Fara í innihald

Fjöldamorðin í Bútsja

Hnit: 50°32′55″N 30°13′15″A / 50.54861°N 30.22083°A / 50.54861; 30.22083
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

50°32′55″N 30°13′15″A / 50.54861°N 30.22083°A / 50.54861; 30.22083

Lík á götum Bútsja þann 3. apríl 2022. Eitt líkið er með hendur bundnar fyrir aftan bak.
Lík inni í eyðilögðum bíl í Bútsja þann 2. apríl 2022.
Lík óbreyttra borgara í kjallara í Bútsja

Fjöldamorðin í Bútsja (úkraínska: Бучанська різанина; umritað: Bútsjanska rízanyna; rússneska: Резня в Буче; umritað: Reznja v Bútsje) voru fjöldamorð á úkraínskum borgurum og stríðsföngum[1] sem framin voru af rússneskum hermönnum frá 27. febrúar til 31. mars árið 2022 í bænum Bútsja og fleiri byggðum undir rússnesku hernámi norðan við Kænugarð, við upphaf innrásar Rússa í Úkraínu. Ljósmyndir og myndbönd af fjöldamorðunum komust í dreifingu þann 1. apríl 2022 eftir að Rússar hörfuðu frá bænum.[2][3]

Ljósmyndir af líkum óbreyttra borgara á götum Bútsja vöktu hörð viðbrögð á alþjóðavettvangi. Þann 7. apríl kaus allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að víkja Rússlandi úr sæti sínu við mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Þann 8. apríl heimsótti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vettvang fjöldamorðanna til að lýsa yfir stuðningi ESB við Úkraínu.

Rússnesk stjórnvöld neituðu því að rússneskir hermenn hefðu drepið óbreytta borgara og sögðu morðin hafa verið framin eftir að Rússar hörfuðu frá Bútsja þann 31. mars. Skýringar þeirra stangast á við vitnisburði sjónarvotta og við fjölda upptaka og gervihnattarljósmynda sem teknar voru á meðan bærinn var undir hernámi Rússa.

Rússar réðust inn í Úkraínu þann 24. febrúar árið 2022. Rússneski herinn sótti að úkraínsku höfuðborginni Kænugarði úr norðri og austri og hertók landsvæði í kringum hana. Upphafsáhlaup Rússa á Kænugarð misheppnaðist og rússneskir hermenn hörfuðu frá höfuðborgarsvæðinu undir lok mars.

Eftir að Rússar hörfuðu frá úthverfum Kænugarðs sagði Anatolíj Fedorúk, borgarstjóri Bútsja, við fréttaveituna AFP að 280 lík hefðu fundist í fjöldagröfum í borginni. Fleiri lík voru á víð og dreif um götur borgarinnar. Fréttamenn AFP sem komu til Bútsja sáu yfir tuttugu lík liggjandi á götunni, þar á meðal eitt með hendur bundnar fyrir aftan bak. Ekkert líkanna var klætt í herbúning. Daginn eftir að Fedorúk tilkynnti þetta greindi úkraínski ríkissaksóknarinn Íryna Venedíktova frá því að lík 410 almennra borgara hefðu fundist á svæðunum sem Rússar höfðu haft umráð yfir.[4][5] Úkraínumenn sökuðu Rússa um að standa fyrir úthugsuðum fjöldamorðum á almennum borgurum á meðan þeir réðu yfir borginni en Rússar höfnuðu ásökununum.[6]

AFP hafði eftir sjónarvotti sem var í Bútsja á meðan Rússar hertóku hana að versta ofbeldið hefði hafist um tveimur vikum eftir að bærinn var hernuminn. Þá hafi eldri hermenn, þar á meðal nokkrir á vegum rússnesku leyniþjónustunnar FSB, bæst í hópinn. Þeir hafi beitt grimmilegri aðferðum en hinir yngri og hafi gjarnan skotið karlmenn sem fóru út úr húsi til bana.[7] Fleiri sjónarvottar lýstu því í viðtölum við Al Jazeera og CNN að rússnesku hermennirnir hefðu drepið fólk handahófskennt, þar á meðal eldri borgara.[8]

Í hleruðum símtölum rússneskra hermanna á meðan Bútsja var hertekin heyrðust þeir nota orðið zatsjístka, eða „hreinsanir“, yfir aðgerðir hersins í bænum. Í mörgum slíkum símtölum greindu þeir frá því að þeir hefðu drepið óbreytta borgara. Blaðamenn AP og rannsakendur heimildaþáttarins Frontline hjá PBS skoðuðu mikið magn öryggismyndavéla og hlustuðu á símtöl hermannanna og sögðu aðferðirnar líkjast sambærilegum hreinsunum rússneska hersins í Téténíustríðunum.[9] Rússneskur liðhlaupi úr 64. herdeild rússneska hersins lýsti því síðar að hermenn herdeildarinnar hefðu fengið heimild til að skjóta alla sem væru með síma á sér. Hann sagðist hafa séð nauðganir og rán og þjófnaði með eigin augum en ekki morð á almennum borgurum.[10]

Upplýsingar þýsku leyniþjónustunnar BND, sem hleraði samskipti rússneskra hermanna við upphaf innrásarinnar, bentu til þess að málaliðar Wagner-hópsins hafi verið viðstaddir í Bútsja og hafi mögulega tekið þátt í morðunum.[11]

Eftir að upplýst var um fjöldamorðin í Bútsja höfnuðu rússnesk stjórnvöld því að rússneskir hermenn hefðu drepið óbreytta borgara og sökuðu Úkraínumenn um að hafa drepið þá sjálfir til að koma óorði á Rússa.[12] Gervihnattamyndir sýndu hins vegar að líkin höfðu legið úti á götum Bútsja frá því um miðjan mars, áður en Rússar hörfuðu frá bænum.[13]

Viðbrögð

[breyta | breyta frumkóða]

Volodymyr Zelenskyj, forseti Úkraínu, og Vítalíj Klytsjko, borgarstjóri Kænugarðs, líktu báðir fjöldamorðunum í Bútsja við þjóðarmorð.[14]

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagðist harmi sleginn þegar hann sá myndirnar af fórnarlömbunum í Bútsja og sagði mikilvægt að fram færi óháð rannsókn svo hægt yrði að draga hina seku til ábyrgðar.[15] Michelle Bachelet, mannréttindastjóri SÞ, tók í sama streng og sagði mikilvægt að sönnunargögnum fyrir morðunum yrði haldið til haga.[16]

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, fordæmdi fjöldamorðin og sagði saklausar fjölskyldur og börn hafa verið rænd framtíðinni.[17] Árið 2023, þegar ár var liðið frá fjöldamorðunum í Bútsja, heimsótti Þórdís vettvang þeirra ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.[18]

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, heimsótti Bútsja árið 2025 til að sækja ráðstefnu þar sem þess var minnst að þrjú ár væru liðin frá morðunum.[19]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Al-Hlou, Yousur; Froliak, Masha; Khavin, Dmitriy; Koettl, Christoph; Willis, Haley; Cardia, Alexander; Reneau, Natalie; Browne, Malachy (22. desember 2022). „Caught on Camera, Traced by Phone: The Russian Military Unit That Killed Dozens in Bucha“. The New York Times (bandarísk enska). bls. 4 min 54 s ff. ISSN 0362-4331. Afrit af uppruna á 24. desember 2022. Sótt 24. desember 2022.
  2. „Russia's Bucha 'Facts' Versus the Evidence“. Bellingcat (bresk enska). 4 apríl 2022. Afrit af uppruna á 4 apríl 2022. Sótt 20 apríl 2022.
  3. Litavrin, Maksim (5 apríl 2022). „Буча. Разбираем российские версии“ [Bútsja. Rússneskar skýringar greindar]. Медиазона (rússneska). Afrit af uppruna á 8 apríl 2022. Sótt 20 apríl 2022.
  4. Ólöf Rún Erlendsdóttir (4. apríl 2022). „Lík 410 almennra borgara hafa fundist í Bucha“. RÚV. Sótt 2. maí 2025.
  5. „„410 lík finnast á víð og dreif við Kænugarð“. mbl.is. 3. mars 2022. Sótt 3. mars 2022.
  6. „„Úthugsuð fjöldamorð". mbl.is. 3. mars 2022. Sótt 3. mars 2022.
  7. Markús Þ. Þórhallsson (6. apríl 2022). „Segir þá grimmustu í Bucha vera leyniþjónustumenn“. RÚV. Sótt 2. maí 2025.
  8. Jón Trausti Reynisson (4. apríl 2022). „Hryllingurinn í Bucha sem Rússar segja sviðsettan“. Stundin. Sótt 2. maí 2025.
  9. Samúel Karl Ólason (4. nóvember 2022). „Kölluðu ódæðin í Bucha „hreinsanir": „Ég er búinn að drepa svo mikið af borgurum". Vísir. Sótt 2. maí 2025.
  10. Kristján Kristjánsson (16. desember 2022). „Rússneskur hermaður sem var í Bucha – „Það voru klikkhausar þar". DV. Sótt 2. maí 2025.
  11. Samúel Karl Ólason (7. apríl 2022). „Hleruðu rússneska hermenn ræða morð á íbúum Bucha“. Vísir. Sótt 3. maí 2025.
  12. Kristján Kristjánsson (4. apríl 2022). „Níðingsverkin í Bútsja – Snerta við sjálfsvitund Vesturlanda og skyldu til að grípa inn í“. DV. Sótt 2. maí 2025.
  13. Hólmfríður Gísladóttir; Fanndís Birna Logadóttir; Samúel Karl Ólason (4. apríl 2022). „Vaktin: Gervihnattamyndir sýna lík á götum Bucha þann 11. mars“. Vísir. Sótt 2. maí 2025.
  14. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (3. apríl 2022). „Saka Rússa um þjóðarmorð í Bucha“. Vísir. Sótt 2. maí 2025.
  15. „Guterres í Bútsja: Rannsókn og reikningsskil nauðsynleg“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 2022. Sótt 2. maí 2025.
  16. „SÞ hvetja til óháðrar rannsóknar í Bucha“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 2022. Sótt 2. maí 2025.
  17. „Fordæmir fjöldamorðin í Bucha“. mbl.is. 3. apríl 2022. Sótt 2. maí 2025.
  18. „Ár liðið frá voðaverkunum í Bucha“. Utanríkisráðuneytið. 31. mars 2023. Sótt 2. maí 2025.
  19. „Forseti Alþingis sækir minningarathöfn og ráðstefnu í Bútsja í Úkraínu“. Alþingi. 31. mars 2025. Sótt 2. maí 2025.