador de Bahia í Brasilíu og lenti í fimmta sæti á Rommleiðinni frá Saint-Malo í Frakklandi til Pointe-à-Pitre á Guadeloupe árið 2006. Hann á auk þess núverandi met í siglingu með áhöfn yfir Norður-Atlantshafið frá vestri til austurs, 4 dagar, 3 klukkutímar, 57 mínútur og 54 sekúndur, sem hann setti árið 2007.

24. janúar 2008 lagði hann upp á sérsmíðuðu þríbytnunni Groupama 3 til að reyna að setja met í siglingu með áhöfn umhverfis jörðina (Jules Verne-verðlaunin). Tilrauninni lauk við strendur Nýja Sjálands rétt fyrir miðnætti 17. febrúar þegar annað flotholtið brotnaði frá hléborðsmegin í 30 hnúta vindi (um 15 m/s eða sjö vindstig) með þeim afleiðingum að báturinn fór snögglega á hliðina. Allri áhöfninni, tíu manns, var bjargað af kilinum af þyrlubjörgunarsveit frá Nýja Sjálandi. Árið 2010 tókst honum loks að bæta met Bruno Peyron frá 2005 um tvo daga með þríbytnunni Groupama 3. Það met var svo slegið af Loïck Peyron snemma árs 2012.

Sama ár, eða 2010, sigraði Cammas Route du Rhum-keppnina milli Frakklands og Gvadelúp. Hann sigldi yfir Atlantshafið á Groupama 3 á níu dögum og þremur tímum.

Hann sigraði eina stærstu siglingakeppni heims, Volvo Ocean Race, 2011/12 sem skipstjóri á Groupama 4 sem er einbytna af Open 70-gerð.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]