Eystra-Geldingaholt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eystra-Geldingaholt snemma vors 2005
Eystra-Geldingaholt

Eystra-Geldingaholt

Eystra-Geldingaholt er bær í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Jörðin er landmikil og þurrlend að mestu og hentar því vel til sauðfjárræktar. Um 300 fjár eru á fóðrum að meðaltali og mjólkaðar um 21 kýr. Einnig eru hross á bænum. Sama ættin hefur setið jörðina frá árinu 1844.

Til Eystra-Geldingaholts heyrir einnig eyðibýlið Hamrar, og hefur það verið nytjað síðustu 100 árin. Þess má geta að Flagbjarnarholt sést frá Eystra-Geldingaholti.

Húsakostur[breyta | breyta frumkóða]

Íbúðarhúsið á bænum er byggt 1913 og stendur enn að mestu leyti. Það er tvílyft tréhús með stórri baðstofu, eldhúsi og tveimur herbergjum. Á loftinu er eitt herbergi og stórt rými og moldargóf í kjallara. Árið 1950 var byggt við húsið og sú viðbygging síðan stækkuð til helminga árið 1974. Árið 2004 var enn nýrra íbúðarhús byggt við vesturgafl þess gamla og býr þar prestsfjölskyldan sem áður bjó í prestbústaðnum Tröð.

Árið 1951 var byggt nýtt fjós vestan við bæinn, og var það í framhaldi af bæjarhúsunum. Árið 1994 var síðan nýtt fjós tekið í notkun og rúmar það um 25 kýr og 20 geldneyti. Í því er mjaltabás en í því gamla var fyrst mjólkað í vélfötur en síðar kom rörmjaltakerfi meðal annars fyrir tilstilli Guðna Ágústssonar, sem þá var mjólkureftirlitsmaður. Gamla fjósið var rifið 2003 til að rýma fyrir nýjasta íbúðarhúsinu.

Árið 1967 var byggt fjárhús nokkurn spöl frá bænum. Rúmaði það 200 fjár, en eftir að hlaðan var innréttuð haustið 2000 rúmar það nær allt féð, eða 300. Húsið er vélmokað með grunnum kjöllurum. Áður voru notuð 5 ólík beitarhús sem liggja víðsvegar um jörðina og sjást tóttir allra enn, en enn er fé í einu þeirra. Árið 2000 var Hamrafjárhúsið lagt niður, en nýtist þó enn á vorin við mörkun lamba auk þess sem það veitir skjól á haustin áður en féð hefur verið tekið á hús.

Búfjárrækt[breyta | breyta frumkóða]

Alla tíð frá árinu 1968 (eða frá þeim degi sem sauðfjársæðingar hófust aftur hér á landi) hefur sauðfjársæðing verið notuð í Eystra-Geldingaholti. Með þessu hafa fengist ágætis kynbætur og nýtt blóð fengist inn í stofninn. Við þetta hefur frjósemi og fallþungi aukist og einkunnir fyrir gerð hækkað og fitu lækkað.

Eftir fjárskiptin 1952 var tekin nýr fjárstofn norðan úr Kelduhverfi, meðal annars frá Víkingavatni, Undirvegg, Tóvegg og Grásíðu. Síðan hefur sami stofn verið á bænum, með tilkomu nýrra erfðaefna í gegnum sauðfjársæðingar.

Frægasta hross sem komið hefur frá Geldhyltingum er trúlega Gulltoppur frá Eystra-Geldingaholti. Hann var aðalreiðhestur Jóns heitins Ólafssonar í Geldingaholti og var hann fermingargjöf Jóns. Tamdi Jón hann sjálfur og keppti á á kappreiðum um sveitirnar, gjarnan á Murneyrum. Gulltoppur hlaut Hreppasvipuna alls 6 sinnum á árunum 1944 til 1956.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]