Folke Bernadotte

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Folke Bernadotte
Fæddur2. janúar 1895
Dáinn17. september 1948 (53 ára)
DánarorsökMyrtur
ÞjóðerniSænskur
StörfRíkiserindreki
MakiEstelle Romaine Manville (g. 1928)
Börn4
ForeldrarOscar Bernadotte og Ebba Munck

Folke Bernadotte, greifi af Wisborg (2. janúar 1895 – 17. september 1948) var sænskur aðalsmaður og erindreki. Í seinni heimsstyrjöldinni samdi hann um lausn um 31.000 fanga úr útrýmingarbúðum nasista, þar á meðal 450 danskra gyðinga úr Theresienstadt-búðunum. Þeir voru leystir úr haldi þann 14. apríl árið 1945. Sama ár tók Bernadotte við þýsku uppgjafartilboði frá Heinrich Himmler en tilboðinu var að endingu hafnað.

Eftir stríðið valdi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna Bernadotte sem sáttasemjara í stríði Araba og Ísraela árin 1947–1948. Bernadotte fór til Ísraels í erindagjörðum sínum en var myrtur í Jerúsalem árið 1948 af meðlimum síonísku skæruliðahreyfingarinnar Lehi. Eftir dauða hans tók Ralph Bunche við sem sáttasemjari í deilunni og tókst árið 1949 að semja um vopnahlé milli Ísraels og Egyptalands.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Folke Bernadotte fæddist þann 2. janúar árið 1895 og var yngstur af fjórum börnum Óskars prins og Ebbu prinsessu. Óskar 2. Svíakonungur var afi hans og Gústaf 5. föðurbróðir hans. Folke ólst upp á heimili foreldra sinna við Östermalmsgatan í Stokkhólmi og gekk í sunnudagsskóla borgarinnar ásamt systkinum sínum. Eftir grunnskólanám gekk Bernadotte í Karlsberg-hernaðarháskólann og útskrifaðist sem liðsforingi í sænska hernum. Árið 1928 kvæntist Bernadotte auðugri Bandaríkjakonu að nafni Estelle Manville sem hann hafði kynnst í frönsku rivíerunni.[1]

Bernadotte hafði hug á að hefja störf við banka í New York og gerast síðar bankastjóri en hætti við fyrirætlanir sínar eftir að sænska ríkið fór að sækjast eftir starfskröftum hans. Bernadotte varð fulltrúi Gústafs konungs á heimssýningunni í Chicago árið 1933 og starfaði síðar sem aðalframkvæmdastjóri dönsku deildarinnar á heimssýningunni í New York árið 1939.[1]

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939 gekk Bernadotte aftur í sænska herinn. Hann varð yfirmaður deildar hersins sem sá um flóttamenn og pólitíska fanga og sá því um marga danska og norska hermenn sem hröktust yfir landamærin til Svíþjóðar eftir innrásir Þjóðverja í Danmörku og Noreg. Sænski Rauði krossinn fól Bernadotte að ná föngum úr fangabúðum nasista og eftir heimsókn til Parísar árið 1944 fékk hann hugmynd að fangaskiptum við Þjóðverja á vegum alþjóðlega Rauða krossins.[1] Þar hafði Bernadotte átt í viðræðum við Raoul Nordling, sænskan athafnamann sem hafði fengið því framgengt að París var gerð að opinni og hlutlausri borg fyrir Rauða krossinn í stríðinu.[2]

Þann 19. febrúar árið 1945 fór Bernadotte til Berlínar og hóf viðræður við nasistaleiðtoga. Hann fundaði ásamt Heinrich Himmler, sem þá hafði yfirstjórn fangabúða í Þýskalandi, og fór fram á að allir norrænir fangar yrðu látnir lausir og að sænski Rauði krossinn fengi að flytja þá til Svíþjóðar.[3] Viðræður þeirra leiddu til þess að í maí sama ár voru um 10.000 fangar fluttir úr fangabúðum nasista til Danmerkur og Svíþjóðar í „hvítu vögnunum“ svokölluðu.[4] Í fyrstu einbeitti hann sér aðallega að lausn norskra og danskra stríðsfanga en að endingu fengu Bernadotte og starfsmenn hans um 7.000 konur af ýmsum þjóðernum auk breskra og bandarískra stríðsfanga leysta úr haldi.[1][5]

Eftir að heimsstyrjöldinni lauk valdi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna Bernadotte sem sáttasemjara í stríði hins nýstofnaða Ísraelsríkis við arabískar nágrannaþjóðir sínar.

Þann 17. september árið 1948 flaug Bernadotte frá Damaskus til samningafundar í Jerúsalem í einkaþotu sinni ásamt franska ofurstanum André Sérot. Eftir að til Jerúsalem var komið var hófu skæruliðar úr síonísku vígasamtökunum Lehi (einnig kölluð Stern-samtökin) skothríð á bifreið Bernadotte. Bernadotte lést samstundis en Sérot lét lífið nokkrum stundum síðar á sjúkrahúsi. Daginn eftir morðið á Bernadotte lýsu meðlimir Lehi árásinni á hendur sér og sögðu hann hafa verið handbendi Englendinga.[6] Leiðtogar Lehi óttuðust að með friðarskilmálum Bernadotte yrði hernámssvæðum Ísraela skilað til Araba og öryggi Ísraelsríkis þannig ógnað.[7][8]

Eftir morðið lýsti stjórn Ísraels því yfir að morðingjar Bernadotte greifa yrðu leitaðir uppi og sóttir til saka.[6] Ísraelsstjórn lét afvopna Stern-samtökin eftir morðið en enginn var ákærður eða handtekinn fyrir að drepa Bernadotte. Um fjörutíu árum eftir morðið var upplýst um að meðlimur Stern-samtakanna að nafni Yehoshua Cohen hefði myrt Bernadotte en Cohen var aldrei sóttur til saka fyrir verknaðinn.[7] Yitzhak Shamir, leiðtogi Lehi, sem hafði fyrirskipað morðið á Bernadotte, varð forsætisráðherra Ísraels fyrir Likud-flokkinn á árunum 1983 til 1984 og 1986 til 1992.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Eigil Steinmetz (24. september 1948). „Friðarvinurinn Bernadotte greifi“. Morgunblaðið.
  2. „Maðurinn á bak við „hvítu vagnana". Tíminn. 27. september 1973.
  3. „Bernadotte greifi bjargaði þúsundum manna úr fangabúðum“. Lesbók Morgunblaðsins. 19. október 1958.
  4. Leifur H. Müller (13. nóvember 1985). „„Hvítu vagnarnir". Dagblaðið Vísir.
  5. „Frá björgunarstarfi Bernadotte greifa“. Lesbók Morgunblaðsins. 17. október 1948.
  6. 6,0 6,1 „Öldin blóðuga“. Alþýðublaðið. 26. janúar 1967.
  7. 7,0 7,1 Pétur Pétursson (22. september 1988). „Gyðingar viðurkenna morðið á Folke Bernadotte greifa“. Morgunblaðið.
  8. „Stern-samtökin játa eftir 29 ár morðið á Bernadotte greifa“. Morgunblaðið. 10. mars 1977.
  9. Haberman, Clyde (22. febrúar 1995). „Terrorism Can Be Just Another Point of View“. Books of the Times. New York Times. Sótt 28. desember 2008. „Mr. Shamir, nearly 80, still speaks elliptically about the Bernadotte assassination. Years later, when Ben-Gurion moved to a kibbutz in the Negev desert, Sdeh Bokker, one of his closest friends there was Yehoshua Cohen, who had been one of the assassins.“ Review of Kati Marton's biography.