Jiang Qing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Frú Maó)
Jiang Qing
江青
Jiang Qing árið 1976.
Fædd19. mars 1914
Dáin14. maí 1991 (77 ára)
DánarorsökSjálfsmorð
StörfLeikkona, stjórnmálakona
MakiPei Minglun (g. 1931)
Tang Na (g. 1936)
Maó Zedong (g. 1938; d. 1976)

Jiang Qing (19. mars 1914 – 14. maí 1991), einnig kölluð frú Maó,[1] var kínversk kommúnísk byltingarkona, leikkona og stjórnmálakona sem naut mikilla áhrifa á tíma menningarbyltingarinnar (1966–76). Hún var fjórða eiginkona Maó Zedong, formanns kínverska kommúnistaflokksins og æðsta leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína. Hún notaði sviðsnafnið Lan Ping á leikaraárum sínum og var þekkt undir ýmsum öðrum nöfnum. Hún giftist Maó árið 1938 og varð „forsetafrú“ Kína við stofnun Alþýðulýðveldisins. Jiang Qing lék lykilhlutverk í Menningarbyltingunni og myndaði ásamt Wang Hongwen, Zhang Chunqiao og Yao Wenyuan róttækt stjórnmálabandalag sem kallað var „fjórmenningaklíkan“.[2][3]

Jiang Qing var einkaritari eiginmanns síns á fimmta áratugnum og starfaði sem formaður kvikmyndadeildar áróðursráðuneytis kommúnistaflokksins á sjötta áratugnum. Hún var nokkurs konar sendifulltrúi Maós í byrjun menningarbyltingarinnar. Árið 1966 var hún útnefnd aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnarnefndar Menningarbyltingarinnar. Hún vann ásamt Lin Biao við að boða túlkun Maós á kommúnískri hugmyndafræði og við að ýta undir leiðtogadýrkun á Maó. Á hápunkti menningarbyltingarinnar naut Jiang Qing mikilla valda í ríkisstjórn landsins, sérstaklega í menningar- og listastefnu. Í áróðri var hún lofsömuð sem „hinn mikli fánaberi alþýðubyltingarinnar“. Árið 1969 tók Jiang Qing sæti í miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins.

Áður en Maó dó stjórnaði fjórmenningaklíkan mörgum ríkisstofnunum Kína, þar á meðal áróðursráðuneytinu og öðrum ríkisfjölmiðlum. Jiang Qing, sem naut valda sinna aðallega í ljósi tengsla sinna við Maó, var hins vegar oft á öndverðum meiði við aðra helstu leiðtoga Kína. Hún glataði miklum völdum þegar Maó dó árið 1976. Í október 1976 var hún handtekin að undirlagi Hua Guofengs og bandamanna hans og síðan fordæmd af stjórnarmönnum flokksins. Upp frá því hafa kínversk stjórnvöld opinberlega stimplað Jiang Qing sem meðlim í „Lin Biao og Jiang Qing-gagnbyltingarklíkunni“[4] og hafa kennt henni um hörmungar menningarbyltingarinnar. Hún var dæmd til dauða en dómurinn var mildaður í ævilangt fangelsi árið 1983. Jiang Qing var sleppt svo hún gæti hlotið læknismeðferð árið 1991 en hún framdi sjálfsmorð stuttu síðar.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Frú Maó: Voldugasta kona í heimi“. Vikan. 19. ágúst 1971. Sótt 15. október 2018.
  2. „Menningarbyltingin og fjórmenningaklíkan“. mbl.is. 30. mars 2001. Sótt 15. október 2018.
  3. „Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína?“. Vísindavefurinn.
  4. A Great Trial in Chinese History — the Trial of the Lin Biao and Jiang Qing Counter-Revolutionary Cliques, Beijing/Oxford: New World Press/Pergamon Press, 1981, bls. title
  5. Stefan R. Landsberger (2008). Madame Mao: Sharing Power with the Chairman.