Fara í innihald

Francesca Albanese

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Francesca Albanese
Albanese árið 2025.
Sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Palestínu
Núverandi
Tók við embætti
1. maí 2022[1]
ForveriMichael Lynk
Persónulegar upplýsingar
Fædd30. mars 1977 (1977-03-30) (48 ára)
Ariano Irpino, Kampaníu, Ítalíu
ÞjóðerniÍtölsk
MakiMassimiliano Calì
Börn2
HáskóliHáskólinn í Pisa (LMG)
SOAS University of London (LLM)

Francesca Paola Albanese (f. 30. mars 1977) er ítalskur lögfræðingur og sérfræðingur í mannréttindum[2] sem hefur verið sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Palestínu frá 1. maí 2022. Hún var upphaflega skipuð til þriggja ára[3] en var skipuð til þriggja ára í viðbót í apríl 2025.[4] Hún er fyrsta konan til að gegna þessari stöðu.

Albanese veitti mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu um stöðu mála á Gazaströndinni í stríði Ísraels og Hamas í mars 2024. Í skýrslunni sagði hún sterkar vísbendingar vera um að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð gegn Palestínumönnum á Gazaströndinni. Hún ályktaði jafnframt að hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október 2023 hefði ekki verið knúin áfram af gyðingahatri heldur af kúgun Ísraela á Palestínumönnum. Ísraelar og bandamenn þeirra hafa ítrekað sakað Albanese sjálfa um gyðingahatur vegna ályktana hennar. Albanese sagðist hafa fengið fjölda hótana eftir að hún veitti skýrsluna.[5]

Í júlí 2025 hvatti Albanese ríki heims til að setja bann á vopnasölu til Ísraels og slíta viðskiptatengslum við landið. Hún benti jafnframt á rúmlega 60 fyrirtæki sem hún sagði hafa stutt landtöku og hernað Ísraela, meðal annars bandarísk stórfyrirtæki eins og Microsoft og Caterpillar.[6]

Síðar í júlí 2025 hófu Bandaríkin refsiaðgerðir gegn Albanese, meðal annars með ferðatakmörkunum og frystingu eigna.[7] Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði Albanese hafa með „ólögmætum og skammarlegum“ hætti hvatt Alþjóðlega sakamáladómstólinn til að grípa til aðgerða gegn bandarískum og ísraelskum embættismönnum, fyrirtækjum og stjórnendum þeirra.[8] Rubio sagði þetta gróft brot á fullveldi ríkjanna þar sem þau væru ekki aðilar að Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.[9]

Sameinuðu þjóðirnar gagnrýndi refsiaðgerðirnar gegn Albanese. Stéphane Dujarric, talsmaður aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sagði þær setja hættulegt fordæmi. Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til tafarlausrar endurskoðunar þeirra.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „OHCHR | Special Rapporteur on the situation of human rights in the Palestinian territories occupied since 1967“. OHCHR.
  2. „Lunchtime Seminar: 'Resetting the Mind: Settler Colonialism, Apartheid and the Right to Self-determination in Palestine'. University of Galway. 6 nóvember 2022.
  3. Richard Falk; John Dugard; Michael Lynk (15 janúar 2023). Protecting Human Rights in Occupied Palestine: Working Through the United Nations. SCB Distributors. ISBN 978-1-949762-55-6.
  4. „Francesca Albanese confermata relatrice Onu per i territori palestinesi fino al 2028“. Il Fatto Quotidiano (ítalska). 5 apríl 2025. Sótt 20 júlí 2025.
  5. „Hótað eftir að hún lýsti árásunum sem þjóðarmorði“. mbl.is. 27. mars 2024. Sótt 8. september 2025.
  6. Dagný Hulda Erlendsdóttir (3. júlí 2025). „Krefst vopnasölubanns og sniðgöngu“. RÚV. Sótt 8. september 2025.
  7. Hólmfríður Gísladóttir (10. júlí 2025). „Bandaríkjamenn refsa sendi­full­trúa SÞ í mál­efnum Palestínumanna“. Vísir. Sótt 8. september 2025.
  8. Grétar Þór Sigurðsson (10. júlí 2025). „Bandaríkin beita sendifulltrúa SÞ í málefnum Palestínu þvingunaraðgerðum“. RÚV. Sótt 8. september 2025.
  9. 1 2 „Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna refsiaðgerðir gegn Albanese“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 2025. Sótt 8. september 2025.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.