Fara í innihald

Félix Tshisekedi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Félix Tshisekedi
Félix Tshisekedi árið 2021.
Forseti Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
Núverandi
Tók við embætti
24. janúar 2019
ForsætisráðherraBruno Tshibala
Sylvestre Ilunga
Jean-Michel Sama Lukonde Kyenge
Judith Suminwa
ForveriJoseph Kabila
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. júní 1963 (1963-06-13) (61 árs)
Léopoldville, Kongó-Léopoldville (nú Kinsasa, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó)
StjórnmálaflokkurLýðræðis- og framfarabandalagið
MakiDenise Nyakéru Tshisekedi
ForeldrarÉtienne Tshisekedi og Marthe Kasalu Jibikila
StarfStjórnmálamaður

Félix Antoine Tshisekedi Tshilombo[1] (f. 13. júní 1963) er kongóskur stjórnmálamaður og núverandi forseti Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Hann var kjörinn forseti árið 2019 og er fimmti forseti frá sjálfstæði ríkisins.

Tshisekedi er sonur Étienne Tshisekedi, sem stofnaði kongóska Lýðræðis- og framfarabandalagið árið 1982. Lýðræðis- og framfarabandalagið varð stærsti stjórnarandstöðuflokkur í Kongó næstu áratugina og var einkar virkt í andstöðu gegn stjórn Josephs Kabila á fyrsta áratugi 21. aldar.[2][3]

Félix Tshisekedi tók við formennsku í Lýðræðis- og framfarabandalaginu þegar faðir hans lést árið 2018.[4] Umtalsverður ágreiningur og klofningur varð meðal meðlima flokksins yfir því að Félix fengi formennskuna í föðurarf.[3]

Þann 11. nóvember 2018 gerðu Tshisekedi og sex aðrir leiðtogar stjórnarandstöðuflokka með sér samkomulag um að styðja Martin Fayulu sem forsetaframbjóðanda sameinaðrar stjórnarandstöðu gegn flokki Kabila, sem bauð sig ekki fram á ný. Innan við sólarhring síðar afturkallaði Tshisekedi hins vegar stuðningsyfirlýsingu sína við Fayulu og tilkynnti að hann myndi sjálfur bjóða sig fram í kosningunum fyrir hönd Lýðræðis- og framfarabandalagsins og kosningabandalagsins Brautar til breytinga.[3]

Þegar forsetakosningarnar voru haldnar í lok desember 2018 var Tshisekedi óvænt lýstur sigurvegari eftir tíu daga atkvæðatalningar.[4] Samkvæmt opinberum niðurstöðum kjörstjórnar hlaut Tshisekedi sjö milljónir atkvæða, Fayulu 6,4 milljónir og Emmanuel Shadary, frambjóðandi flokks Kabila, 4,4 milljónir atkvæða.[5] Fayulu neitaði hins vegar að viðurkenna niðurstöðu kosninganna og bæði Afríkusambandið, Evrópusambandið og kaþólska kirkjan í Kongó, sem stóð að 40.000 manna eftirliti, drógu í efa að Tshisekedi hefði í raun hlotið flest atkvæði.[6] Frakkar og Belgar lýstu jafnframt yfir efasemdum um niðurstöðurnar.[7]

Fayulu og stuðningsmenn hans sökuðu Tshisekedi um að hafa gert samkomulag við Kabila um að kosningunum yrði hagrætt í þágu Tshisekedi gegn því að Kabila hefði áfram hlutdeild að stjórninni eftir kosningarnar.[8] Fayulu kærði niðurstöðu kosninganna en stjórnlagadómstóll ríkisins staðfesti hana og lýsti Tshisekedi réttkjörinn forseta.[6]

