Ferdínand 1. de' Medici

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ferdínand 1.

Ferdínand 1. de' Medici (30. júlí 15493. febrúar 1609) var stórhertogi Toskana frá 1587 til dauðadags. Hann var fimmti sonur Cosimo 1. de' Medici og Elinóru di Toledo og tók við stórhertogadæminu af bróður sínum, Frans 1.

Ferdínand var gerður að kardinála fjórtán ára að aldri þótt hann tæki aldrei prestsvígslu og hélt hann því embætti eftir að hann varð stórhertogi og þar til hann giftist Kristínu af Lorraine 1589. Sem kardínáli dvaldist hann langdvölum í Róm, lét reisa Villa Medici þar og safnaði sér fjölda listaverka sem hann flutti til Flórens.

Hann var að mörgu leyti andstæða bróður síns og fyrirrennara, stýrði ríki sínu mildilega, bætti réttarkerfið og var umhugað um velferð þegnanna. Á valdatíma hans rétti Toskana við og öðlaðist aftur það sjálfstæði sem hertogadæmið hafði glatað á valdaskeiði Frans stórhertoga. Ferdínand efldi viðskipti og jók auð sinn gífurlega gegnum Medici-bankaveldið, sem hafði útibú í öllum helstu borgum Evrópu. Hann var umburðarlyndur gagnvart gyðingum og trúvillingum og Livorno varð griðastaður fyrir gyðinga sem gerðir höfðu verið brottrækir frá Spáni 1492 og einnig aðra ofsótta útlendinga.

Hann reyndi að losa Toskana undan áhrifavaldi Spánverja og eftir að Hinrik 3. Frakkakonungur var myrtur 1589 studdi hann Hinrik 4. í baráttu hans gegn Kaþólska bandalaginu, lánaði honum fé og hvatti hann til að taka kaþólska trú, sem Hinrik gerði svo og kvæntist bróðurdóttur Ferdínands, Maríu de' Medici.

Ferdínand styrkti sjóher Toskana og vann hann sigra á sjóræningjum við strönd Barbarísins 1607 og aftur á stærri flota Tyrkja ári síðar. Til að minnast þeirra sigra var reistur mikill minnisvarði í Livorno, Monumento dei Quattro Mori.

Á meðal barna Ferdínands og Kristínar stórhertogaynju voru Cosimo 2., sem tók við stórhertogadæminu eftir föður sinn, og Kládía, sem giftist Leópold 5., erkihertoga af Austurríki.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]