Forskriftarvandinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
David Hume vakti fyrst athygli á forskriftarvandanum í Ritgerð um mannlegt eðli.

Forskriftarvandinn er vandi í siðspeki sem skoski heimspekingurinn David Hume vakti fyrst athygli á í riti sínu Ritgerð um mannlegt eðli.[1] Hann veitti því athygli að margir tala um það sem ætti að vera á grundvelli fullyrðinga um það sem er. Það er að segja, þeir reyna að leiða gildisdóma af staðreyndum. En það viðist vera mikilvægur munur á lýsandi fullyrðingum (um það sem er, þ.e. um staðreyndir) annars vegar og á forskriftum (fullyrðingum um það sem ber) hins vegar.

Ef það er, til dæmis, staðreynd að skurðaðgerð geti eða jafnvel muni bjarga lífi manns, þá leiðir ekki af þeirri staðreynd að maður ætti að gangast undir aðgerðina. Til þess að komast að þeirri niðurstöðu þar að gefa sér gildisdóm sem forsendu í röksemdafærslunni, svo sem að lífið sé þess virði að því sé lifað. Ef maður gefur sér á hinn bóginn að lífið sé ekki þess virði að því sé lifað leiðir alls ekki af forsendunum að maður ætti að gangast undir aðgerðina enda þótt það sé óvefengjanleg staðreynd að aðgerðin muni bjarga lífi manns.

Hume varar við því að breyta umræðuefninu á þennan hátt og fara að tala um hvernig eitthvað ætti að vera á grundvelli þess hvernig eitthvað er án þess að útskýra fyrst hvernig forskriftirnar eigi að leiða af staðhæfingum um staðreyndir.

En er hægt að fara að því að leiða „ber“ (forskriftir og gildi) af „er“ (staðreyndum)? Þessi spurning er nú miðlæg í siðfræðilegri orðræðu. Hume er venjulega eignuð sú skoðun það sé ekki hægt að leiða forskriftir eða gildi af staðreyndum. (Aðrir túlka Hume á þann veg að hann sé ekki að segja að það sé ekki hægt að leiða siðferðilegar staðhæfingar af staðhæfingum um staðreyndir, heldur að það sé ekki hægt að gera það nema á grundvelli mannlegs eðlis, þ.e. með hliðsjón af mannlegum tilfinningum.) Hume er sennilega einn fyrsti hugsuðurinn sem gerir skýran greinarmun á staðhæfingum um staðreyndir annars vegar og gildi hins vegar. Greinarmunurinn liggur nú til grundvallar félagsvísindunum. Enski heimspekingurinn G.E. Moore varði áþekka kenningu í upphafi 20. aldar með gagnrýni sinni á hluthyggju um gildi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Um forskriftarvandann hjá Hume, sjá Rachael Cohon, „Hume's Moral Philosophy: 5. Is and ought“ (2004) (30.07.2007).

Heimildir og frekara lesefni[breyta | breyta frumkóða]

  • Searle, John R., „How to Derive 'Ought' From 'Is'“, Philosophical Review 73 (1964): 43-58.
  • Searle, John R., The construction of social reality (New York: Free Press, 1995).