Tshisekedi tók við embætti forseta þann 24. janúar 2019 og var þetta í fyrsta sinn í sögu Austur-Kongó sem friðsamleg stjórnarskipti fóru fram. Stuðningsflokkar Kabila héldu hins vegar meirihluta á þingi og því varð Tshisekedi að viðhalda stjórnarsamstarfi við bandamenn Kabila. Kabila hélt þannig verulegum völdum þrátt fyrir að Tshisekedi væri orðinn forseti.[8] Eftir embættistöku Tshisekedi dró þó nokkuð úr pólitískri spennu í landinu. Tshisekedi náðaði um 700 pólitíska fanga og hvatti pólitíska útlaga til að snúa heim. Hann lagði áherslu á baráttu gegn spillingu og gaf fyrirheit um umbætur á sviði öryggis- og stjórnmála. Staða stjórnarandstæðinga í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó tók jafnframt framförum eftir valdatöku Tshisekedi og yfirvöld eru talin hafa sýnt stjórnarandstöðuflokkum aukið umburðarlyndi.[3]

Í júlí árið 2020 rauf Tshisekedi bandalag sitt við Kabila og flokk hans vegna ósættis um útnefningar til embætta í hernum, stjórnlagadómstólnum og kjörstjórninni.[9] Í kjölfarið tókst Tshisekedi að semja við liðhlaupa úr flokki Kabila og skipa nýja stjórn án aðkomu forvera síns. Talið er að með þessu hafi Tshisekedi tekist að einangra Kabila og ýta gamla forsetanum frá völdum.[10]

Tshisekedi bauð sig fram til endurkjörs í forsetakosningum Kongó árið 2023. Yfirkjörstjórn landsins lýsti hann sigurvegara kosninganna í janúar 2024 en stjórnarandstæðingar gerðu alvarlegar athugasemdir við framkvæmd kosninganna.[11]

Árið 2024 kom kongóski herinn í veg fyrir valdaránstilraun gegn Tshisekedi.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Félix Tshisekedi investi candidat du parti historique d'opposition UDPS en RDC“ (franska). VOA Afrique. 31. mars 2018. Sótt 25. maí 2018.
  2. Ævar Örn Jósepsson (10. janúar 2019). „Tshisekedi lýstur sigurvegari í Kongó“. RÚV. Sótt 30. júní 2022.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Nr. 148/2020 Úrskurður“. Dómsmálaráðuneyti Íslands. 16. apríl 2020. Sótt 1. júlí 2022.
  4. 4,0 4,1 „Ts­hisekedi lýstur forseti í Kongó“. mbl.is. 10. janúar 2019. Sótt 30. júní 2022.
  5. Kristján Róbert Kristjánsson (10. janúar 2019). „Fayulu segir brögð í tafli“. RÚV. Sótt 2. júlí 2022.
  6. 6,0 6,1 Ásgeir Tómasson (20. janúar 2019). „Efast um að Tshisekedi hafi sigrað“. RÚV. Sótt 30. júní 2022.
  7. Þórgnýr Einar Albertsson (11. janúar 2019). „Næsti forseti Austur-Kongó sagður hafa stolið sigrinum“. Vísir. Sótt 30. júní 2022.
  8. 8,0 8,1 Ævar Örn Jósepsson (12. janúar 2019). „Flokkar hliðhollir Kabila halda þingmeirihluta“. RÚV. Sótt 30. júní 2022.
  9. „RDC: «grande suprise» du premier ministre devant les ordonnances du chef de l'Etat“. Le Figaro.fr (franska). Le Figaro. 21. júlí 2020. Sótt 2. júlí 2022.
  10. „RD Congo : comment Félix Tshisekedi a réussi à tourner la page Joseph Kabila“ (franska). France 24. 6. febrúar 2021. Sótt 2. júlí 2022.
  11. Þorgils Jónsson (7. janúar 2024). „Varar við aukinni spennu milli þjóðarbrota í Kongó“. RÚV. Sótt 18. janúar 2024.
  12. Markús Þ. Þórhallsson (20. maí 2024). „Herinn hrind­ir valda­ráns­til­raun inn­lendra og er­lendra manna“. RÚV. Sótt 22. maí 2024.


Fyrirrennari:
Joseph Kabila
Forseti Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
(24. janúar 2019 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti