Ferðin til Limbó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ferðin til Limbó er barnaleikrit eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu vorið 1966. Leikritið byggði á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama höfund sem kom út árið áður. Leikritið var fyrsta leikritið eftir íslenska konu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Klemenz Jónsson leikstýrði. Í leikritinu voru 22 söng- og dansatriði eftir Ingibjörgu Þorbergs og Fay Werner en hljómsveitarstjóri var Carl Billich. Þrjú lög úr leikritinu voru gefin út á samnefndri smáskífu árið 1969.

Ferðin til Limbó fjallar um prófessor (Bessi Bjarnason) og aðstoðarmann hans (Lárus Ingólfsson) sem senda tvær mýs, Magga (Ómar Ragnarsson) og Möllu (Margrét Guðmundsdóttir), til lítillar plánetu, Limbó, á milli jarðarinnar og tunglsins þar sem þau lenda í ýmsum ævintýrum meðal íbúa plánetunnar áður en þau komast aftur til jarðar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]