Francesca Albanese
| Francesca Albanese | |
|---|---|
Albanese árið 2025. | |
| Sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Palestínu | |
Núverandi | |
| Tók við embætti 1. maí 2022[1] | |
| Forveri | Michael Lynk |
| Persónulegar upplýsingar | |
| Fædd | 30. mars 1977 Ariano Irpino, Kampaníu, Ítalíu |
| Þjóðerni | Ítölsk |
| Maki | Massimiliano Calì |
| Börn | 2 |
| Háskóli | Háskólinn í Pisa (LMG) SOAS University of London (LLM) |
Francesca Paola Albanese (f. 30. mars 1977) er ítalskur lögfræðingur og sérfræðingur í mannréttindum[2] sem hefur verið sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Palestínu frá 1. maí 2022. Hún var upphaflega skipuð til þriggja ára[3] en var skipuð til þriggja ára í viðbót í apríl 2025.[4] Hún er fyrsta konan til að gegna þessari stöðu.
Albanese veitti mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu um stöðu mála á Gazaströndinni í stríði Ísraels og Hamas í mars 2024. Í skýrslunni sagði hún sterkar vísbendingar vera um að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð gegn Palestínumönnum á Gazaströndinni. Hún ályktaði jafnframt að hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október 2023 hefði ekki verið knúin áfram af gyðingahatri heldur af kúgun Ísraela á Palestínumönnum. Ísraelar og bandamenn þeirra hafa ítrekað sakað Albanese sjálfa um gyðingahatur vegna ályktana hennar. Albanese sagðist hafa fengið fjölda hótana eftir að hún veitti skýrsluna.[5]
Í júlí 2025 hvatti Albanese ríki heims til að setja bann á vopnasölu til Ísraels og slíta viðskiptatengslum við landið. Hún benti jafnframt á rúmlega 60 fyrirtæki sem hún sagði hafa stutt landtöku og hernað Ísraela, meðal annars bandarísk stórfyrirtæki eins og Microsoft og Caterpillar.[6]
Síðar í júlí 2025 hófu Bandaríkin refsiaðgerðir gegn Albanese, meðal annars með ferðatakmörkunum og frystingu eigna.[7] Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði Albanese hafa með „ólögmætum og skammarlegum“ hætti hvatt Alþjóðlega sakamáladómstólinn til að grípa til aðgerða gegn bandarískum og ísraelskum embættismönnum, fyrirtækjum og stjórnendum þeirra.[8] Rubio sagði þetta gróft brot á fullveldi ríkjanna þar sem þau væru ekki aðilar að Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.[9]
Sameinuðu þjóðirnar gagnrýndi refsiaðgerðirnar gegn Albanese. Stéphane Dujarric, talsmaður aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sagði þær setja hættulegt fordæmi. Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til tafarlausrar endurskoðunar þeirra.[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „OHCHR | Special Rapporteur on the situation of human rights in the Palestinian territories occupied since 1967“. OHCHR.
- ↑ „Lunchtime Seminar: 'Resetting the Mind: Settler Colonialism, Apartheid and the Right to Self-determination in Palestine'“. University of Galway. 6 nóvember 2022.
- ↑ Richard Falk; John Dugard; Michael Lynk (15 janúar 2023). Protecting Human Rights in Occupied Palestine: Working Through the United Nations. SCB Distributors. ISBN 978-1-949762-55-6.
- ↑ „Francesca Albanese confermata relatrice Onu per i territori palestinesi fino al 2028“. Il Fatto Quotidiano (ítalska). 5 apríl 2025. Sótt 20 júlí 2025.
- ↑ „Hótað eftir að hún lýsti árásunum sem þjóðarmorði“. mbl.is. 27. mars 2024. Sótt 8. september 2025.
- ↑ Dagný Hulda Erlendsdóttir (3. júlí 2025). „Krefst vopnasölubanns og sniðgöngu“. RÚV. Sótt 8. september 2025.
- ↑ Hólmfríður Gísladóttir (10. júlí 2025). „Bandaríkjamenn refsa sendifulltrúa SÞ í málefnum Palestínumanna“. Vísir. Sótt 8. september 2025.
- ↑ Grétar Þór Sigurðsson (10. júlí 2025). „Bandaríkin beita sendifulltrúa SÞ í málefnum Palestínu þvingunaraðgerðum“. RÚV. Sótt 8. september 2025.
- 1 2 „Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna refsiaðgerðir gegn Albanese“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 2025. Sótt 8. september 2025.