Fahri Korutürk
Fahri Korutürk | |
---|---|
![]() Korutürk u. þ. b. 1940. | |
Forseti Tyrklands | |
Í embætti 6. apríl 1973 – 6. apríl 1980 | |
Forsætisráðherra | Ferit Melen Naim Talu Bülent Ecevit Sadi Irmak Süleyman Demirel |
Forveri | Cevdet Sunay |
Eftirmaður | Kenan Evren |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. ágúst 1903 Konstantínópel, Tyrkjaveldi |
Látinn | 12. október 1987 (84 ára) Istanbúl, Tyrklandi |
Þjóðerni | Tyrkneskur |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn |
Maki | Emel Korutürk |
Börn | 3 |
Undirskrift | ![]() |
Fahri Sabit Korutürk (15. ágúst 1903 – 12. október 1987) var tyrkneskur flotaforingi, ríkiserindreki og stjórnmálamaður sem var sjötti forseti Tyrklands frá 1973 til 1980. Áður en hann varð forseti hafði hann verið þriðji yfirforingi tyrkneska sjóhersins frá 1957 til 1960. Hann var jafnframt þingmaður í öldungaráði lýðveldisins frá 1968 til 1973 og aftur árið 1980. Áður hafði hann verið sendiherra Tyrklands í Sovétríkjunum frá 1960 til 1964.[1]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Hann fæddist í Istanbúl á Soğukçeşme Sokağı, lítilli götu milli Topkapı-hallar og Ægisifjar. Hann gekk í kadetaskóla ósmanska flotans árið 1916, útskrifaðist þaðan árið 1923 og síðan frá tyrkneska flotaháskólanum árið 1933. Þann 18. mars 1934 gaf Kemal Atatürk forseti honum eftirnafnið Korutürk.[2][3] Korutürk gegndi virkri þjónustu á beitiskipum og kafbátum og ferðaðist síðan erlendis sem flotafulltrúi til Rómar, Berlínar og Stokkhólms. Árið 1936 tók hann þátt í Montreux-samningnum um Dardanellasundin sem herráðgjafi. Hann varð undirflotaforingi árið 1950 og stýrði ýmsum herdeildum þar til hann varð flotaforingi.
Eftir að Korutürk settist árið 1960 í helgan stein sem yfirforingi tyrkneska sjóhersins skipaði Cemal Gürsel forseti hann í stöðu sendherra Tyrklands til Sovétríkjanna (1960-1964) og síðar til Spánar (1964-1965). Árið 1968 skipaði Cevdet Sunay forseti hann í sæti við öldungaráð lýðveldisins. Þann 6. apríl 1973 kaus tyrkneska þingið hann sjötta forseta Lýðveldisins Tyrklands.[4] Á kjörtímabili hans gerðu Tyrkir innrás á Kýpur eftir að Makaríos 3. erkibiskupi var steypt af stóli af þjóðvarðliði Kýpur-Grikkja.
Korutürk gegndi stjórnarskrárbundnu sjö ára kjörtímabili til 6. apríl 1980. Kenan Evren sagðist hafa stungið upp á því að hann gegndi öðru kjörtímabili með stuðningi hersins þar sem Korutürk var virtur bæði af herforingjum og þingmönnum, en Korutürk hafnaði boðinu þar sem hann taldi það brjóta gegn stjórnarskrá.[5] Korutürk varð öldungaráðsmaður þar til herinn gerði valdarán árið 1980.[6][1]
Hann kvæntist Emel Korutürk árið 1935 og þau eignuðust tvo syni, Osman og Selah, og dóttur, Ayşe.[6][7] Fahri Korutürk lést í Moda í Istanbúl. Hann var jarðsettur í ríkisgrafreitnum í Ankara.
Sonur hans, Osman Korutürk, var útnefndur sendiherra Tyrkja í Teheran í október 1996. Íranska stjórnin afhenti honum gögn um föður hans sem hún hafði náð við hertöku bandaríska sendiráðsins árið 1979. Í gögnunum kom fram að flestir sendiherrar sem unnu í Sovétríkjunum hefðu notað svarta markaðinn til að skipta kaupi sínu fyrir Bandaríkjadali (sem var verðmætari hjá þorra fólks) en að Fahri Korutürk hefði verið sá eini sem notaði sovéska ríkisbankann Gosbank til að skipta launatékkanum sínum.[8]
Útgefin verk
[breyta | breyta frumkóða]- İskajerak Deniz Muharebesi hakkında bir konferans (Ráðstefnan um orrustuna um Skagerrak)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „KORUTÜRK, Fahri Sabit - TDV İslâm Ansiklopedisi“. TDV İslam Ansiklopedisi (tyrkneska). Sótt 19. mars 2022.
- ↑ Sagnorðið korumak þýðir „að vernda“ og vísar til væntinga Atatürks til þess að hann varðveitti arfleifð sína.
- ↑ „Atatürk'ün, Korutürk Soyadı vermesi-1934“. YouTube.
- ↑ Roger P. Nye (1977). "Civil-Military Confrontation in Turkey: The 1973 Presidential Election". International Journal of Middle East Studies, 8, pp 209-228. doi:10.1017/S0020743800026957.
- ↑ „Kenan Evren - Kenan Evren'in Anıları 1 | PDF“.
- ↑ 6,0 6,1 „Fahri Korutürk“. Embætti forseta Tyrklands. Afrit af upprunalegu geymt þann 24 janúar 2020.
- ↑ İbrahim Hakkı Damat (2004). Türkiye Cumhuriyeti'nin 6. Cumhurbaşkanı Fahri S. Korutürk (Siyasi Hayatı, Fikirleri, Şahsiyeti ve Eserleri) (MA thesis) (tyrkneska). Marmara University. bls. 15. Snið:ProQuest.
- ↑ „Babadan oğula kalan en onurlu armağan“. 28. desember 2005.
Fyrirrennari: Cevdet Sunay |
|
Eftirmaður: Kenan Evren |