Framfarafélagið Kópavogur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Framfarafélagið Kópavogur var stofnað 13. maí 1945 í herskála (bragga) í Camp Hilton við Fífuhvamm. Þetta var menningar- og hagsmunafélag íbúa Kópavogs.

Stjórnmálaþátttaka[breyta | breyta frumkóða]

Það stóð fyrir framboði í hreppsnefndarkosningum í Seltjarnarnesi og Kópavogshreppi árið 1946 með mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum með það að markmiði að ná meirihluta til að þrýsta á frekari framfarir í Kópavogi. Vann það kosninguna með fjögurra atkvæða mun gegn A-lista þar sem fyrrum hreppsnefndarmenn skipuðu efstu sætin. Ákveðið var svo að skipta hreppnum upp og kljúfa Kópavog úr honum enda væri hreppurinn í tveim ólíkum og ótengdum hlutum og Kópavogur orðin nær jafnfjölmennur og Sauðárkrókur sem hafði þá nýverið fengið kaupstaðarréttindi. Skiptingin fór fram um áramótin 1947-48, og héldu Kópavogsbúar eigin hreppsnefndarkosningu í framhaldi af því 29. janúar 1948. Tók framfarafélagið þátt í þeim kosningum undir heitinu A-listinn og einnig árið 1950 en þá sem Framfarafjelagið.

Félagsstarf og útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Félagið átti hlut í Félagsheimili Kópavogs með Kvenfélagi Kópavogs, Ungmennafélaginu Breiðabliki, Skátafélaginu Kópum, Slysavarnarfélagi Kópavogs og Leikfélagi Kópavogs.

Félagið gaf einnig út blaðið Kópavogur, blað um sveitarmál í Kópavogshreppi árið 1950, en það blað var svo gefið út af Óháðum kjósendum í Kópavogi, síðar Alþýðubandalaginu í Kópavogi og Samfylkingunni í Kópavogi.

Önnur framfarafélög[breyta | breyta frumkóða]

Framfarafélög hafa starfað víða um land og má þar nefna Framfarafélög Seltirninga, Vestmannaeyja og Akureyrar. Á höfuðborgarsvæðinu störfuðu Framfarafélög Kleppshyltinga, Árbæjar- og Seláshverfis, Vatnsendahverfis og Breiðholts.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Stofnun Framfarafélagsins Kópavogs, á vef Norræna skjaladagsins 2008“.
  • Hrafn Sveinbjarnarson (ritstj.) (2008). "Framfarafélagið Kópavogur" Ársrit Héraðsskjalasafns Kópavogs 2006-2007. Héraðsskjalasafn Kópavogs.