Eyraþing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eyraþing var á miðöldum landshlutaþing fyrir Þrændalög í Noregi, en ekki er að fullu ljóst hver voru tengsl þess við Frostaþing og hver verkaskipting þinganna var.

Eyraþing var háð í Niðarósi, á svokölluðum Eyrum, sem voru sandeyrar vestan við ós árinnar Niðar. Samkvæmt lögbók hafði Eyraþingið einkum tvenns konar hlutverk: Annars vegar að staðfesta lög og réttarbætur, hins vegar að útnefna konung Noregs. Ármaður boðaði til þingsins, sem var almannaþing, þ.e. allir bændur sem höfðu vinnufólk í þjónustu sinni áttu að hlýða þingboðinu.

Deilt er um hver voru tengsl Eyraþings og Frostaþings. Sumir fræðimenn, t.d. Gustav Indrebø, töldu Eyraþing eldra sem sameiginlegt þing fyrir Þrændalög, en um 950 hafi þingið svo verið flutt til Frostu og umdæmið víkkað út. Jørn Sandnes taldi hins vegar Frostaþing eldra, og að Eyraþing hafi komið upp með myndun þéttbýlis við Niðarós og tilkomu konungsgarðs þar. Hlutverk þess hafi verið takmarkað við mál sem snertu sambandið milli konungs (síðar einnig kirkju) og bændasamfélagsins í Þrændalögum.

Umdæmi[breyta | breyta frumkóða]

Eyraþing var sameiginlegt almannaþing fyrir átta forn fylki í Þrændalögum, sem nú eru ekki lengur til nema sem hluti af Norður- og Suður-Þrændalögum:

Innþrænsku fylkin:

Útþrænsku fylkin:

Talið er að upphaflega hafi Innþrændir og Útþrændir haft hvorir sitt þing. Þingstaður Innþrænda var líklega á bænum Mæri í sveitarfélaginu Sparbu, um 10 km sunnan við Steinker. Þingstaður Útþrænda var á Eyrum við Niðarós. Síðar sameinuðust þeir um eitt þing í Niðarósi, þ.e. Eyraþing.

Konungshylling í Noregi[breyta | breyta frumkóða]

Ólíkt mörgum öðrum landshlutum í Noregi, virðast fylkin í Þrændalögum snemma hafa sameinast um löggjöf og stjórnsýslu og myndað nokkurs konar bændalýðveldi. Þetta gaf svæðinu meira stjórnmálalegt vægi og áhrif en mannfjöldinn sagði til um, t.d. í baráttunni um konungsvaldið og sameiningu ríkisins. Í fyrstu mun konungshylling á Eyraþingi einungis haft gildi fyrir Þrændalög, en snemma virðist hyllingin þar hafa fengið ákveðna sérstöðu og táknræna þýðingu við valdatöku konungs í öllum Noregi. Í tíð Haraldar harðráða var hylling á Eyraþingi orðin forsenda þess að konungur gæti talist réttmætur konungur Noregs. A.m.k. frá 1204 þurfti konungsefnið að sverja konungseið við skrín Ólafs helga sem geymt var í Niðarósdómkirkju. Sem dæmi um konungshyllingar má nefna:

Eftir daga Hákonar gamla (1263) virðist Eyraþing hafa misst gildi sitt við útnefningu konunga í Noregi. Hins vegar hafði Niðarósdómkirkja hlutverk við krýningu konunga, og enn hefur dómkirkjan táknrænt gildi fyrir konungsfjölskylduna, t.d. við brúðkaup o.fl.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jørn Sandnes: Øreting. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder, 21, Rvík 1977:11-12.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Øretinget“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. júlí 2009.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]